26.05.1932
Efri deild: 84. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2256 í B-deild Alþingistíðinda. (2553)

256. mál, gjaldfrestur bænda og bátaútvegsmanna

Jón Baldvinsson:

Það, sem við hv. 1. landsk. höfum talað um ákvæði þessa frv. gagnvart ábyrgðarmönnum skuldunauta, fer sitt á hvað. Hv. 1. landsk. vill tryggja það enn betur, að ekki verði gengið að ábyrgðarmönnum, en mér finnst ekki ástæða til að hlífa ríkum manni, sem getur greitt ábyrgðarskuld fyrir fátækan mann, er fátæklingurinn rís ekki undir henni. Ég sé ekki ástæðu til, að það sé verið með lögum að þrengja greiðslufresti upp á slíka menn, sem áður höfðu ætlað sér samkv. ábyrgðaryfirlýsingu að greiða skuldina. Ég sé ekki ástæðu til að veita ábyrgðarmönnum jafnlangan greiðslufrest og þeim, sem skuldina hefir stofnað, en það á að gera samkv. 4. gr. frv.

Þá sagði hv. 3. landsk., að það væri tvennt ólíkt, hvort innanhúsmunir væru teknir af verkamönnum eða bitin af bændunum, því að í síðara tilfellinu væri atvinnurekstur stöðvaður, en þó að gengið yrði að verkamanni, þá gæti hann haldið áfram vinnu sinni. En útkoman verður ákaflega svipuð hjá báðum; hv. þm. hefir bara ekki víðsýni til þess að sjá það, að heimili verkamannsins hlýtur að leysast upp og tvístrast, ef húsmunir eru teknir af honum, og það gerir hann ófæran til að fleyta áfram sínu heimili. Verði á sama hatt gengið að bóndanum, þá varðar það líka upplausn á heimili hans.

Að vísu veit ég, að það er rétt, sem hv. þm. sagði, að einstaklingum er nú heimilt að taka frá nokkru ríflegri fjárupphæð en áður var, þegar bú þeirra eru tekin til gjaldþrotaskipta, en þrátt fyrir það er hægt að selja t. d. húsgögn þeirra, þannig að samkv. aðfararlögunum njóta menn lítillar verndar móts við það, sem þessi lög eiga að veita bændum.

Hv. 3. landsk. sagði, að ef skipuð væri ein skilanefnd í Rvík fyrir allt landið, þá myndi hún vera ókunnug högum einstakra manna í fjarlægum landshlutum, og ég skal játa, að skilanefnd, sem starfar í hverju héraði fyrir sig, hefir þar meiri kunnugleik, en það er hætt við, að þær gætu orðið vilhallari í málum sinna héraðsbúa heldur en nefnd, sem stendur þeim fjær. Það getur vel verið, að kunnugir skilanefndarmenn geti betur skorið úr því, hvaða einstaklingum er trúandi til að bjarga sér, og hverjum ekki. En það er mjög hætt við því, að skilanefndir í héruðunum vilji lofa sem flestum að njóta góðs af þessum lögum, ef þau annars geta orðið nokkrum að góðu.