20.05.1932
Efri deild: 79. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1944 í B-deild Alþingistíðinda. (2169)

528. mál, reksrarlán fyrir Útvegsbanka Íslands h/f

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Ég get tekið undir það með báðum þessum hv. nm., sem hér hafa talað, að það væri í sjálfu sér mjög æskilegt, að ekki þyrfti að grípa til erlendra lána. En ég hygg, að ástæður allar séu þannig, að ef atvinnuvegirnir eiga að geta haldizt gangandi, þá verði ekki hjá þessu komizt. Útvegsbankinn hefir ekki yfir því fé að ráða, sem hann þarf með til að gera að verzlunarvöru þá framleiðslu, sem hann hefir annazt peningalega. Sú starfsemi yrði þá að færast yfir á einhverja aðra peningastofnun, sem væri þá helzt Landsbankinn, og kæmi það nokkuð í sama stað niður.

Vitanlega fylgir slíkri ábyrgð sem þessari sterk skylda til að varast á allan hátt að festa nokkuð af þessum peningum, og vitanlega er sú áhætta ekki útilokuð, því að þetta er sama og ábyrgð á atvinnuvegum landsmanna. En það er ekki hægt að segja, að vegna þeirrar áhættu eigi að leggja niður þá atvinnuvegi, sem nauðsynlegir eru til þess að fólkið hafi eitthvað til að starfa. Þessa áhættu verður að bera, og ég hygg, að að því er snertir sjávarútveginn, þá sé áhætta Útvegsbankans minni en hún hefir verið tvö undanfarin ár. Það er jafnan svo, þegar illa hefir farið eins og tvö undanfarin ár, að þá dregst kostnaður allur saman og bæði bankarnir og aðrir verða gætnari, svo að þótt verðlag sé lagt, þá verður tap atvinnurekenda ekki mikið þriðja hallærið. Vitanlega verður þetta ár erfitt fyrir ríkissjóð og eins fyrir almenning um alla atvinnu, en það er þó von til þess, að sjávarútvegurinn komist af og þá sérstaklega vélbátaútvegurinn, sem nú er fyrirsjáanlegt um, að kemst sæmilega af á þessu ári.

Með tilliti til þess, að það verði að halda atvinnuvegunum gangandi, og þar sem nú er þó fremur von til þess, að ekki verði tap á atvinnurekstrinum sjálfum, heldur en verið hefir undanfarið, þá hefi ég ekki séð annað fært en að fylgja þeirri heimild, sem hér er til umr.

Að endingu skal ég svo taka það fram, að ég lít líkum augum á þessa heimild og þeir 2 hv. nm., sem talað hafa í þessu máli.