28.04.1932
Neðri deild: 62. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1937 í B-deild Alþingistíðinda. (2148)

528. mál, reksrarlán fyrir Útvegsbanka Íslands h/f

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Það er rétt hjá hv. 3. þm. Reykv., að það var ekki eina sporið, sem stíga þurfti, þegar tekin var ábyrgð á innstæðufé Útvegsbankans. Vil ég hér bæta því við, sem ég sagði þá, að þeir, sem greiddu atkv. með þeirri ábyrgð, skuldbundu sig til þess að greiða atkv. með þessari ábyrgð á rekstrarfjárláni. Landsbankinn óskar vitanlega eftir þessari ábyrgð, sem hér er um að ræða. Hefi ég oft átt tal um þetta við bankastjórana. Áður en ég sigldi í vetur, voru þeir mér sammala um nauðsyn þess að fá nýtt rekstrarlán. Er ekki hægt að skilja annað en að Landsbankinn ætli sér að fara að öllu sem gætilegast, og sama er að segja um Útvegsbankann. Ætlar hann sér ekki að nota annað fé en það, sem hann getur haldið „liquid“. Er það óeðlilegt að láta Útvegsbankann taka fé að láni hjá Landsbankanum með 7% vöxtum, ef hann getur fengið það erlendis með 5% Vöxtum. Er það styrkur fyrir bankann að geta fengið svo góð vaxtaskilyrði, og þar sem Landsbankinn óskar ekki eftir að kaupa fiskvíxla Útvegsbankans, sé ég ekki, hvaða ástæða er til að amast við ábyrgðinni.

Um ólöglega seðlaútgáfu ætla ég ekki að tala í þessu sambandi, en sú seðlaútgáfa, sem Útvegsbankinn hefir ekki enn getað „afviklað“, verður ekki notuð til að setja hann á höfuðið. En þó er sjálfsagt að ganga eins hart að og gjaldþol bankans leyfir.

Hér er ekki um það að ræða að efla veikari bankann, en sleppa hendinni af þeim betur stæða. Hygg ég, að það muni þjóðinni hollast, að báðir séu styrktir. Er það Landsbankanum fyrir beztu, að Útvegsbankinn starfi jafnframt honum. Held ég líka, að Landsbankinn óski ekki annars. Ef menn telja ekki stjórn Útvegsbankans óhæfa og stjórn Landsbankans þá einu, sem trúandi sé fyrir peningum, skiptir það þjóðfélagið ekki miklu máli, hvor bankinn tekur þetta lán. En sé svo, þá er hægurinn hjá að bæta úr því, því að ríkisvaldið ræður stjórn beggja bankanna.