01.04.1932
Neðri deild: 40. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2153 í B-deild Alþingistíðinda. (2478)

256. mál, gjaldfrestur bænda og bátaútvegsmanna

Jóhann Jósefsson:

Frv. Þetta heitir frv. til 1. um gjaldfrest bænda og bátaútvegsmanna. Þó nær vernd frv. ekki til allmargra bátaútvegsmanna, þar sem svo er ákveðið, að þeir, sem eiga báta yfir 30 smál., falli ekki undir hana. Hinsvegar eiga ákvæði frv. að gilda jafnt fyrir sórbændur sem aðra. Er svo að sjá, sem bátaútvegsmönnum hafi verið hnýtt hér aftan í, enda mun svo vera. Þá ætti þó að liggja í augum uppi, að meðan útvegurinn er rekinn með tapi, er sá engu betur staddur, sem á 60 smál. bát en 30 smál. Eins og nú horfir fyrir atvinnuvegunum, er aðstaðan því verri, því meira sem menn hafa umleikis. Ég hélt þessari skoðun fram hér á þingi í fyrra og fékk uppnefni að launum í „Tímanum“. Slíkur var skilningurinn þar á örðugleikum útgerðarinnar.

Röksemdir hv. frsm. voru sléttar og felldar, það sem þær náðu. Engum dettur í hug að neita því, að rétt sé, að hið opinbera hlaupi undir bagga með atvinnuvegunum á krepputímum. En þó get ég ekki betur séð en að margt hafi verið rétt athugað í aðfinningum hv. 3. þm. Reykv.

Allur smærri og stærri atvinnurekstur hefir orðið að fleyta sér á lánsfé undanfarið. Smáútvegsmenn hafa lítil lán fengið í bönkum, en því meiri í almennum verzlunum, hjá kaupmönnum og kaupfélögum. Þessar einkalánsstofnanir standa hinsvegar uppi með skuldir við bankana og Sambandið. Hvernig fara nú kaupmenn og kaupfélög að því að standa í skilum við þessar stofnanir, þegar skuldugum viðskiptamönnum þeirra er veittur gjaldfrestur, en ekki þeim sjálfum?

Hér á að fyrirbyggja, að gengið sé of hart eftir skuldum hjá bændum og nokkrum hluta smáútvegsmanna, og jafnvel þeim hluta, sem ekki þurfa þessa fremur með en aðrir. Ég ætla ekki að deila á þá stefnu frv., að hjálpað mönnum út úr vandræðum án þess að missa allt sitt. En þegar landbn. er í 16. gr. að gera sérstakar ráðstafanir gagnvart stofnunum, sem hafa óþægindi af framkvæmd væntanlegra gjaldfrestslaga, þá er augljóst, að með þeim ákvæðum er verið að gera upp á milli þegnanna. Ég fæ ekki séð, hvers vegna t. d. kaupfélög eiga að standa berskjölduð uppi, þegar búið er að binda skuldaeign þeirra um eitt ár. Hér er um varhugavert og ranglátt atriði að ræða. Hv. 3. þm. Reykv. benti á eina afleiðingu af þessari aðferð, — að enginn þyrði að lána til atvinnuveganna lengur af ótta við að þingið gripi aftur inn í viðskiptalifið með svipaðri löggjöf. Ég held líka, að svo muni fara, ef Alþingi beitir ekki meira réttsýni og lætur vernd laganna ná til fleiri en nú.

Ég vona, að hv. d. athugi það, hvernig girða megi fyrir, að svo verði hér af stað farið, að nokkur hluti atvinnurekenda verði gerður óhæfur til greiðslu og jafnvel gjaldþrota, til að losa hinn hlutann við að standa við skuldbindingar sínar. Hv. frsm. fór stutt út í það, hvers vegna frv. væri svo takmarkað, en skýringar hans voru ekki fullnægjandi. Ef Alþingi ætlar að vernda bændur og bátaútvegsmenn, verður að stíga spor til bjargar þeim, sem verða fyrir beinu tapi af þeim ráðstöfunum, þótt ekki séu það „sparisjóðir eða aðrar lánsstofnanir“, eins og segir í 16. gr.