06.05.1932
Efri deild: 68. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2296 í B-deild Alþingistíðinda. (2626)

88. mál, einkasala á tóbaki

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Síðan um áramót hefir orðið lítilsháttar breyt. á álagningu á tóbaki, einkum þó hinum ódýrari tegundum, eins og t. d. sígarettum, og hefir um þetta af ýmsum ástæðum verið farið lengra en núv. löggjöf leyfir, m. a. af því að annars hefði óþægilegt verð skapazt á sígarettum, því að verð á hverjum pakka, sem seldur er, þarf helzt að standa á tug. Þá er það og eðlilegra, að álagningin sé miðuð við innkaupsverðið að meðtöldum tolli, og byggist það á því, að með því móti er hægara að jafna ýmiskonar misrétti, sem stafar af því, að tóbakið er ekki verðtollað, heldur tollað með þungatolli. Því að af þessum ástæðum verður verðið ekki í eins góðu samræmi við gæði tóbaksins og vera ætti. Þá vil ég og ennfremur taka það fram, að sú verðhækkun, sem orðið hefir á tóbaki síðan um áramót, stafar ekki eingöngu af hækkaðri álagningu einkasölunnar, heldur á hún meðfram rætur sínar að rekja til hækkaðs verðlags á hrátóbaki á heimsmarkaðinum.

Fleiri orð sé ég ekki ástæðu til að hafa fyrir þessu frv., en vil að lokum aðeins óska þess, að málinu verði vísað til 2. umr. og fjhn.