21.05.1932
Efri deild: 80. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2028 í B-deild Alþingistíðinda. (2282)

364. mál, útflutningur á nýjum fiski

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Þetta frv. er komið frá Nd. og var það þar flutt af hv. 1. þm. S.-M. og hv. þm. Seyðf. Eins og menn sjá, er það breyt. á l., samþ. á síðasta þingi, er heimiluðu ríkisstj. að styðja að útflutningi á nýjum fiski.

Breyt. er aðallega í því fólgin að framlengja lögin og auka stuðning ríkissjóðs við málið. Hygg ég, að ekki sé hægt um það að deila, að eitt af því, sem mest veltur á um afkomu sjávarútvegsins, sé það, að meira verði til þess gert en hingað til að koma fiski í nýju ástandi til neytenda. Má a. m. k. með allri sanngirni líta svo á, að fyrir dyrum liggi líkar breyt. á fiskmarkaðinum og á kjötmarkaðinum. Kröfur neytenda verða æ meiri til nýmetis, saltvara verður alltaf óútgengilegri. Nú er svo háttað fyrir hinum smærri útvegi hér á landi, að hann á erfitt uppdráttar nema aðstoðar ríkisins njóti við og löggjafarvaldsins. Má benda á það, að Alþingi hefir haft fullan skilning á þessu atriði að því er snertir kjötið og sýnt virðingarverða viðleitni á því að koma þeim útflutningi í viðunanlegt horf. Hafa þær ráðstafanir borið árangur. Síðasta ár voru og gerðar nokkrar tilraunir um útflutning á nýjum fiski, og má segja, að þrátt fyrir nokkur mistök hafi þó þær tilraunir gefið góðar vonir um sæmilegan árangur, ef rétt er að farið. Því er þetta frv. fram komið, og leggur sjútvn. þessarar deildar til, að það verði samþ. Hinsvegar lítur n. svo á, að þessi stuðningur ætti að geta komið að fullum notum, þótt fjárhæðir þær, sem frv. áætlar sem framlag frá ríkissjóði, væru lækkaðar nokkuð. N. leggur því til, að þessar upphæðir verði færðar niður um helming, bæði af því að hún kannast við, að rétt sé að fara varlega, og svo af hinu, að ekki er ástæða til að ýta undir óvarlegar ráðstafanir, með því að ríkið bjóði meiri stuðning en þörf er á. Er mér óhætt að segja, að hæstv. fjmrh. muni mæla með því, að frv. nái fram að ganga, ef brtt. okkar í sjútvn. verða samþ. Má telja öllu vel í hóf stillt, ef frv. gengur þannig fram. Vona ég að lokum, að hv. d. líti með fullum skilningi á málið og samþ. frv. eftir till. okkar.