02.05.1932
Neðri deild: 65. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í D-deild Alþingistíðinda. (3115)

140. mál, fækkun prestsembætta

Guðbrandur Ísberg:

Það eru aðeins örfá orð út af því, sem hv. þm. Ísaf. beindi til mín áðan. Hann sagði, að komið hefði fram í ræðu minni, að ég teldi mig ekki hafa orðið fyrir menningaráhrifum annarsstaðar frá en gegnum blöð og útvarp. Ég held, að mín orð hafi ekki gefið tilefni til slíkra ummæla. Ég vildi aðeins leggja áherzlu á það, að prestarnir hefðu haft mjög mikil menningarleg áhrif á þjóð okkar á liðnum öldum og að þeirra áhrifa gætti enn þann dag í dag. Og ég sagði það sem mína skoðun, að ég teldi rétt að fela prestunum eftirlit með barnafræðslunni, a. m. k. til sveita, jafnhliða sínu kennimannsstarfi. Á þann hátt tel ég því bezt borgið, að menningaráhrifa prestastéttarinnar gæti enn um langt skeið hjá þjóðinni.

Ég ætla svo ekki að hafa um þetta fleiri orð né gera sérstaklega að umtalsefni það, sem hv. þm. hafði eftir mér um blöðin og útvarpið; um það efni ræði ég, ef tilefni gefst til, við hv. þm. Dal.

Ég vil aðeins að lokum benda á það, að það er ekkert undarlegt, þó hv. þm. Ísaf. og hans flokksmenn beiti sér gegn kirkjunni og kristnihaldi öllu í landinu. Það hefir alltaf verið eitt af stefnumálum sócíalista. Og það er mjög eðlilegt, að ýms boðorð kristinnar kirkju séu þeim andstæð, þessum mönnum, sem vitandi vits vinna að því, og hafa það stundum beinlínis sér til framdráttar, að etja stétt móti stétt, manni gegn manni og jafnvel börnum gegn foreldrum sínum. Ég álít, að þeir menn, sem þannig breyta, ættu sem minnst að tala um menningaráhrif og menningu; sjálfir kunna þeir að hafa notið hennar, en með starfi sínu vinna þeir að því að rífa hana niður.