14.03.1932
Neðri deild: 28. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í C-deild Alþingistíðinda. (2883)

87. mál, innflutningur á kartöflum o. fl.

Guðbrandur Ísberg:

Viðvíkjandi brtt. minni við 4. gr. frv., sem gengur í þá átt, að í stað þess að flutningur jarðepla skuli styrktur af ríkinu, sem var 1/2 flutningsgjald, skuli ríkisskipin flytja d jarðepli hafna á milli fyrir hálft gjald, að því þó tilskildu, að skipin þurfi eigi þess vegna að neita öðrum flutningi, þá er ég sammála hv. þm. Borg. um það, að með tilliti til þess að reynslan hefir verið sú undanfarandi, að ríkisskipin hafa haft allt of lítið að flytja, muni þetta koma í sama stað niður fyrir þá, sem kaupa þurfa flutningu. Ef miðað er við núverandi innflutning jarðepla, ca. 200 tonn, er ekki um að ræða nema brot af því vörumagni, sem strandferðaskipin geta borið í einni ferð, og því tæplega hætta á, að flutningur fáist ekki fyrir hálft farmgjald, þótt þessi varnagli sé sleginn. Hinsvegar er þá ekki um beinan styrk að ræða úr ríkissjóði. Og þótt segja megi með nokkrum rétti, að einu gildi, hvort flutningsgjaldsívilnunin sé kallaður styrkur eða farmgjaldslækkun, þar sem ekki væri nema um færslu að ræða úr einum vasa í annan, þá tel ég þó talsvert unnið við að halda þessu utan við ríkissjóðinn, svo að eigi þurfi að bókfæra farmgjaldslækkunina sem beinan styrk. er farmflytjendur teldu sig hafa fengið, og búast má við, að reynt yrði að halda í, þótt ríkisskipin hættu ferðum.

Þar sem hv. þm. Borgf. talaði um sleggjudóma um Búnaðarfélagið í sambandi við frv., þá er því til að svara, að því er mín fyrri ummæli snertir, að ég get ekki betur séð en að til þess sé ætlazt af Búnaðarfélaginu, að það leggi ekki til, að aðaflutningsbannið sé upphafið fyrr en innlendar birgðir af jarðeplum séu brotnar, eða því nær þrotnar, en hvað langt eigi að fara í því efni verður að sjálfsögðu álitamál, og sú óánægja, sem það kann að valda, búnar vafalítið á Búnaðarfélaginu.

Viðvíkjandi hinu háa verði, sem ég áður nefndi, að venjulega væri á jarðeplum um mitt sumarið, verð ég að álíta, að engin leið sé að koma í veg fyrir, að það verð haldist, þar sem á þeim tíma er ekki að tala um innlenda framleiðslu, nema ef farið yrði að rækta jarðepli við jarðhita, sem vitanlega væri æskilegt, ef það reyndist að svara kostnaði.

Þá hélt hv. þm. Borgf. því fram, að engin hætta væri á verðhækkun á jarðeplum meðan nóg framboð væri á markaðinum, en þegar framboðið þryti, yrði banninu aflétt. Hér er ég á allt annari skoðun en þessi hv. þm., því að ég fæ ekki betur séð en að allar líkur bendi í þá átt, að það verð, sem fæst fyrir íslenzk jarðepli, þegar þau koma fyrst á markaðinn og aðflutningsbannið væntanlega hefst, verði það sama sem þá er á erlendum jarðeplum eða a. m. k. ca. þriðjungi hærra en vænta mætti, að það yrði síðar á haustinu, ef erlendu jarðeplin mættu keppa um verð á frjálsum markaði, eins og verið hefir. Af þessum ástæðum lít ég svo á, að innflutningsbann á jarðeplum hljóti óumflýjanlega að leiða af sér tilfinnanlega verðhækkun á þeim, sem sé með öllu óafsakanlegt að stofna til, eins og nú horfir um afkomu þorra þeirra manna til sjávar og sveita, er vöruna þurfa að nota.