04.06.1932
Neðri deild: 93. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2364 í B-deild Alþingistíðinda. (2722)

258. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Það er auðskilið, hvað ég á við með þessari brtt. minni, og hv. 3. þm. Reykv. hlýtur og að skilja það, að sama er, hvort mín till. verður samþ. eða hans till., upp á það að gera, að næsta þing getur breytt því aftur, ef því sýnist svo, og ekki einungis næsta reglulegt þing, heldur og einnig aukaþing, sem kynni að verða haldið. Fyrir slíkt verður aldrei girt. En ég ber fram þessa brtt. til þess að sýna mína fyrirætlun í þessum efnum. má þó vera, að hv. Alþýðuflokksmenn telji litla tryggingu í mér að þessu leyti, og víst er um það, að þeir þykjast ekki hafa mikla tryggingu í mér að því er snertir afgreiðslu kjördæmamálsins, enda verður aldrei nein slík trygging fengin í einum manni, ævi að þingið ræður öllum úrslitum á hverjum tíma.