22.04.1932
Neðri deild: 57. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2329 í B-deild Alþingistíðinda. (2666)

258. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Mér finnst rétt að láta þessu máli sem fyrst lokið. Þó vil ég benda hv. þm. Seyðf. á það, að þegar rætt er um beina skatta, tekju- og eignarskatt, þá verður að taka útsvörin þar með, og verður þá útkoman önnur en hv. þm. vill vera láta. Hitt er rétt, að hv. þm. Alþýðufl. benda oft á skattauka, en þeir eru þannig lagaðir, að þeim myndu ekki koma ríkissjóði að miklu gagni. Það þýðir lítið á slíkum tímum, sem nú eru, að tala um að skattleggja hátekjur, þegar enginn atvinnuvegur ber sig, hvað þá að þeir gefi nettótekjur. Það mætti þá eins segja, að stj. eigi að láta gera allt, sem gera þarf, fyrir enga peninga.

Um fullyrðingar hv. þm. G.-K. út af afstöðu hans flokks til skattamálanna er það að segja, að þetta væri allt gott og blessað, ef skattamál ríkisins væru sérmál stj. og Framsóknarfl. En af því að það vill nú svo til, að þetta er ekki sérmál eins flokks, að það getur orðið til óþæginda fyrir fleiri en stj. og hennar flokk, ef fjármálin eru ekki leyst á viðunandi hátt fyrir ríkið, þá virðst hv. stjórnarandstæðingar hugsa líkt og maðurinn, sem vildi láta stinga úr sér annað augað til þess að bæði yrðu stungin úr óvini hans. Í þessu tilfelli mundi „óvinurinn“ þó ekki missa nema annað augað heldur, þó þeir geri sér vonir um, að hann missi bæði. Þessi hefnd, sem koma á niður á Framsóknarfl., mundi hitta alla landsmenn jafnt, þá, sem vilja beita henni, ekki síður en aðra.