03.06.1932
Efri deild: 92. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2350 í B-deild Alþingistíðinda. (2706)

258. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Jón Þorláksson [óyfirl.]:

Ég varð svo seint fyrir með mínar brtt., að ég kom þeim ekki í prentunina í tæka tíð, og tel ég mér því skylt að gera grein fyrir efni þeirra þegar í byrjun þessarar umr. –Fyrri till. mín er við 3. lið frv. og er þess efnis, að tekjur tóbakseinkasölunnar af tóbaksverzluninni árin 1932 og 1933 verði að nokkru leyti látin renna til byggingar verkamannabústaða í kaupstöðum, eins og ætlazt er til, að gert sé eftir lögunum frá síðasta sumarþingi. Geri ég þá till., að hvort árið fyrir sig greiðist af ágóða einkasölunnar til verkamannabústaða 50 þús. kr., en eftir ákveðum laganna atti þetta tillag að nema hálfum gróða. Hinn helmingurinn af hagnaði einkasölunnar atti aftur á móti að renna til byggingar- og landnámssjóðs, en þar sem sá sjóður mun halda sínu árlega tillagi úr ríkissjóði, sem er 200 þús. hr., óskertu á næsta ári, má svo virðast, sem hann ætti að komast af með það fjárframlag, og þess vegna hefi ég ekki flutt brtt. um að fella niður þá till. í frv., að taka þetta tillag af byggingar- og landnámssjóði.

Þá hefir komið fram brtt. við þennan lið frv. frá hv. 2. landsk. um að fella liðinn burt úr frv., en til vara, að lagt verði til verkamannabústaðanna af verzlunargróða tóbakseinkasölunnar 100 þús. kr. árið 1933, en ekkert 1932. Mér skilst, að þessi varatill. hv. þm. að að efni til hin sama og mín brtt., þar sem í báðum till. er gert ráð fyrir, að til verkamannabústaðanna verði lögð hin sama fjárhæð. Ég geri það ekki að neinu atriði, hvor þessarar till. verður samþ. Mér finnst bara eðlilegra, að tillaginu væri skipt milli áranna, og væri síður hætt við, að framkvæmdir þyrftu að hefjast, ef helmingurinn yrði greiddur fyrra árið.

Þá vil ég minnast á síðari brtt. mína, sem er við 8. lið frv. og er á þá leið, að Menningarsjóður fái að halda 45 þús. kr. hvort árið af þeim tekjum, er honum ber samkv. lögum, en að ríkissjóður fái þær tekjur, sem koma vegna bannlagabrota og eru fram yfir þessa upphæð. Ég hefi séð yfirlit yfir tekjur Menningarsjóðs síðan hann tók til starfa. Tvö síðustu árin hafa þær verið 70–73 þús. kr., næsta ár áður voru þær milli 40 og 50 þús., og fyrsta árið eftir að sjóðurinn var stofnaður voru þær kringum 60 þús. kr. Starfsemi þessa sjóðs hefir nú smátt og smátt komizt í fastari skorður, eftir því sem hann hefir starfað lengur, og það er því ekki hægt að ætlast til, að hann geti haldið áfram sinni starfsemi, nema hann fái tekjur til þess. Ég hefi álitið, að það væri eðlilegt, að sjóðurinn fengi að vita eitthvað ákveðið um það, hve háa upphæð hann má eiga von á að fá. Ég hygg, að ef brtt. mín verður samþ., þá þurfi starfsemi sjóðsins ekki mikið að breytast frá því sem var á 2 síðustu árum, en nái till. ekki samþykki, þá legg ég til til vara, að 8. liður falli allur niður.