03.05.1932
Efri deild: 66. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1982 í B-deild Alþingistíðinda. (2219)

65. mál, raforkuvirki

Jón Þorláksson:

Ég geri ráð fyrir því, að þetta frv. verði að sjálfsögðu látið fara til n., og vildi ég vekja athygli þeirrar n. á sérstaklega einu atriði.

Með 4. gr. frv. á að lögleiða eftirlit með raforkuvirkjum víðsvegar á landinu. nú er það svo, að áður er til samkv. lögum eftirlit með öllum vélum á landinu. En þegar á það er litið, að rafmagnið er orðið eins algengt og það er, þar sem það er komið í alla kaupstaði landsins og flest kauptún, þá má nú heita svo, að h. u. b. allt vélaeftirlit sé einmitt eftirlit með vélum, sem ganga fyrir rafmagni. Ég viðurkenni fullkomlega, að það sé þörf að hafa eftirlit með rafmagnstækjum, en mér finnst ekki nema eðlilegt, að sameinuð væru þessi eftirlit, því ef farið væri að setja sérstaka stofnun til þess að hafa eftirlit með rafmagnsmálum, þá mundu í flestum tilfellum verða tvær opinberar stofnanir, sem hefðu eftirlit með sömu tækjunum. Ég vil því skjóta til n. þeirri till., að hún athugi, hvort ekki sé heppilegt að sameina þessi tvo eftirlit, af því að ég álit, að það sé bæði hentug og kostnaðarminni tilhögun.