20.05.1932
Efri deild: 79. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1966 í B-deild Alþingistíðinda. (2181)

528. mál, reksrarlán fyrir Útvegsbanka Íslands h/f

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Hv. 1. landsk. byrjaði ræðu sína með því að útskýra það, að það hefði ekki verið eðlilegt, að eftirlitsmaðurinn sendi skýrslu út af starfi sínu til þingsins eða almennings, en þetta var ekki aðalatriðið fyrir mér. Ég benti á þá staðreynd annarsvegar, til hvers þetta embætti var stofnað, og hinsvegar, hvernig bankanum hafði gengið, og rekstur bankans var á þann veg, eins og rannsókn hv. 2. þm. Reykv. syndi og ég áður drap á, að töpin stórhlóðust á bankann með hverju ári, og hefði þetta þó átt að vera viðgeranlegt. Ef stj. bankans tók ekkert tillit til aðvarana eftirlitsmannsins í þessum efnum og landsstj. daufheyrðist við þeim líka, skil ég ekki í öðru en að það hefði verið réttlætanlegt, þó að eftirlitsmaðurinn hefði snúið sér til Alþingis með aðvaranir sínar. Slíkt hefði a. m. k. afsakazt í krafti hins hærra réttlætis. Liggur þetta að vísu fyrir utan efni þessa frv., en úr því að hv. þm. vildi fara að verja eftirlitsmanninn í þessum efnum, vildi ég þó taka þetta fram.

Hv. 1. landsk. lét svo um mælt, að ég endaði ræður mínar á þessu ári með því að minnast á 2 af hinum stærri gjaldþrotamönnum Íslandsbanka, en tap Íslandsbanka á þessum tveim mönnum mun hafa numið um 2 millj. kr., og er það svipuð upphæð og það lán nemur, sem hér er um að ræða. Vil ég í þessu sambandi nefna mál eitt, sem við baðir, hv. 1. landsk. og ég, hofum mikinn áhuga fyrir, og er það, að byggt verði yfir háskólann og varið til þess sem svarar 1/4. þessarar upphæðar, en mikill hl. þm. telur þó ekki ráðlegt að verja þessu fé í byggingu, sem standa á í langan aldur. Ég held því, að hv. 1. landsk. geti ekki verið hissa á því, þó að drepið sé á þessa gjaldþrotamenn Íslandsbanka. Íslendingum kemur þetta vissulega við, því að þeir verða að borga þetta, þeir fátæku ekki síður en hinir ríku. Og gjaldendurnir muna áreiðanlega eftir þessum mönnum, því að þetta kemur niður á þeim í hækkuðum gjöldum og skottum.

Hv. 1. landsk. vildi verja afstöðu sína með því, að hann væri á móti því, að þetta lán væri tekið, og eins og ég er hann hræddur um, að féð mundi festast, þótt hann hinsvegar ætli að greiða atkv. með frv. Skiptir það þó þjóðina nokkuð meira í þessu máli, hvernig hann greiðir atkv. heldur en hvernig hann talar. Það skiptir engu máli, þótt hv. þm. hafi lagt fram forsendur, sem voru öfugar við niðurstöðuna. Þetta sýnir, að heilavél hans er stirð, og það er yfirleitt alltaf mesti galli á heilavélum, ef niðurstöðurnar verða öfugar við forsendurnar.

Þá fór hv. þm. mörgum fögrum orðum um það, að hann vildi ekki tortryggja hvorki núv. fjmrh. né nokkurn fjmrh., og að hann teldi rétt að ganga í þessa ábyrgð. En fyrir nokkrum stundarfjórðungum var hann búinn að neita fjmrh. um að fá framlengingu á nauðsynlegum sköttum, sem hann sjálfur hefir notað og talið sjálfsagða. En svo telur hann sjálfsagt að gera allt fyrir fjmrh. í þessu sambandi.

Þá sagði hv. þm., að sú lýsing, sem ég hefði gefið á því, hvernig lán væru fest, syndi, að það væri eðlileg fjárfesting hjá Íslandsbanka. Ég er ekki svo kunnugur Íslandsbanka, og ég býst ekki við, að menn hér í d. geti sagt um það, nema ef það væri bankaeftirlitsmaðurinn, hvort Útvegsbankinn sé búinn að tapa lánum, sem hann hefir lagt fram. Það hefir engin rannsókn verið gerð á það. Hitt, sem menn vita, er það, að Útvegsbankinn hefir afskrifað mikið af gömlum skuldum, sem hann erfði frá Íslandsbanka. Þar kemur fram afleiðingin af þeirri veilu í hugsanagangi hv. 1. landsk., að hann vildi 1930 halda við lífrænu sambandi milli bankans, sem dauður er, og hins nýja banka. Ég held, að það sé alveg óverðskulduð áras á stjórn Útvegsbankans, að hún hafi lánað nokkurt það lán, sem sé sambærilegt við lánið til Coplands og annara slíkra viðskiptamanna Íslandsbanka. Ég held, að ekki sé kunnugt um annað en að peningar hafa verið rifnir út úr bankanum, og það aðallega af flokksbræðrum hv. þm., meðfram í þeim tilgangi að skaða bankann og auka á vandræði hans. En mér er ekki kunnugt um, að lánveitingar til einstakra manna hafi tapazt. Það, sem menn vita, er það, að 1930 festi Útvegsbankinn mikið fé í Vestmannaeyjum, sem var lánað að nokkru leyti á ábyrgð ríkisins. Þar var ekki öðru um að kenna en bjartsýni manna, að lánað var of mikið út á hvert skpd.

Þegar minnzt er á eyðileggingu Íslandsbanka, þá er ein ástæða, sem aldrei má gleyma, og það er framkoma hv. 1. landsk. Þegar hann var fjmrh. 1925–26 hækkaði hann ísl. kr. um 3/8 í trássi við atvinnurekendur landsins. Ég skal þó geta þess til verðugs hross fyrir Eggert Claessen, að þótt honum hafi í mörgu yfirsézt, þá var hann það skynsamari en hv. 1. landsk., að hann sáa fyrirfram, hvað mikil vitleysa gengishækkunin var, og gerði það, sem hann gat, til þess að hindra hana. Sú hækkun lamaði bæði bankana og atvinnurekendur landsins. Þetta er ein að helztu ástæðunum til vandræða bankans.

Hv. þm. sagði svo að síðustu, að það hefði verið mjög á móti sínum vilja, að meirihlutavald Úvegsbankans væri hjá ríkinu, því að hann hefði heldur viljað, að það væri hjá hluthöfum, og þeir mundu hafa stjórnað betur. Ég ætla ekki að fara langt út í það, en vil bara minna hv. þm. á, að þetta ástand var áður; meirihlutavaldið við bankann var hjá hluthöfum, og þeir settu bankann á hausinn og komu skuldum sínum á landið. Ég vil ekki segja um það, hvort það sé svo dásamlegt, að ríkið hafi meirihlutavaldið, en það er búið að sýna sig, að það var ekki gott hjá hluthofunum áður. Þetta er ekki óalgengt um fyrirtæki erlendis, t. d. er British Petroleum þannig fyrir komið, að enska ríkið á rúmlega helming í því, og þó er fyrirtækið kallað hlutafélag.

Ég vísa almennt á bug þessum órökstuddu dylgjum, að ég og aðrir, sem hafa gagnrýnt óstjórn Íslandsbanka, hafi ekki haft rétt til þess. En það þarf dálítið Korpúlfsstaðavit í fjármálum til þess að halda því fram, að Íslandsbanka hafi verið vel stjórnað, þegar reynslan er búin að sýna, að landið er búið að tapa 25 millj. á fáeinum árum á því, hvað bankanum var illa stjórnað.