08.03.1932
Neðri deild: 23. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 3 í C-deild Alþingistíðinda. (2800)

30. mál, vigt á síld

Frsm. minni hl. (Guðbrandur Ísberg):

Eins og hv. frsm. meiri hl. tók fram, klofnaði sjútvn. um þetta mál.: Minni hl. lítur svo á, að með 1. nr. 24 frá 1930 sé gengið svo nærri samningsfrelsi manna sem fært er. Í þeim l. er gert ráð fyrir því sem aðalreglu, að bræðslusíld skuli vegin, en þó haldið opinni leið til að mæla síldina, ef báðir aðilar óska þess. Vilji seljandi láta vega, er skylt að gera það. En samkv. þessu frv. á mönnum undantekningarlaust að vera skylt að vega bræðslusíld.

Nú getur hæglega viljað svo til, að ekki séu nein tók á að vigta síldina. Þar sem ekki yrði venjulega höfð nema ein vog, gæti hún auðveldlega bilað. Ef þá væri algerlega bannað að mæla síldina, engin vog og engin löggilt mál fyrir hendi, hvernig ætti þá að fara að? Skipin væru annaðhvort að fara óafgreidd eða notað yrði eitthvert áætlunarmál, og yrði þá ekki mikil trygging fyrir réttri mælingu.

Minni hl. telur algerlega óþarft að breyta l. frá 1930 um vigt á síld. Og óþörf lög er vitanlega rangt að setja. Það hafa áður verið sett l. um vigt á salti, að allt salt skuli vegið, en ekki mælt, og þó vita allir, að næstum allt það salt, sem afgr. er til verzlana og manna á milli hér á landi, er mælt, en ekki vegið. Þau lög hafa verið gagnslaus og óþörf, vegna þess að þau koma í bág við þarfir viðskiptalífsins. Vigt á síld er miklu seinlegri afgreiðsluaðferð en mæling. Hv. þm. muna sjálfsagt eftir því, að í sumar voru sífelldar umkvartanir yfir því, hvað afgreiðsla skipanna gengi seint hjá síldarverksmiðju ríkisins á Siglufirði. Ég vil t. d. benda á skýrslu um síldarleit úr lofti, sem lögð var fram hér í d. í þingbyrjun. Þar er getið sérstaklega um eitt síldarflug, sem haft hafi mikla þýðingu. Í það sinn sást allmikil síld fyrir Vestfjörðum. Menn gætu nú haldið, að þetta hafi verið sérstaklega þýðingarmikið, vegna þess að engin síld hafi í þetta sinn verið fyrir Norðurlandi, í nánd við Siglufjörð. Svo var þó ekki. Fyrir Norðurlandi var nóg síld. En samt tóku ísfirzku skipin sig upp þaðan og fóru vestur á firði, vegna þess hvað afgreiðslan var sein hjá síldarbræðsluverksmiðju ríkisins á Siglufirði. Mér finnst það hart, að hv. þm. Ísaf. skuli vera að flytja frv. um að skylda verksmiðjurnar til að vega síldina, þegar bátarnir frá Ísafirði urðu að flýja frá Siglufirði fyrir það, hvað seint gekk að vega síldina þar. Það mun enginn mæla á móti því, að mæling er fljótlegri afgreiðsluaðferð, þegar um síld er að ræða, heldur en vigtun. Að aka aðeins tveimur síldarmálum í einu upp langa bryggju tekur mikinn tíma og er auðvitað seinlegra heldur en ef svo að segja ótakmarkað má hafa á vögnunum.

Í öðru lagi má benda á það, að þegar síldin er mæld rétt, verður ekki um það deilt, að það er réttlátasti mælikvarðinn. Ef meiri þungi er í málunum í eitt skipti heldur en annað, er það vegna þess, að síldin er ekki eins góð, annaðhvort magrari eða ekki ný, og þá um leið lakari vara. Innihald keranna er af þessum ástæðum m ekki verðmeira, þó það sé þyngra, og kaupandi græðir ekkert á þeim þungamun, og seljandi á ekki heldur að græða á honum.

Lögin frá 1930 um vigt á síld voru sett til þess að varðveita hagsmuni seljandans, en ekki kaupandans. Það hefir verið litið svo á, að kaupandinn ætti hægra með að beita prettum við mælinguna. Þetta held ég, að sé ekki rétt. Það mun að vísu hafa komið fyrir í einstaka tilfelli, að kaupandi hefir fengið meiri síld við mælingu en honum bar. En skipshafnirnar hafa ekki síður aðstöðu til að draga af málinu. Krossanesverksmiðjan hefir fengið tiltölulega meiri síld síðan farið var að vigta hana þar. Frá þessu sjónarmiði mætti segja, að réttast væri að vigta alla bræðslusíld, enda geng ég út frá, að það verði yfirleitt gert. En að útiloka það, að menn geti í einstökum tilfellum komið sér saman um að mæla síldina, teljum við í minni hl. ófært.

Ég vil í þessu sambandi geta þess, að mér er ekki grunlaust um, að vigtunin á síld hafi stundum verið framkvæmd á þann hátt, að vigtaður hafi verið 3. eða 4. eða jafnvel ekki nema 10. hver vagn. Einhverja slíka aðferð taka menn upp, þegar báðum aðiljum ríður mikið á að flýta afgreiðslunni, og sjá þá allir, hvað vigtunin muni verða nákvæm með þeim hætti. Sem sagt lítur minni hl. n. svo á, að það sé algerlega óþarft að breyta I. um þetta efni. Það má ganga út frá því, að vigtun verði mest notuð, en að útiloka mælingu er ekki rétt.