11.03.1932
Neðri deild: 26. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í C-deild Alþingistíðinda. (2871)

87. mál, innflutningur á kartöflum o. fl.

Frsm. (Pétur Ottesen):

Hv. 1. þm. Skagf. hefir nú svarað ýmsum af þeim andmælum, sem enn á ný hafa vakizt upp við þessa umr. gegn frv. Það er því færra en ella hefði orðið, sem ég þarf að minnast á.

Hv. 1. þm. Rang. sagðist oft hafa heyrt þennan kartöflusöng hér á undanförnum árum, og var sem hann tengdi hann við svokallaðar Skagakartöflur, og hélt, að frv. Þetta myndi borið fram hér nú með sérstöku tilliti til hagsmuna þeirra manna, sem rækja þessa atvinnu í mínu kjördæmi. Í landbn. erum við nú 5 og úr ýmsum mismunandi hlutum landsins, svo það ætti því með tilliti til þess að vera nokkur trygging fyrir því, að það sé nauðsyn alþjóðar, sem hér liggur á bak við, en ekki hagsmunir neins sérstaks héraðs. Og til sönnunar því, að þetta er svo, vil ég benda hv. þm. á, að ef nokkuð væri, þá væri ég með till. mínum að gera heim þar efra erfiðara fyrir að fá markað fyrir sínar kartöflur en það er nú. Því að eins og viðurkennt er, miða þessar till. að því að efla innlenda ræktun þessarar vörutegundar, en eins og kunnugt er, eru menn á þessu svæði, sérstaklega á Akranesi, langt á undan öðrum í þessu efni. Ég er því að stofna til samkeppni við þá með þessu, og það er því siður en svo, að það séu þeirra hagsmunir sérstaklega, sem ég berst fyrir með því að beita mér fyrir þessu máli. Það er í þessu efni eins og öðru heildargagn þjóðarinnar, sem ég lít á fyrst og fremst áður en ég lít á sérhagsmuni þeirra manna, sem ég nú er fulltrúi fyrir.

Ennfremur vil ég benda hv. þm. á, að ákvæði um að greiða flutningskostnaðinn er ekki á neinn hátt til ívilnunar mínum kjósendum, það kemur þeim ekki að neinum notum. Þeir flytja kartöflurnar á sínum eigin bátum til Reykjavíkur og nota ekkert ríkisskipin, svo að þeir verða sjálfir eins og Rangæingar að kosta flutninginn að öllu leyti til Reykjavíkur, eins og áður.

Það þótti mér undarlegt hjá hv. þm., að hann leit svo á, að þetta frv. væri ekkert annað en glamur út í loftið, sprottið af þeim sultarsöng, sem menn alltaf væru að syngja á erfiðum tímum og hann vildi fordæma. En hitt þykir mér þó töluvert undarlegra, að hv. þm., samtímis því, sem hann fordæmir þennan sultarsöng, þá skuli hann ekki einasta taka undir með okkur hinum, heldur syngur hann nú sultarsönginn hærra og hvellar en nokkur okkar hinna, þar sem hann nú vill ekki sætta sig við hann stuðning, sem í frv. felst heldur færa hann út á enn víðara svið. Við höfum ekki gert ráð fyrir að láta ívilnun um flutningsgjöld ná lengra en það, að ríkissjóður borgaði að hálfu leyti flutning með ríkisskipunum heraða á milli, en nú vill hv. þm. líka greiða flutningskostnað á landi, og afleiðingin af því yrði þá líka vitanlega sú, að það yrði þá líka að greiða flutningsgjöld milli hafna, sent ríkisskipin koma ekki við á, og staða, sem þau geta ekki komið á. Það er þess vegna algerð mótsögn í því, er hv. þm. fordæmir þetta frv. fyrir þann stuðning og uppörfun, sem í því felst, af því að þess sé engin þörf, en flytur jafnframt till. um að leggja meira af mörkum í þessu efni en landbn. hefir lagt til. Enda kom það greinilega í ljós, þegar hv. þm. fór að tala um, að það, sem aðallega stæði fyrir þrifum kartöfluframleiðslunni í landinu, væru erfiðleikarnir á það að koma þeim frá framleiðslustaðnum til annara landshluta, sem mikið skortir á, að hafi næga kartöfluframleiðslu. Hann viðurkenndi, að þetta stæði aukinni kartöflurækt fyrir þrifum, en segir þó, að þetta, sem ætlað er að bæta úr þessu, sé ekkert nema glamur og í áttina til þess, sem miður sé. Mér finnst það því koma fram hjá hv. þm. í ummælum hans og afstöðu til þessa frv. eins og hans þátttaka í þessu máli sé leikaraskapur einn, eins og hann minntist á og var að átelja í gær leikaraskap annara hv. þm. í öðru máli.

Hv. þm. sagði, að það þyrfti meira til en þann stuðning, sem það opinbera veitti með þessu frv., til að auka ræktun á kartöflum. Þetta er okkur líka ljóst, en við erum þess fullvissir, að ef frv. verður samþ., þá styður það mjög að þessu. Auk þess eru nú út um allt land hafin samtök fyrir áeggjan búnaðarþings, sem haldið var hér nýlega, til búnaðarfélaga, um að stiga nú verulegt spor í þá átt að auka ræktun á kartöflum. Og við álitum, að það sé stórt og mikilsvert spor til að ná þessu marki, að það opinbera taki þátt í þeirri vakningu, sem hafin er í þessa átt. Með þetta fyrir augum, að efla samtök og áhuga fyrir þessu máli úti um allt land, var það, að við vildum láta hið opinbera sýna sinn vilja á hann hátt, sem við nú höfum borið fram till. um.

Nú, hv. þm. talaði um það, að það mundu ekki sparast allar þessar 400 þús. krónur, sem ég benti á, að nú færu út úr landinu fyrir kartöflur. Það er alveg rétt, að þær mundu ekki allar sparast strax, en því fyrr spörum við þetta, sem meiri skilningur skapast á nauðsyn þessa mals, og kemur fram í stuðningi við það.

Ég held, að þessum hv. þm. og öðrum, sem hafa hin stærri fjármál landsins í sínum höndum, ætti að vera það ljóst, að það það hér brýna nauðsyn til að spara kaup á vörum frá útlöndum, því að ég veit ekki betur en að með þeim ráðstöfunum, sem gerðar eru af bönkunum um gjaldeyrisverzlunina, sé verið að sníða mönnum svo þröngvan stakk um innkaup erlendra vara, að þeir komist varla í hann. Það er síður en svo, að þær ráðstafanir bendi til annars en þess, að við höfum ekki ráð á nema að litlu leyti að fullnægja brýnustu þörfum okkar. Því að ég ætla, að allar yfirfærslur á erlendum gjaldeyri séu nú skornar svo naumt við neglur sem framast er unnt, og af því stafar, að við höfum ekki ráð á að kaupa frá útlöndum nema nauðsynlegustu nauðsynjar okkar, en við höfum miklar óþarfir á því sviði. Það ætti því að vera hverjum manni ljóst, hve mikilsvert það er að vinna að því á auðveldan hátt að uppfylla þessar þarfir að sem mestu leyti með því, að svo mikið sem hægt er af þessum nauðsynlegu vorum sé framleitt í landinu sjálfu. Ég held þess vegna, að þegar verið er að tala um, að hér sé verið með glamúr á ferðinni og léttúð í þessu máli af hálfu þeirra manna, er vilja styðja að framgangi þess, þá syni meðal annars ráðstafanir peningastofnananna, að það sé ómaklegur áburður, þar sem þær ráðstafanir eru bezta og skýrasta sönnun þess, hvað miklu kaupgeta okkar er nú minni en áður.

Það er svo, að allir erfiðleikarnir og örðugar kringumstæður, sem mæta mönnum, verða þess oft valdandi, að menn slá af bæði um framkvæmdir og annað, sem þeir vilja gera. En af erfiðleikum og þrengingum má líka oft mikið læra. Og hinn hollasti og bezti lærdómur, sem af þessum krepputímum gæti leitt fyrir okkur, væri það, ef þeir kenndu okkur að nota betur þau gæði, sem við höfum í landinu sjálfu, okkar eigin framleiðslu, og auk þess að jafnframt því, sem erfiðleikarnir raska ýmsum framkvæmdum og áætlunum, þá geta þeir orðið okkur góður skóli, ef við berum gæfu til að draga út af þeim rétta ályktun.

Áður en ég sný mér að hv. 2. þm. Reykv. skal ég rétt aðeins minnast á brtt. hv. þm. Rang. um að greiða úr ríkissjóði allt að helmingi flutningskostnaðar á kartöflum á landi. Ég hefi þau skilaboð að færa þeim frá n. um þessar till., að hún sjái sér ekki fært að mæla með þeim.

Tillögur n. um þátttöku ríkissjóðs í flutningskostnaði eru eingöngu miðaðar við flutning héraða á milli, en ekki flutninga innan héraðs. Það er nú svo, að í sumum héruðum eru mjög lítil skilyrði til kartöfluræktar, og er þetta því hugsað sem fyrirgreiðsla á viðskiptum með kartöflur milli þessara héraða og þeirra, sem góð skilyrði hafa til þess að framleiða kartöflur. Kostnaður ríkissjóðs við þessa flutninga mundi ekki verða tilfinnanlegur, en ef það ætti að greiða flutningskostnað innan héraðs, þá mundi verða öðru máli að gegna. Af þessum ástæðum sá n. sér ekki fært að mæla með brtt.

Þá vil ég beina nokkrum orðum til hv. 2. þm. Reykv. hjá honum virtist koma fram afsökun á því, hve stórtækur hann væri í till. sínum. Skyldi það gleðja mig mjög, ef hann vildi snúa frá villu síns vegar í þessu máli og taka till. aftur. Ég verð annars að segja, að mér finnast þessar till. hans og ummæli hans í deildinni um málið lýsa miklu minni skilningi og þekkingu á þessum hlutum en vænta hefði mátt af honum.

Hann vildi t. d. halda því fram, að af frv. þessu, ef að lögum yrði, myndi leiða mikla verðhækkun á kartöflum, en ég hefi bent á það áður, hvernig hér er ástátt um kartöflumarkaðinn. Öll kartöfluframleiðsla landsmanna kemur á markaðinn svo að segja í senn, og gæti því samkeppnin á markaðinum orðið víðtækari, ef greitt væri fyrir flutning vörunnar, eins og hér er gert ráð fyrir, og reynslan hefir sýnt það á haustin, þegar aðalkartöfluframleiðslan er á markaðinum, að þá hefir framboðið skapað eðlilegt og sanngjarnt verð á kartöflunum, og það er siður en svo, að verð á erlendum kartöflum hafi haldið niðri verðinu á þeim innlendu, heldur það gagnstæða. Það er því ekkert að óttast í þessu efni, því að það er ekki ætlazt til, að innflutningsbannið standi lengur en meðan nóg framboð er af innlendum kartöflum. Hér er því ekki farið fram á að gera neinar þær ráðstafanir, er leitt geti til hækkandi verðs eða minnkandi neyzlu á þessari vörutegund. Staðhæfing hv. þm. um þessa hluti getur því ekki byggst á öðru en því að hann treysti ekki Búnaðarfélagi Íslands og atvmrh. að gæta skyldu sinnar í þessum efnum. Ég fyrir mitt leyti ber það traust til Búnaðarfélags Íslands, að ráð fari hér í engu lengra en til er ætlazt.

Þá var hv. þm. að tala um, að það kæmi fram hjá mér sérstakt traust til stj. í þessu máli. Þó að mér þyki miður að þurfa að gera þá játningu hér, þá verð ég þó að segja það, að í þessu efni treysti ég atvmrh. og Búnaðarfélagi Íslands betur en mínum kæra flokksbróður, hv. 2. þm. Reykv., því að hann hefir með brtt. sínum, sem ganga út á það, að gera frv. að engu, þurrkað burt úr meðvitund minni það traust, sem ég bar áður til hans í þessu máli. Með þessu er ég þó alls ekki að lýsu neinu almennu trausti á stj., heldur aðeins í þessu einstaka tilfelli.

Þá vildi þessi hv. þm. halda því fram, að ég hefði sagt, að hann væri með þessu að skrifa undir stefnu kommúnista. Þetta er ekki rétt hjá hv. þm. Ég sagði, að í þessum till. hans virtist koma fram stefna kommúnista, þar sem þær stefna að því að vinna á móti góðum ráðum til eflingar atvinnurekstri landsmunna og jafnframt bættri fjárhagslegri afkomu þjóðarinnar, því að eins og kunnugt er, er það stefna kommúnista að grafa svo undan fjárhagslegu sjálfstæði einstaklinganna og rekstri einkafyrirtækja, að allt falli í rústir. En það er gott ráð og öruggt til að hamla upp á móti því, að niðurrifsstefna komnúnistanna festi hér rætur, að þjóðin búi sem mest að sínu, framleiði til eigin þarfa það, sem hægt er innanlands, og spari sér sem mest kaup á slíkum vörum frá útlöndum. Með því er lagður sá grundvöllur að efnahagsafkomu þjóðarinnar, sem kommúnistarnir eiga erfitt með að rífa niður og leggja í rústir.

Þá talaði hv. 2. þm. Reykv. um verndartollastefnuna og hvernig hún hefði gefizt, sérstaklega hjá Ameríkumönnum. En eins og ég benti á, þá hafa allar næstliggjandi þjóðir talið óumflýjanlegt að brjóta margra alda gamlan grundvöll í þessum málum og taka upp verndartollastefnuna, til þess að bjarga sér fjárhagslega út úr þeim miklu örðugleikum, sem nú steðja að. Ég held því, að við séum ekki færir um að bjóða birginn og sigla þráðbeint eftir þeim leiðum, sem stórþjóðirnar hafa ekki treyst sér til þess að fara eftir. Virðist því ekki um annað að ræða fyrir okkur en fara inn á verndartollabrautina líka, til þess meðal annars að halda jafnvægi við önnur lönd í þessum málum, og jafnframt til þess að hafa eitthvað til þess að slá af, er til tollsamninga kæmi við önnur lönd, því að eins og kunnugt er hafa Englendingar t. d. boðizt til þess að slá af tollkröfum sínum, ef þeir fengju einhverjar ívilnanir á móti.

Það vilja nú kannske sumir segja um þetta, að í þessu efni búi ein syndin annari heim, en undan því verður ekki komizt, og það hefir einmitt sýnt sig, að sú stefna, sem Englendingar tóku upp í sumar og haust, bæði að því er snertir gætilegri fjármalastjórn en verið hafði hjá þeim um nokkurt skeið, 05 í öðru lagi að vernda innlendan iðnað, hefir verið spor stigið í rétta átt, þar sem hún hefir þegar valdið miklum fjörkipp í atvinnulífi þjóðarinnar og vaxandi trausti annara þjóða á hinni ensku þjóð. Með þessum ráðstöfunum hafa Englendingar bætt álit sitt og tiltrú út á við og afkomu sína innanlands.

Það er nú ekki hægt að segja, að Englendingar hafi með lagaboði bannað innflutning á ýmsum varningi, en þeir hafa lagt á svo háa tolla, að þeir hafa verkað sem innflutningsbann, og má því til sönnunar benda á dálitla frásögn, sem stóð nýlega í ensku blaði. Þar er frá því sagt, að keypt hafi verið frá Bandaríkjunum mikið af ryksugum, og til þess að annast viðskiptin hafði verið stofnað stórt sölufélag á Englandi. En nú lögðu Englendingar 50% toll á ryksugurnar, og það hafði þau áhrif, að ekki var lengur hægt að flytja þær inn. Breytti þá sölufélagið um starfsaðferð. Í stað þess að vera milliliður um sölu á áhaldi þessu, tók það að þetta er aðeins eitt dæmi af mörgum, sem synir hinn nýja fjörkipp í atvinnulífi Englendinga, sem virðist ætla að bæta úr yfirvofandi atvinnuleysi.

Það má að sjálfsögðu benda á fleiri lönd en England, sem komið hafa á hjá sér svo háum innflutningstollum, að þeir verka eins og algert innflutningsbann. Þannig lögðu Svíar á síðastl. ári t. d. 10 kr. innflutningstoll á hverja kartöflutunnu, sem flutt var inn í landið. Verkaði það eðlilega sem algert innflutningsbann. Hvort hátollaaðferðin eða bannið er notað, er því fyrirkomulagsatriði, en ekki eðlismunur.

Hv. 2. þm. Reykv. hefir nú lýst því yfir, að hann vilji ekki taka brtt. sínar aftur, og vilji heldur láta fella þær í d., sem ég veit að verður gert. Það leiðir vitanlega til sömu niðurstöðu, hvor aðferðin er höfð. Aðalatriðið er að koma málinu áfram, því að ég er sannfærður um, að það hefir mikla þýðingu fyrir fjárhagslega viðreisn þjóðarinnar. Það eflir innlenda framleiðslu og sparar erlendan gjaldeyri. Er sannarlega nóg eftir, setu ekki er hægt að framleiða í landinu og kaupa þarf því frá útlöndum, þó að þetta falli undan.

Aðalandstaðan gegn frv. þessu og því, að ríkið geri nokkuð það, sem að gagni má verða til þess að tryggja okkar markað í landinu sjálfu og efla framleiðsluna, er frá þeim mönnum, sem heima eiga í Reykjavík og kaupstoðunum, þótt sumir bændur og bændafulltrúar á þingi hafi ekki hreinar hendur í þessu máli. Andstöðuna byggja þeir sérstaklega á því, að fyrirkomulag það, sem í frv. felst, muni verða til þess að skapa verðhækkun á kartöflunum. En ég er margbúinn að taka það fram, að innflutningsbannið á ekki að standa lengur en meðan nægilegt framboð er af kartöflum í landinu sjálfu, og því eðlileg samkeppni á markaðinum um vöruna. Geta þessar ráðstafanir því ekki orðið til þess að hækka verðið. Þá hljóta því aðrar orsakir að liggja til grundvallar fyrir andstöðu þessara hv. þm. gegn þessu viðreisnarmali. Ég held helzt, að þeir fyrir dvöl sína hér á mölinni séu slitnir úr því lífræna sambandi, sem áður var milli þeirra og hinnar lifandi starfsemi úti á landsbyggðinni. Þeir eiga því erfitt með að gera sér grein fyrir nytsemi þessa máls. Í þessu liggur að ég ætla aðalorsökin fyrir andstöðu þeirra gegn frv., miklu frekar en að þeir í réttu og veru séu sannfærðir um verðhækkun á vorunni. Er leitt til þess að vita, að beztu menn skuli geta þornað svona upp í skelinni. Ég er nú þrátt fyrir þetta ekkert hræddur um forlög frv., því að ég veit, að nóg er til af mönnum í þinginu, er aðstöðu hafa til þess að skilja á réttan veg þetta nauðsynjamál. Verður því hægt að fá það samþ., hvað sem andstöðu þeirra líður, sem talað hafa á móti því.

Hv. þm. N.-Þ. boðaði hér brtt., er hann ætlaði að flytja síðar. Um hana fer ég því ekki að ræða nú, en ég er fús að ræða við þennan hv. þm. um það, sent honum lá á hjarta, hvenær sem er milli umr., og ég vil benda honum og öllum hv. þdm. á það, að hinn umræddi styrkur til flutninganna verður ekki styrkur til framleiðendanna, heldur til neytendanna, því að vegna hans leggst helmingi minni flutningskostnaður á vöruna.

Hv. þm. talaði ennfremur um, að stundum myndi hægt að fá ódýrari kartöflur frá útlöndum en hér á landi fengjust, því að kostnaður sé minni við flutning frá útlöndum en hafna á milli. Þetta mun nú ekki vera allskostar rétt. En benda má á það, á þeim tilfellum, sem þetta kynni að vera svona, að þessi munur á að minnka eða hverfa við ívilnun þá, sem felst í þessu frv.

Þarf ég svo ekki að taka fleira fram. Vildi ég æskja þess, að málið fengi góða og skjóta afgreiðslu. Vil ég segja það, að ef Alþingi bæri gæfu til að veita stuðning þeirri hreyfingu, sem hér er vakin meðal landsmanna um það að efla sjálfstæði íslenzkra atvinnuvega, þá hefir það unnið þarft verk, sem bera mun margfaldan ávöxt í framtíðinni. Vænti ég hér á Alþingi skilnings á nauðsyn þess, að þetta mikilsverða spor verði stigið.