03.05.1932
Efri deild: 66. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 340 í C-deild Alþingistíðinda. (3155)

159. mál, framfærslulög

Bjarni Snæbjörnsson:

Það eru aðeins fáein orð. Hv. 3. landsk. fannst mikil bót í því frv., sem hv. allshn. hefir borið fram og verður til umr. seinna í dag. En ég verð að segja það, að það er ekki nema bara bót, en ekki nein lausn á málinu. Maður getur sagt sem svo, að það, sem horfir við fyrir sveitarfélögum sé aðalatriðið fyrir þau, en ekki aðalatriðið fyrir mennina, sem eiga að þiggja styrkinn. Það, sem einmitt er hið sárgrætilega, er mannúðarleysið, er lýsir sér í sveitarflutningunum, og þau vandræði, sem af þeim hljótast. Ég verð að segja það, að ef þetta frv. allshn. hefir verið að einhverju leyti bót, þá hefir hv. 3. landsk. gert sitt til þess að spilla því með till. sínum um að stytta sveitfestitímann niður í tvö ár. Með því móti eykst hreppapólitíkin gagnvart þessum vesalingum, sem eða að þiggja styrkinn. (JónJ: Þvert á móti). Þetta er sannleikur. Það vita þeir, sem dvalið hafa í bæjum, og því situr tæplega á þessum hv. þm. að vera svo kampakátur yfir þessari réttarbót, sem allshn. hefir borið fram. Hann hefir gert sitt til að gera hana að sáralitlu gagni fyrir þá, sem þennan styrk þurfa að þiggja.