25.04.1932
Neðri deild: 59. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í D-deild Alþingistíðinda. (2995)

310. mál, Hinn almenni menntaskóli í Reykjavík

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég get svarað spurningum hv. 4. þm. Reykv. Fyrstu spurningunni, um undirbúningsdeildina, get ég svarað játandi. Eftir að stj. sá þess merki, að ekki var hægt að fá samkomulag um málið í þessari deild nema með því að halda undirbúningsdeildinni, þá þótti rétt að ganga inn á það heldur en að stöðva málið. Þessi undirbúningsdeild verður þá vitanlega fyrst og fremst fyrir bæjarbúa, og þá einnig fyrir þá menn aðra, sem hefðu löngun og ástæður til að koma börnum sínum þar til náms.

Út af því, sem hv. þm. minntist á afstöðu alþýðuskólanna í bæjum og sveitum til þessa máls, skal ég taka það fram, að ég hygg, að flestir líti svo á, að það sé ákaflega óheppilegt að miða kennsluna í þessum skólum við þetta próf upp í lærdómsdeildina. Ég hefi einmitt verið mjög mikið á móti því fyrirkomulagi, sem verið hefir á Akureyri, að allir þeir, sem þar stunduðu nám og ekki fóru til Reykjavíkurskólans, yrðu að læra þar ýmislegt, sem þeir ekki höfðu með að gera, aðeins af því að þetta samband var á milli skólanna. Ég get þá svarað því, að a. m. k. fyrir núv. stj. vakir það, að ungmennaskólarnir fari sínu fram og miði sitt starf eingöngu við þörf þeirra manna, sem upphaflega var ætlazt til, að á þessa skóla gengju, en gefa þeim mönnum, sem eru sérstaklega námfúsir og hafa ástæður til að halda áfram námi, tækifæri til að njóta fyrst þessa náms í unglingaskóla og læra síðan utan hjá í þeirri von að standast síðan inntökupróf í lærdómsdeild menntaskólans.

Ég vil til skýringar minni skoðun á þessu samstarfi unglingaskóla og lærdómsdeildar nefna tvo menn, sem hafa byrjað nám sitt í Flensborg. Það eru hv. 2. þm. Reykv. og hv. 2. þm. Rang., sem báðir eru þm. í þessari hv. deild. Á ungmennaskólanum í Flensborg kom það greinilega í ljós, að þeir voru mjög vel fallnir til náms, og þeim tókst báðum að ljúka unglingaskólanum í Flensborg og jafnframt búa sig undir menntaskólann.

Um þriðja atriðið í ræðu hv. 4. þm. Reykv., takmörkun á nemendafjölda í menntaskólanum, hefir allmikið verið rætt í hv. Ed., en af eðlilegum ástæðum eru hv. þdm. þessarar d. því síður kunnugir. Ég held það hafi verið hv. 1. landsk., sem bar fram þá miðlunartill. í Ed., að ef færri nemendur væru í stærðfræðideildinni heldur en í máladeildinni, þá mætti taka svo marga nemendur umfram í máladeildina, sem vantaði upp á, að fullskipuð væri, jafnvel þó að þá yrði að skipta máladeildinni í tvær kennsludeildir. Þessi miðlunartill., sem hv. 1. landsk. formuleraði annaðhvort í nál. eða ályktunarformi, var samþ. að því tilskildu, að farið yrði eftir því, sem húsrúm og annar útbúnaður leyfði. Á síðustu árum hefir reynslan orðið sú, að máladeildin og stærðfræðideildin hafa verið nokkurnveginn jafnstórar, að því er ég held. Það er einungis fjárveitingaratriði og fer því algerlega eftir vilja Alþingis í hvert sinn, hvort máladeildin skuli vera tvískipt, en stærðfræðideildin einskipt. En eitthvað þessu lík mundi niðurstaðan verða nú, ef þessi þáltill. yrði samþ., eins og. samkomulag varð um í Ed. — Ég hygg, að ég hafi þá svarað þeim fyrirspurnum, sem hv. 4. þm. Reykv. bar fram.