12.05.1932
Neðri deild: 73. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2069 í B-deild Alþingistíðinda. (2349)

645. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Ég get ekki bent á sérstakar likur fyrir því, að hægt sé að „konvertera“ lánum ríkissjóðs erlendis á þessu ári, eða fá breyt. á lánskjörunum. En ég vil þó benda hv. þm. á, að peningavextir eru að lækka í Englandi, og síðast fréttist í dag, að forvextir Englandsbanka væru komnir niður í 21/2 %. Hugsanlegt er, að þessi vaxtalækkun í Englandsbanka vari stutta stund og stafi af augnabliksástæðum. En benda má á það, að enska stjórnin ætlar að „konvertera“ ríkislánum á þessu ári í stórum stíl. Það hefir að vísu verið lengi á döfinni, en nú er farið að gera ákveðið ráð fyrir því. Þetta gefur okkur til kynna, að rétt muni vera að hafa auga á lansmöguleikum nú þegar á þessu ári. Þetta bendir allt til þess, að rétt sé að hafa vakandi auga á þeim möguleikum, sem bankasamband okkar í London gætu útvegað. Það má ætla, að Barclay's Bank, sem hefir veitt íslenzka ríkinu bráðabirgðalán, mundi vera ánægður með að fá það út úr hinum daglegu bankaviðskiptum og færa þarf yfir í fast lán. Þegar heimild væri fengin til að „konvertera“ þessum lánum, þá væri sjálfsagt að láta bankann vita um það og fá leiðbeiningu frá honum um það, hvenær heppilegt væri að leggja af stað og peningamarkaðurinn væri hagfelldur til nýrrar lántöku, til að greiða upp gömlu lánin. — Hið eina, sem hægt er að segja um möguleika fyrir þessari lántöku, er það, að nú lítur út fyrir, að peningamarkaðurinn geti orðið hagfelldur. En það eru líka þær einu líkur, og ekki aðrar. En þó þykir rétt, að heimild þessi sé til, ef tækifæri býðst.

Hv. þm. talaði um, að líkur væru fyrir ráðh.skiptum. Það er vitanlega nokkuð, sem vel getur komið fyrir. En ég get þó varla gert ráð fyrir því, að ég fái svo óverðugan eftirmann, að hann geri ekki svo mikið sem að líta í Alþt. áður en hann tekur 12 millj. kr. lán. Ég vona, að í þessu áliti mínu felist ekkert oftraust á honum, jafnvel þó hann hefði hrakið mig úr því sæti.

Hv. þm. benti á, að lánið frá 1921 væri í skuldabréfum, sem lengi mundu vera að nást inn. Það er rétt, og þess vegna er ekki hægt að sanna, hvernig láninu verður varið, fyrr en síðasta bréfið er komið inn og að fullu greitt. Allt opinbert umstang og kostnaður við lántökur þykir nógu mikið, þó ekki sé bætt við lánveitanda eftirliti á því, hvernig láninu er varið. Og ég veit, að sá banki, sem lánar, óskar ekki eftir því, að þetta standi í lögunum. Og að þess er óskað, að það standi ekki í þeim, er eingöngu gert af ótta við það, að með því ákvæði komi heimild þessi ekki að fullu gagni.