23.05.1932
Efri deild: 81. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2078 í B-deild Alþingistíðinda. (2374)

645. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

Jón Þorláksson:

Ég hefi leyft mér að bera fram brtt. við þetta frv. á þskj. 770, og er tilætlunin sú, að láta það koma fram í l. sjálfum, ef þau verða samþ. og öðlast staðfestingu, að þessi lántökuheimild sé algerlega einskorðuð við það, að lánsféð sé notað til endurgreiðslu á öðrum ríkislánum. Þessi tvö lán, sem ætlazt er til, að séu endurgreidd með þessu lánsfé, ef til kemur, eru bæði tekin í London, og eru þau bæði tekin í sterlingspundum, og þótti mér því rétt að miða lántökuheimild þá, sem hér um ræðir, við sterlingspund.

Það var vikið dálítið að þessu efni við 2. umr. þessa máls, og upplýstist þá, að lánveitendur hefðu áður, að því er snertir heimildina fyrir lántökunni, sem fór fram árið 1930, haft á móti því, að heimildarl. hefðu að geyma ákvæði um notkun lánsfjárins, og af þeim ástæðum, að þeir vildu ekki taka að sér eftirlit með fjárráðstöfunum ísl. stj. Þótt þessar aths. lánveitendanna væru óvenjulegar að því er það lán snertir, eins og ég áður hefi fært rök að, tel ég þó, að þeir hafi í því efni haft einhverja ofurlitla átyllu fyrir aths. sínum, en ég tel hinsvegar ekki, að sú átylla næði til þess, þótt sett væru í þetta frv. ákvæði um það, að lánið eigi eingöngu að nota til endurgreiðslu á gömlum lánum. Eins og nú er ástatt, er ekki von um, að ríkislán eins og hér er leitað heimildar fyrir verði tekið annarsstaðar en í London, eða a. m. k. með vitund og þátttöku þeirra peningastofnana í London, sem ísl. ríkið nú þegar er orðið mest skuldbundið, og þar sem hin eldri lán, sem endurgreiða á með þessu lánsfé, einnig eru tekin í London, sumpart hjá sömu aðiljum og sumpart undir handarjaðri þeirra, lít ég svo á, að það sé síður en svo, að þessir aðiljar geti haft á móti því, að það sé ákveðið í 1., að þessu lánsfé skuli varið á þennan hátt, og á þennan hátt eingöngu. Annað af þessum tveimur gömlu lánum, sem á að endurgreiða, er tekið hjá Barclay's Bank í London, og eru einmitt helzt líkur til, að sá banki fáist til að greiða fyrir nýrri lántöku, og væru þá hæg heimatökin fyrir hann að taka að sér að, greiða sjálfum sér annað þessara eldri lána, en hitt lánið er skuldabréfalán, sem boðið var út í London á sínum tíma, og til þess að greiða það verður að fara fram innköllun á skuldabréfunum, og framkvæmd slíkrar innköllunar verður að gerast í gegnum einhvern banka eða miðlara í London. Ef endurgreiðsluákvæðið verður sett í frv., þýðir það því nánast það, að það bæri að fela þeirri lánveitandi peningastofnun framkvæmd þessarar innköllunar, og er þar um viðskipti að ræða, sem greiða verður þóknun fyrir, og sérhver sú peningastofnun, sem veitti þetta nýja lán, mundi þakksamlega taka við þeim viðskiptum að hafa á hendi innköllun og ráðstöfun þessara handhafaskuldabréfa. Ég sé því ekki, að neitt geti verið því til fyrirstöðu, að slíkt ákvæði sem þetta sé sett í frv.

Að því er snertir afstöðuna innanlands, þá er það ekki í samræmi við þá gætni, sem ber að hafa um svo stórkostlegt fjármagn sem þetta, að skila slíkri lántökuheimild sem þessari í hendur hvaða stj., sem kann að verða á nálægum árum, þannig orðaðri, að stj. geti í fullu lagaleyfi tekið þetta lán og varið því til hvers sem er, a. m. k. til hvers þess, sem stj. á hverjum tíma er heimilt að lata gera fyrir lánsfé, og það er margt í þeirri löggjöf, sem gengið hefir fram á síðustu árum, sem stj. er heimilað að láta gera, ef fé er veitt til þess í fjárl. eða stj. hefir yfir að ráða lánsfé til þessara hluta.

Við 2. umr. þessa máls var bent á það, að lánsheimildin eins og hún er ákveðin í frv., 12 millj. ísl. kr., fjallaði um nokkuð hærri upphæð en á að endurgreiða. Mismunurinn nemur eftir núverandi gengi um 1 millj. ísl. kr. Þótt ég telji það heldur óviðunnanlegt að veita lántökuheimild fyrir hærri upphæð en þau lán nema, sem á að endurgreiða, er þetta þó ekkert aðalatriði fyrir mér í þessu máli. Þó að segja megi, að slíkt feli í sér möguleika fyrir hlutaðeigandi stj. til að ráðstafa einhverjum afgangi af láninu til annara þarfa, mætti líka líta svo á, að upphæðin væri ákveðin þetta hærri í frv. til þess, að stj. væri ekki útilokuð frá að taka lánið með einhverjum afföllum, ef heppilegt hætti af öðrum ástæðum. Það er því engan veginn tilgangurinn með brtt. minni, að heimildin megi ekki, ef vill, vera rýmri en nafnverð þeirrar skuldarupphæðar, sem á að endurgreiða með láninu, þótt mér hinsvegar sýndist rétt að orða þetta svo, að heimildin væri bundin við £500000, sem er örlítið hærri upphæð en nafnverð þessara tveggja eldri lána. Ef þetta út af fyrir sig þætti of þröngt, er ég fús til samkomulags um að hækka upphæðina, til þess að gera það mögulegt, að lánið yrði tekið með einhverjum afföllum, ef slíkt þætti henta á sínum tíma. Tilgangur minn er eingöngu sá, að gera þessa löggjöf svo úr garði, að það sé ljóst á lögformlegan hátt, að Alþingi er hér ekki að veita heimild til annarar lántöku en til að endurgreiða eldri ríkisskuldir, til þess þannig að ná þeim ávinning, sem kynni að fast við það, að hin nýju lán fengjust með hagstæðari kjörum en hin eldri.