19.05.1932
Neðri deild: 78. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 703 í B-deild Alþingistíðinda. (287)

3. mál, landsreikningar 1930

Magnús Guðmundsson:

Hv. 1. þm. N.-M. ætlar að bjarga sér út úr vandræðunum með því að halda því fram, að það sé ómögulegt að reikna þetta út. (HStef: Ó-nei-nei). Hv. þm. hlýtur að muna, að á þinginu 1928 voru hækkaðir mikið skattar og tollar og að stj. sagði, að ástæðan væri sú, að þessir tekjustofnar hefðu lækkað of mikið 1926. nú þegar hann ber saman tímabilin 1924–27 og 1928–30, hlýtur hann að sjá, að skattastofnarnir hafa mikið hækkað frá því, sem var í lok fyrra tímabilsins. En fyrst hv. þm. viðurkennir, að tollarnir hafi verið lækkaðir 1926 og hækkaðir 1928, þá þarf ég ekki frekara um þetta að ræða, því að þá er það viðurkennt rétt, sem ég sagði, og ég þarf engra heimilda að leita fyrir 3. umr.