18.05.1932
Efri deild: 77. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2073 í B-deild Alþingistíðinda. (2366)

645. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

Jón Þorláksson:

Það hefir nú ekki þótt ástæða til að vísa þessu máli til n., en ég hefi veitt því eftirtekt, að með þessu frv. er farið fram á lánsheimild til handa ríkisstj. á 12 millj. ísl. króna, eða jafngildi þess í erlendri mynt. — Í grg. þeirri, er fylgir frv., er svo þess getið, að tilætlunin með þessari lántöku sé sú, að greiða upp eldri lán, sem eru í sterlingspundum, og er sagt, að eftirstöðvar þeirra lána séu nú £500000 tæp. Þessi lán virðast mér ekki samsvara öllu meira en 11 millj. kr. eftir núverandi gildi. Er því ríflega áætlað fyrir þessum skuldum, þar sem 1 millj. kr. er fram úr.

Það stendur nú að vísu í grg., að ekki sé um nýja lántöku að ræða, heldur eigi það lán, sem tekið verður eftir þessari heimild, að ganga til þess að greiða upp eldri lán. En svo hefir nú verið ákveðið áður og þó farið öðruvísi, því 1930 gekk talsverður hluti af því láni, sem þá var tekið, í ríkissjóð og var varið til almennra þarfa, en ekki til þeirrar greiðslu, sem lántökuheimildin byggðist á. Ég hefi ennfremur þózt veita því eftirtekt, að í Nd., þegar frv. var þar, hafi komið fram brtt. við það, sem einskorðaði lánið í sjálfum l. við þann tilgang, sem um getur í grg. En sú brtt. var ekki samþ. þetta gefur mér tilefni til þess að líta svo á, að það þurfi athugunar við, hvort rétt sé að veita þessa heimild, einkum þegar það tvennt er athugað, að hér er um stærri heimild að ræða en með þarf til greiðslu á heim lánum, er um getur í grg., og að það er ekki einskorðað í l. sjálfum, að ekki megi nota þetta lán til annars en endurgreiðslu eldri lána.

Það er mín skoðun, að nú sé óhentugur tími að leita nýs láns til greiðslu eldri lána, og sé því ósýnt um árangur af samþykkt þessa frv. Það má ekki láta það blekkja sig, þó Englandsbanki hafi nú lækkað forvexti sína í bili. Það er alveg sérstök ráðstöfun, gerð til þess að verjast spekulationum í hækkun gengis á £. Með því að lækka forvextina er verið að verjast því, að fé, sem flöktir á milli landa, setjist að í Englandi, í von um það, að sterlingspundið hækki, og að það fé verði aðnjótandi þeirrar hækkunar. Ég hefði því viljað heyra, hvaða vonir hæstv. fjmrh. gerir sér um slíka lántöku nú, hvort hann álítur slíkt lán fáanlegt nú og með hvaða kjörum. Aðaleftirstöðvarnar af þeim lánum, sem ráðgert er að borga upp, eru frá 1921, og er það lán með 7% vöxtum, ef ég man rétt.

Ég hefi hugsað mér að greiða atkv. með þessu frv. til 3. umr., en það fer eftir þeim upplýsingum, sem hæstv. fjmrh. gefur, hvort ég treysti mér til að greiða því atkv. við þá umr.