01.04.1932
Neðri deild: 40. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2176 í B-deild Alþingistíðinda. (2485)

256. mál, gjaldfrestur bænda og bátaútvegsmanna

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Ég skal ekki bera brigður á það, sem hv. frsm. sagði um það, að sú fjárhæð, sem veittur yrði frestur á, mundi kannske ekki verða mikil til næsta þings. En ég geri ráð fyrir, að ef farið verður út á þá braut að setja þessi lög og þau gildi fram yfir næsta þing, þá þýði það, að þessi lög verða framlengd með einhverjum breyt. á næsta þingi. Það er ekki hægt að fara út á þessa braut, ef lögin eiga einungis að gilda í eitt ár, því að þá þarf áreiðanlega a. m. k. eitt ár til, til þess að jafna svo um, að sama ástand komi aftur eins og það var áður en lögin gengu í gildi. En með tilliti til þess, að líklegt er, að það skipulag haldist áfram, þá er æskilegt, að ráðuneytinu séu ekki lagðar ótakmarkaðar skyldur á herðar. Í minni fyrri ræðu lagði ég áherzlu á það, að ef um miklar fjárhæðir er að ræða, þá sé þinginu skylt að sjá fyrir þeim. En ég get líka tekið hinn möguleikann, að ekki sé um miklar fjárhæðir að ræða. Í því tilfelli er ástæðulaust að leggja þessa skyldu á fjmrn. Ef gengið er út frá því, að aðeins sé um smáar fjárhæðir að ræða, þá er þeim lánsstofnunum, sem eiga að innheimta afborganir, vandalaust sjálfum að veita gjaldfrest. Aftur á móti, ef skuldinni er komið á annan að borga, þá er það öruggt, að lánsstofnanirnar veita ekki eins marga gjaldfresti, en hugsa sér, að það megi færa yfir á þriðja aðilann samkv. lögunum. Það er sú hætta, sem ekki er vert að auka frá því, sem er. Um síðara atriðið, að sú hjálp, sem eigi að veita bönkum og sparisjóðum, sé einungis miðuð við ákvæði þessara laga, þá er það alveg rétt. En ef þær fjárhæðir verða litlar, þá má segja á sama hátt, að lánsstofnanirnar geti borgað sjálfar og geti breytt afborgunum í ný lán, án þess að það gangi gegnum ríkissjóð, sem sennilega yrði að taka lán hjá stofnununum sjálfum, ef honum er ekki séð fyrir neinu fé. Það mundi geta haft áhrif á þessar stofnanir, ef til er þriðji möguleikinn, — að velta yfir á ríkissjóð. En þann möguleika má ekki opna, nema ef þingið sér fyrir fé. Í síðustu málsgr. 16. gr. er stj. ekki heimilað að koma til hjálpar, heldur skylt að veita hjálp, en henni er sett í sjálfsvald, hvaða leið er valin. Ég geng út frá því, að það kunni að verða eina leiðin að taka lán. En þá er um annan aðila að ræða, sem engin vissa er fyrir, að vilji veita lán. Ég kann illa við það í þessu neyðarástandi, sem nú ríkir, að fé geti frosið og að það sé sett n. til að úrskurða það, hvort peningarnir hafi virkilega frosið og verði að veita frest um greiðslu. Ég kann illa við það, að þessi n. hafi um leið heimild til að velta öllu yfir á ríkissjóð. (MG: Það er fjmrh., sem ákveður það). Hann ákveður það ekki, því að hér er stj. skylt að veita þá hjálp, sem nauðsynleg er. Svo það eru ráðstafanir n., sem skapa þessa skyldu fyrir ríkið, og ríkið getur aðeins valið um leiðir. Annaðhvort er hér um mikið fé að ræða, og þá verður að gera fjmrn. kleift að standa undir byrðinni, eða það er um lítið fé að ræða, og þá er lánsstofnununum miklu síður vorkunn að standa sjálfar undir því.

Um aths. mína við 18. gr. um það, að aðrir taki þátt í kostnaðinum en ríkissjóður, þá þakka ég undirtektir hv. 2. þm. Skagf. og vil vænta þess, að kostnaðurinn skiptist samkv. till., sem síðar kemur fram. þessi n. er náttúrlega sett af nauðsyn, en þá n., sem ég tók til samanburðar, átti líka að skipa af nauðsyn ríkissjóðs til að ná þeim tekjum, sem honum ber að lögum og rétti.