22.04.1932
Neðri deild: 57. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2324 í B-deild Alþingistíðinda. (2662)

258. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Ég get látið útrætt um tekjuskattinn í Englandi. Það er rétt, sem ég hefi sagt, að hann er lægri þar á vissu sviði, lægri tekjunum, en hækkar og verður fyrst hærri en hér, þegar um mjög háar tekjur er að ræða. Og hv. þm. Seyðf. hefir enn eigi borið fram slíkar till., en þeirra má kannske vænta við næstu endurskoðun. Ég hefi lýst því yfir áður hér í hv. d., að ég hefði í hyggju að fá borna fram till. um að hækka tekjuskattinn nokkuð, en þó ekki mjög mikið. Er það gert vegna núv. ástands. Að ég vil eigi bera fram till. um mjög háan skatt, stafar bæði af innheimtuörðugleikum og svo af hinu, að útsvörin hvíla á þessum sama stofni og víða eingöngu. Ástæðan til þess, að þetta hefir enn ekki verið borið fram í frv. formi. er sú, að hér hefir jafnan við klingt, að ekki yrðu samþ. neinir skattar. Og ég vil fullyrða, að hv. jafnaðarmenn hér hafa verið með fullyrðingar um, að þeir myndu engum skattafrv. fylgja, vegna þess hve bruðlunarsöm stj. hefði verið á fé ríkisins. Jú, jafnaðarmenn urðu víst hræddir við, að stj. færi að bruðla með fé ríkisins, og þess vegna yfirgáfu þeir hana! Hún var víst sparsöm meðan þeir voru með henni, en þeir fellu frá, er þeir óttuðust, að hún færi að bruðla! Þeir lýstu andstöðu sinni við alla skattalöggjöf þegar við 1. umr. fjárl. og hafa ávallt látið kveða við sama tón síðan. Móti fjárl. greiddu þeir svo atkv. Þegar svo er tekið undir að sjá fyrir nauðsynlegum þörfum og afgreiðslu mála, þá er ekki hægt að taka mikið mark á því, sem sagt er nú um þetta efni. Þetta er engin útrétt hönd til samstarfs, sem hægt sé að taka í, heldur miklu fremur útrétt hönd, sem gefur utan undir.

Ég skal ekki minnast neitt á fyrri sambúð. En ég vil þó geta þess, að skattarnir, sem voru samþ. 1928. voru miklu hærri en sú lækkun á kaffi og sykurtollinum nam, sem þá var samþ. En þá voru líka samþ. útgjaldaaukar, sem jafnaðarmenn áttu þátt í og voru því skyldir að sjá fyrir fé til þeirra. Með því sýndu þeir ekki annað en skylduga ábyrgðartilfinningu. Þeir, sem eru með öllum útgjaldakröfum, verða sannarlega líka að lata skina einhversstaðar í tekjur. Þetta mundu þeir sýna og finna, ef þeir ættu einhverntíma að ráða. En nú er að sjá, að þeir ætli sér að safna einhverju réttlæti í sarpinn, með því að vera á móti sérhverjum tekjuaukum, til þess að hafa meira af að taka síðar.