30.03.1932
Efri deild: 38. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 205 í C-deild Alþingistíðinda. (2959)

128. mál, verðtollur af tóbaksvörum

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Ég vil ekki segja, að álit þessa sænska manns sé nein fullnaðarsönnun, þó ég nefndi það hér til samanburðar á sænsku og íslenzku íhaldi. Ég gerði það til þess að sýna, að þar þora „konservativir“ að koma nálægt einkasölum.

Það er misskilningur, að hér sé um „principmál“ að ræða. Um það verða engin atkv. greidd að þessu sinni, heldur um hitt, hvort hærri tollur á að vera á þessari voru, enda er svo ákveðið, að ekkert af áagóða tóbakseinkasölunnar rennur í ríkissjóð. Mér skilst svo, að þeir, sem ekki vilja sja nauðsyn ríkissjóðs, rugli nú saman tóbakseinkasölu og verðtolli á tóbaki, sem vitanlega er sitthvað og ekki sambærilegt.

Hv. 1. þm. Reykv. viðurkenndi, að aðalmótstaðan gegn tóbakseinkasölunni lægi í því, að með því fyrirkomulagi seldist minna af tóbaki en ef salan væri frjáls. Þá skilst mér svo, að þeir vilji ekki hafa tollinn hærri, svo salan verði ekki minni. Þessu hafa þeir lýst svo sjálfir. Mín skoðun er það, að betra sé, að minna seljist, en að tollurinn sé hærri. Þá er einnig minna flutt inn í landið og þá minna greitt fyrir tóbak út úr landinu. þegar því hv. 1. þm. Reykv. segir, að minna seljist, þá lýsir hann yfir stefnu sinni og sinna skoðanabræðra um það, að meira beri að flytja inn og hafa tollinn lægri, svo meira seljist og að á þann hatt eigi að fást jafnhá fúlga í ríkissjóð og ná má með minni innflutningi, en hærri tolli. Önnur rök en þetta hafa þeir ekki komið með.

Það er misskilningur hv. 1. þm. Reykv., að svo margir séu riðnir við tóbakseinkasöluna í Svíþjóð og hafi þar persónulegra hagsmuna að gæta, að þess vegna komi engar raddir fram um að leggja hana niður. Þar er það félag, sem hefir hana með höndum, og í því er ríkið stærsti hluthafinn og svo stofnanir, sem ríkið á, svo sem tryggingarstofnanir. Aðeins örfáir einstaklingar fengu að vera með vegna starfsemi sinnar áður. En þess gætir svo lítið, að það er hagur ríkisins og alls almennings, sem krefst þess, að tóbakseinkasölunni sé haldið áfram þar. Þar er ekki verið að tala um að vernda hagsmuni neinna einstaklinga. Og nú, þegar gætt hefir verið hagsmuna smásalanna, sem hafa sína 20% álagningu, þá verða það aðallega heildsalarnir, sem óska þess, að tóbakseinkasalan verði lögð niður, en smásalarnir ekki. Það verður því til að efla hag sárfárra mann, ef tóbakseinkasalan verður lögð niður.