18.05.1932
Efri deild: 77. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2239 í B-deild Alþingistíðinda. (2538)

256. mál, gjaldfrestur bænda og bátaútvegsmanna

Jón Þorláksson:

Ég hafði ekki ætlað að slá neinu föstu um það, á hvern hátt þyrfti að breyta orðalagi 2. málsgr. 16. gr. frv., heldur mæltist ég til við n., að hún athugaði það út frá þeim forsendum, sem ég lagði. Hitt hélt ég að ekki þyrfti að vekja undrun, þó að líkur séu fyrir því, að greiðslufrestur þessi skelli að lokum að einhverju leyti á útlendum firmum. Það stendur mér ljóst sem sjálfsagður hlutur, að þegar straumur viðskiptanna er stöðvaður á einum stað, þá hljóti það tjón, sem af því hlýzt í viðskiptalífinu, að lenda á einhvern hátt á fyrirtækjum og valda þeim vandræðum, svo að þau jafnvel verði að gefast upp, af því að stöðvunin bitnar á þeim. Það má vel vera, að löggjöf eins og þetta veki athygli erlendis. En það er nú svo margt, sem vekur athygli á þessum árum, að þetta lagaákvæði hér ætti ekki að vera neitt sérstakt. Ég þekki t. d. fleiri dæmi þess, að heiðarleg firmu geta ekki greitt víxilskuldir sínar við erlenda skuldunauta, sakir þess að þau fá ekki keyptan erlendan gjaldeyri. þau geta því ekki sagt annað við lánardrottna sína en það, að þau séu reiðubúin til þess að borga, en geti aðeins ekki fengið peningana yfirfærða.

Í sambandi við þetta ástand er ég ekki viss um, að neitt stórtjón hlytist af, þó að slíkt kæmi fyrir, sem hv. 4. landsk. var að benda á, að fyrir gæti komið og valdið óþægindum. Ég játa fyllilega, að hér er um vandamál að ræða, mál, sem þarf mjög rækilegrar yfirvegunar með, og það vænti ég, að hv. n. athugi.