15.03.1932
Neðri deild: 29. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í C-deild Alþingistíðinda. (2937)

128. mál, verðtollur af tóbaksvörum

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Í þessu frv. er engin breyt. gerð á þeirri ráðstöfun, sem nú er í gildi um arðinn af tóbakseinkasölunni. Og þegar lögin um tóbakseinkasöluna voru sett með samkomulagi tveggja flokka á síðasta þingi, þá var ekkert um það talað, hvað tóbakstollurinn ætti að vera hár eða hvað arðurinn af einkasölunni skyldi vera mikill. Um þetta voru engir samningar gerðir. Þetta frv. er því alls eigi borið fram til hnekkis þeim ákvæðum einkasölulaganna, sem hv. 3. þm. Reykv. talaði um. Það er þvert á móti borið fram af hlýjum huga, þar sem aðeins er ákveðið að leggja verðtoll á tóbakið, en ekki að fresta framkvæmd þeirra ákvarðana í einkasölulögunum, sem fjalla um ráðstöfun á arðinum. En hv. þm. mun heyra áður en þessu þingi lýkur, að ýmsir þdm. eru því mótfallnir að binda þannig arðinn af tóbakseinkasölunni. Verðhækkun á tóbaki vegna tollahækkunarinnar kemur aðallega á vindla og vindlinga, en minna á rjól og „skraa“tóbak, af því að þetta er verðtollur. Verðið hækkar því eigi teljandi á ódýru tóbaki, og hagnaður af einkasölunni þarf ekki að minnka að mun, a. m. k. ekki í hlutfalli við það, sem tollurinn gefur í auknar tekjur.

Hv. 3. þm. Reykv. var að tala um svik og samningsrof í sambandi við þetta mál. Það væri gott, ef hann vildi benda á, hver þau svik væru væru. Geti hann bent á þann samning, er svikinn hafi verið, þá er rétt af honum að gera það; en slíkur samningur hefir aldrei verið til, og þess vegna getur hann ekkert talað um svik né samningsrof frá hendi Framsóknarfl. Hv- þm. veit, að framsóknarmenn bera hlýjan hug til verkamannabústaða og einnig til byggingar- og landnámssjóðs; og ef Framsóknarfl. væri með þessu frv. að bregðast stuðningi sínum við verkamannabústaðina, þá væri hann einnig að „svíkja“ sína eigin flokksmenn í sveitunum, sem njóta lána byggingar- og landnámssjóðs. (HV: Já, það er hann líka að gera). Nei, sannleikurinn er sá, að hér er ekki um neitt slíkt að ræða, heldur einfalda tekjuöflun fyrir ríkissjóð. Ég læt ekki firrtast við ofsafengin ummæli hv. 3. þm. Reykv. í þessu máli, og get, þó að ekki hafi verið gefið beint tilefni til þess, lýst því yfir, að ég gæti fallizt á brtt. við frv. um, að ákvæði þess giltu aðeins til ársloka 1933.

Þá sagði hv. 3. þm. Reykv., að jafnaðarmenn vildu ekki láta stj. fá peninga til þess að valsa með. Við þetta vildi ég gera þá aths., að þessi yfirlýsing kemur nokkur seint, því að stj. hefir aldrei haft meiri peninga en þau árin, sem hún naut stuðnings jafnaðarmanna. Nú munu hv. jafnaðarmenn hafa í huga að veita öðrum þingflokki en Framsókn stuðning, en hvernig þeir ætla að hafa samstarf um stjórn og þá ábyrgð, sem því fylgir, án þess að þurfa um leið að sjá fyrir tekjum, er óupplýst ennþá.