01.04.1932
Efri deild: 40. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1989 í B-deild Alþingistíðinda. (2236)

62. mál, kirkjugarðar

Jón Þorláksson:

Ég vildi aðeins gera stuttlega grein fyrir, að ég sé mér ekki fært að greiða atkv. með þessu frv. út úr deildinni. Og þó skal ég viðurkenna, að ástæða væri til að reyna að gera þær umbætur á því, að það yrði sem aðgengilegast. En satt bezt að segja finnst mér það svo mikið vandaverk að umbæta það í því formi, sem það er, að ég tel það varla fært. Í raun og veru þyrfti að steypa það alveg upp og yrkja upp á nýjan stofn, ef vel ætti að vera. Ég skal fúslega viðurkenna, að frá mínu sjónarmiði séð er fullkomin þörf að endurbæta löggjöf um kirkjugarða, svo að þeim verði sýnd meiri rækt en hingað til. En mér finnst þetta frv. fara inn á skakkar brautir, sérstaklega þó þar, sem mest er fjölmennið. Það byggir á því, að í Reykjavík sé kirkjugarður þjóðkirkjunnar sérstök stofnun, en á öðrum stöðum er heimilað, að utanþjóðkirkjusöfnuðir geti tekið upp sérstaka grafreiti eftir reglum, sem ráðuneytið setur. Nú er spurningin, þegar talað er um orðið söfnuður, hvort þessi aðgreining mundi eiga við um þjóðkirkjusöfnuðinn og fríkirkjusöfnuðinn í Reykjavík. Það er mér ekki ljóst. Nú eru í frv. lagðar vissar skyldur á sveitar- og bæjarfélög og svo búið um það mál allt, að mér skilst, að verið sé að beina því máli inn á skakka leið. Eins og stendur er kirkjugarðurinn í Reykjavík í höndum ríkissjóðs og dómkirkjunnar, en svo á ekki að halda áfram að vera. Sá eini aðili, sem bær er um að taka að sér þessi mál í svo miklu fjölmenni, er bæjarfélagið. Og ég veit ekki annað en að það sé komið í það horf alstaðar þar, sem fjölmenni hefir safnazt saman, að það sé orðið bæjarstjórnarmál, nema að því leyti er snertir kirkjulegar athafnir, sem auðvitað er kirkjunnar mál eingöngu. A. m. k. að því er snertir kaupstaðina þá ætti að byggja löggjöfina á þessu. Úr hinu verður svo mikill hrærigrautur, að hafa fjármálin og nokkrar skyldur á bæjarstjórninni, en þó aðallega á sóknarnefndinni. Hitt er eðlilegra, að bæjarfélagið beiti sér fyrir þessum málum og eigi kost á því að koma sér upp bálstofum til líkbrennslu, þau sem óska þess.

Fyrir nokkrum árum stóð mikið þref um þetta í Kaupmannahöfn, en nú er svo komið þar, að þetta er orðið algert bæjarstjórnarmal, að því er snertir hina praktisku stjórn slíkra mála, en kirkjulegar athafnir eru eftir sem áður kirkjunnar mál.

Ég sé, að í frv. er gert ráð fyrir, að ef bæjarstjórn óskar að taka að sér fjárhald kirkjugarðs, þá getur ráðherra heimilað það, enda hvíla þá á bæjarstjórn sömu skyldur sem á sóknarnefnd eftir þessum lögum. En þetta verður óskýrt í framkvæmdinni, þó að kannske megi bjargast við það, enda tel ég líklegt, að bæjarstjórnir fari ekki að sækjast eftir þessum þjóðfélagsskyldum, ef þær verða ekki knúðar til þess. En að því er snertir löggjöf kaupstaðanna, þá er hreinna að leggja þetta á herðar bæjarstjórnanna. Ég skal játa, að í sveitum verður viðfangsefnið miklu flóknara, en er þó ekki viss um, að með frv. hafi tekizt að finna heppilega leið. Mér virðist það einskonar sambland af sveitarstjórnarrekstri og sóknarnefndarrekstri. Heppilegra að takmarka þetta nánar, því að viða á landinu hagar svo til, að kirkjusóknir og hreppar falla ekki saman. Ég get nefnt sem dæmi, að í minni fæðingarsveit eru 3 kirkjur í einum og sama hreppi, og þangað á kirkjusókn fólk úr þremur hreppum.

Þó að ég viðurkenni, að mikið hafi verið gert fyrir þetta mál af mþn., þá sé ég mér samt ekki fært að fylgja málinu út úr deildinni í því formi, sem það er.