25.04.1932
Efri deild: 59. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2336 í B-deild Alþingistíðinda. (2678)

258. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Ég hefi nú raunar litlu að svara hv. 2. landsk. Það mátti búast við þessum lestri hjá honum, og það eru því engin sérstök vonbrigði fyrir mig, þó að hann greiði atkv. móti frv., eins og mörgum öðrum málum á þessu þingi, sem til sparnaðar horfa eða lagfæringar á búskap ríkissjóðs. Hv. þm. hefir yfirleitt ekki það sjónarmið, að það sé við því að búast, að hann taki þátt í ráðstöfunum í þá átt að sníða sér stakk eftir tímunum. Slíkt starf verður því að hvíla á öðrum. Það er að vísu mjög leitt að þurfa að fella niður framlög til verkamannabústaða og byggingar- og landnámssjóðs, en hv. þm. átti þess kost nú fyrir skömmu að hindra það, að allt tillagið væri klipið af þessum framkvæmdum, en hann neytti ekki þess tækifæris. Hann er nú að sjá framan í afleiðingarnar af því, að hann gerði sitt til þess að fella verðtoll af tóbaki. Hann má því sjálfum sér um kenna.

Á þessum tímum verður ekki hjá því komizt að draga úr útgjöldum ríkissjóð svo sem auðið er. Það blandast engum hugur um, að það er viðkvæmt að þurfa að skera niður ýms útgjöld, sem mikinn rétt eiga á sér, og það væri betra að þurfa þess ekki, en þess er bara enginn kostur að komast hjá því. Svo að að því leyti sem ekki er hægt að fá jöfnuð á fjárl. með niðurskurði, þá verður að fara þá leið að fá samþ. nýjar tekjur, beinar eða óbeinar. Ég býst við því, að þessu frv. verði hér vel tekið eins og í hv. Nd. og vænti þess, að samkomulag í öðru óskyldu máli verði ekki látið hafa áhrif á úrslit þessa nauðsynjamáls. Það er mesti misskilningur hjá hv. 2. landsk., að það sé gert fyrir stj. að afla ríkissjóði nauðsynlegra tekna, heldur er það hagur ríkisins sjálfs, hagur þjóðarinnar. Þó hv. 2. landsk. virðist ekki skilja þetta, þá er það nú samt rétt, að það er þjóðin, sem hér á í hlut, en ekki stj. Þegar grípa þarf til slíkra ráðstafana, sem gert er með þessu frv., þá er það ekki nema eðlilegt, að frekar verði ráðizt í að draga úr þeirri starfsemi, sem er ný og er að byrja, heldur en þeirri, sem komin er á meiri rekspöl, að frekar verði skorið niður það nýja heldur en það gamla, enda er sú reynslan í öðrum löndum. Ég skal fúslega viðurkenna það, að sum þau atriði, sem niðurskurðarstefnan bitnar á, eru mál, sem Framsókn hefir barizt fyrir á undanförnum árum, en hún sá sér ekki fært annað en að slaka til í bili, en það er von okkar, að lög þessi þurfi ekki að gilda lengur en til loka næsta árs. Þó ekki sé með öllu sársaukalaust að samþ. þetta frv., þá vil ég þakka hv. fjvn. Nd. fyrir það og óska, að það fái jafngóðar viðtökur hér í hv. d. og það fekk í hv. Nd.