14.05.1932
Neðri deild: 75. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 613 í B-deild Alþingistíðinda. (241)

2. mál, fjáraukalög 1930

Magnús Guðmundsson:

Það voru aðeins nokkur orð í ræðu hv. frsm. meiri hl., sem ég vildi athuga lítið eitt. Hann sagði, að það hefði verið tekin upp ný regla um það, hvaða greiðslur ætti að taka upp í fjáraukalög, og vitnaði í því efni til 35. aths. endurskoðenda við LR. 1929, þar sem sagt er, að þegar lög setji ákveðið hámark fyrir greiðslu í ákveðnu skyni og meira er greitt en hámarkinu nemur, þá eigi ætíð að taka slíkar umframgreiðslur upp í fjáraukalög.

Fram til síðustu ára hefir ekki þurft að taka í fjáraukalög, svo að nokkru hafi numið, greiðslur, sem heimilaðar voru í eiðrum lögum en fjárlögum, af þeirri einföldu ástæðu, að mjög sjaldan hefir verið farið fram úr leyfðri hámarksgreiðslu. En þetta átti sér stað 1929, og þess vegna var áðurnefnd aths. gerð. En á árinu 1930 er um að ræða svo gífurlegar upphæðir, sem greiddar hafa verið samkv. öðrum lögum en fjárl. umfram það hámark, sem þau lög ákveða, að annað eins hefir ekki áður þekkzt, og þarf ekki annað en að nefna einn lið sem dæmi, þar sem greidd var 1/2 millj. kr. umfram, en hin áætlaða upphæð var 1 millj. kr. Það var til síldarverksmiðju ríkisins á Siglufirði. Það er auðvitað, að fjáraukalögin hækka, þegar svona er farið að. Það var enginn ágreiningur um það í fyrra út af landsreikningnum fyrir árið 1929, að slík upphæð sem þessi ætti að vera í fjáraukal.; Það lá í hlutarins eðli. Hv frsm. taldi, að í þessum fjáraukal. fyrir 1930 væri farið lítið lengra fram úr heimildum en áður hefði átt sér stað. Ef hann vill sanna þessi ummæli sín, þá verður hann að sýna fram á það með tölum, hvað þær upphæðir eru háar, sem fyrrv. ríkisstjórnir hafi greitt umfram heimildir í fjárlögum, og það efast ég um, að hann geti. Hann tók það fram, að umframgreiðslur hefðu ekki verið hærri á síðari árum en 1930, en kvaðst ekki muna, hvað „fjáraukalögin miklu“ árið 1921 hefðu verið há. Ég vil þá minna hv. frsm. á það, að þau fjáraukalög voru fyrir 2 ár, 1920 og 1921, af því að fjárhagstímabilið var þá 2 ár. Þau fjáraukalög voru um 41/2 millj. kr., en þessi fjáraukalög, sem eru aðeins fyrir árið 1930, eru á sjöttu mjllj. kr. Þetta sýnir, að fjáraukal. þessa eina árs, 1930, eru hærri en „fjáraukalögin miklu“, sem þó voru fyrir tvö ár. Vera má, að hv. frsm. finnist þetta aðeins lítilsháttar munur, en mér finnst munurinn gífurlegur. Um fjáraukalögin 1920–1921 fékk ég þann vitnisburð hjá allri fjhn. Nd., sem var að meiri hluta skipuð pólitískum andstæðingum, að fjáreyðsla mín sem fjmrh. á þeim árum hefði ekki verið meiri en við hefði mátt búast eftir þeirri dýrtíð, sem þá var. Ef hæstv. núv. stj. getur fengið samskonar vottorð nú fyrir fjáraukalögin 1930, þá skal ég ekki um þau fást né ásaka hana.

En ég er viss um að slíkt vottorð getur hún ekki fengið.

Ég skal nefna dæmi um mismuninn á dýrtíðinni 1920–1921 og 1930. Árið 1921 var dýrtíðaruppbótin 1371/3%, og 1920 120%, en 1930 var hún ekki nema 40%. Og þó að þetta sé ekki nákvæmur mælikvarði á verðhlutföllum þá og nú, þá má þó öllum vera það auðskilið, hvað munurinn er gífurlegur á dýrtíðinni nú og 1921.

Ég kæri mig ekkert um að rifja upp það, sem áður hefir verið ritað um „fjáraukalögin miklu“. Það verður ef til vill tækifæri til þess síðar. En þegar hv. frsm. meiri hl. fjhn. heldur því fram, að alþingishátíðin eigi aðalþáttinn í þessum umframgreiðslum 1930, þá er það alls ekki rétt. Vitanlega er hægt að benda á stóra útgjaldaliði í sambandi við hana, en þó eru þeir ekki margir í allri þeirra súpu, því að mikið fé til hátíðarinnar var veitt í fjáraukal. undanfarinna ára. En það, sem mestu varðar er, að fénu hefir verið ausið svo gengdarlaust í allar áttir 1930, að á því er ekkert hóf.; verður sjálfsagt talað frekar um það, þegar landsreikningurinn fyrir það ár kemur til umr. Ég geri ráð fyrir, að sá LR. verði talsvert nafnkunnur og umtalaður, en hvort þessi fjáraukalög verða það líka, skal ég ekkert fullyrða um, en það fer sennilega nokkuð eftir því, hvað mikið verður um þau talað.