13.04.1932
Efri deild: 50. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í D-deild Alþingistíðinda. (3244)

23. mál, milliþinganefndir um iðjumál og iðnað

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég hefi hlustað með ánægju á ræðu hv. þm. Snæf., því að ég sé, að þar kemur fram aukin sparnaðarviðleitni hjá honum frá því, sem var á yngri þingmannsárum hans.

Vil ég fyrst minnast á það, að meðan hann var yngri, réð hans flokkur mestu um skipun n. í fossamálinu. Lét flokkurinn 2 af sínum beztu mönnum starfa þar í nokkur ár, og varð kostnaðurinn af því máli um 100 þús. kr. Niðurstaðan varð sú, að gerð voru lög, nokkrum árum seinna, sem síðan hafa ekki verið notuð, að því er ég veit til. Bendir þetta til, að fyrr á þingmannsárum hv. þm. Snæf. hafi hann og hans flokksmenn verið inni á því sama og hann bregður nú stj. um.

Ég ætla að nefna annað dæmi. Þegar samningarnir urðu milli Íslands og Danmerkur 1918, var gert ráð fyrir skipun 3 manna n. frá hvorn ríki. Sá stjórnarformaður, sem hv. þm. studdi þá, réð fyrirkomulagi þessarar n., er skipuð var af Íslands hálfu. Í þessari n. átti hans flokkur jafnan fulltrúa og á nú 2 af 4. Þessi nefnd fékk fyrir tilstuðlan J. M. 2000 kr. laun á mann og þar að auki mikinn kostnað við utanferðir. Í einni utanferð komst ferðakostnaður eins af þessum sparsömu íhaldsmönnum upp í 5000 kr. fyrir að sigla til Danmerkur: Var það fyrir áhrif úr öðrum áttum en frá flokki hv. þm., að farið var að spara við þessa menn. Alþingi samþ. lækkun launanna úr 2000 kr. niður í 500 kr. Brá þá flokksmönnum hv. þm. svo við, að þeir fóru í mál við ríkið, en töpuðu því reyndar. En eftir að þingið hafði lækkað kaupið og ferðakostnaður þessara manna að miklum mun, og tóku þeir nú að eyða allt að 50 krónum dönskum á dag í ferðakostnað. Þetta varð samt sem áður töluvert heiðarleg upphæð með þessu móti. Og þannig stóð málið þangað til ég kom í nefndina. Þá sýndist mér, af því að hér var aðeins um 3–4 daga starf að ræða, og það bæði lítið og létt, að kaupið mætti falla niður. Síðan hefi hvorki ég né hv. 2. landsk. hirt þessar 500 kr. í nokkur ár, en ég veit ekki annað en að flokksbræður hv. þm. Snæf. hafi tekið sitt. Sú breyt. hefir einnig orðið á kjörum þessarar nefndar, að nú er hverjum nm., sem utan fer í þessu skyni, reiknaðar 1500 kr. ísl. í ferðakostnað, og er það mikill munur frá því, er vinir og samherjar hv. þm. gátu komið þessum kostnaði upp í 5 þús. kr. á mann fyrir ferðina til Danmerkur.

Annars vil ég benda hv. þm. Snæf. á, í sambandi við það, sem hann kallaði löngun manna til þess að láta skipa sig í einhverja nefnd og taka peninga fyrir, að flokksmenn hans hafa ekki síður haft lyst á beinum og langað til að vera í nefndum en aðrir, að ég ekki nefni nefndina, sem skipuð var til þess að meta Landsbankann sællar minningar og ekkert gerði, birti aldrei neitt álit og gerði yfir höfuð ekkert nema vitleysu. Þó gátu þessir óeigingjörnu íhaldsmenn og flokksbræður hv. þm. innbyrt fyrir þetta gagnslausa og alónýta starf 6 þús. kr. hver. Þetta sýnir tilhneigingu íhaldsmanna að vera í nefndum, og getur því hv. þm. Snæf. skotið örvum sínum þangað, sem þörfin meiri fyrir er.

Ég kem þá að því, sem hv. þm. sagði um þær n., sem skipaðar hafa verið síðan íhaldsmeirihlutinn hætti að ráða í landinu, og nefndi nokkur dæmi þess, að störf þeirra hefðu ekki komið að neinum notum.

Það eru tvær nefndir, sem ég hefi verið riðinn við að skipa á þessu tímabili, sem um er ræða: ríkisgjaldanefnd og kirkjumálanefnd. Ég heyrði ekki hv. þm. tala um ríkisgjaldanefndina og starf hennar, sem var mikið, en þó ódýrt. Aftur á móti varð honum skrafdrjúgt um kirkjumálanefndina og þótti starf hennar ekki hafa svarað kostnaði. En eftir hana liggur mikið starf, eins og sjá má af frv. þeim, sem frá henni hafa borizt: að vísu eru ekki nema sum af frv. þessum komin í gegnum þingið, en eru á góðri leið með það.

Þegar þessi n. var skipuð, vakti fyrir mér að fá ýtarlega rannsókn á málum kirkjunnar. Þeir tímar voru löngu liðnir, er kirkjunnar menn höfðu haft tækifæri til að hafa áhrif á löggjöfina um mál sín og kirkjunnar, og þess vegna dregizt óþarflega langt aftur úr, svo að kjör presta eru á engan hátt sambærileg við þau kjör, sem aðrar stéttir njóta af hálfu ríkisins.

T. d. hefir sú stétt, sem hv. þm. Snæf. heyrir til, gengið svo langt í kröfum sínum, að hún hefir kúgað þingið þangað til hún hafði fram að verða launahæst allra stétta í landinu. Og þetta hefir hún ekki látið sér nægja, heldur sýnt ágengni sína við ríkissjóð og einstaklinga með því að fara fram úr þeim taxta, sem henni er settur að lögum. Mér fannst rétt að minna á þetta, af því að prestarnir hafa aldrei gert samsæri gegn ríkisvaldinu, eins og læknastéttin gerði 1919 í undirbúningi þeim, er launahækkun þeirra byggðist á. Prestarnir hafa ekkert fengið og orðið hart úti; laun þeirra lág og önnur kjör þeirra lítt við unandi, enda var svo komið, að ungir og efnilegir guðfræðingar fengust ekki til að ganga í þjónustu kirkjunnar. Með starfi kirkjumálanefndar og till. hennar hefir tekizt að koma á skipulagi um byggingar á prestssetrum, svo að við má una, auk þess sem n. hefir tekið fyrir að skipuleggja ýmis atriði innan sjálfrar kirkjunnar. Mun það fljótt koma á daginn, að starf n. beri góðan árangur og jafnframt viðurkennt af öllum réttsýnum mönnum að vera mjög ódýrt.

Annars get ég vel skilið, að hv. þm. Snæf. sé illa við ríkisgjaldanefndina. Í henni átti sæti maður, sem tvisvar hefir verið mótframbjóðandi hv. þm. og hækkað svo atkvæðatölu sína í síðustu kosningum, að farið er að gusta ónotalega um hv. þm. í Ólafsvíkinni og þingfylgi hans mjög að þrjóta. Virðast kjósendur um Snæfellsnes líta öðrum augum á starf ríkisgjaldanefndar en hv. þm. gerir og að ekki hafi verið eins mannspillandi að starfa í n. og hv. þm. vill vera láta. Því verður heldur ekki neitað, að með rannsókn og starfi ríkisgjaldanefndar hefir komið í ljós, hvernig íhaldsstj. hafði varið ríkissjóðnum. Það kom sem sé í ljós, að íhaldið hafði hlaðið beini á bein ofan handa sínum nánustu fylgifiskum, svo að sumir starfsmenn í stjórnarráðinu báru úr býtum yfir 20 þús. kr. laun á ári, eða höfðu helmingi hærri aukalaun en föstu launin námu.

Um hinar n., sem skipaðar hafa verið af öðrum mönnum í stjórninni eða af sjálfu þinginu, get ég verið fáorður. En hitt er hlægileg fjarstæða, að halda því fram, þó landbúnaðarn. hafi kostað um 40 þús. kr., að hún hafi ekki borgað sig, eða að með þessum kostnaði hafi of miklu verið eytt vegna landbúnaðarins. Þessi n. hefir unnið mikið og þarft starf, eins og sjá má á frv. hennar, sem sumpart eru þegar fram komin eða eru á uppsiglingu. Í því sambandi vil ég aðeins benda á hið stóra og ýtarlega frv. n. um breyt. á ábúðarlöggjöfinni, en það mál eitt nær þó til helmings af öllum bændum í landinu. Ég ætla að segja hér sögu, sem sýnir, hvað ábúðarlöggjöf okkar er ósanngjörn. Hún gerðist í eyju vestur á Breiðafirði og kannske í kjördæmi hv. þm. Snæf., þótt ég fullyrði ekkert um það. Fyrir nokkrum árum bjó þarna maður á jörð, sem einn af nánustu flokksbræðrum hv. þm. á, og hefir átt, eins og hann, sæti á þingi um langt skeið. Bóndinn reisti steinhús á jörðinni fyrir 10 þús. kr. og kostaði það að öllu leyti sjálfur. Á jörðinni gat hann haft 2 kýr og nokkrar kindur, en allur afrakstur búsins gekk til þess að greiða afgjaldið og afborganir af skuldum. Nú henti það óhapp bóndann, að hann veiktist, varð heilsulaus og ekki um annað að gera en sleppa jörðinni og flytjast í burt. Búið gat hann selt fyrir nokkurt verð, en þá var eftir að koma húsinu í verð, sem var minnst 10 þús. kr. virði. Það var úr steini og ekki hægt að fara með það. Húsið varð að fylgja jörðinni, en ábúandinn, sem við tók, hvorki gat né kærði sig um að kaupa það. En þá kom jarðareigandinn, flokksbróðir hv. þm. Snæf. og samþm. hans, til skjalanna og gerði húseiganda það höfðinglega tilboð að kaupa húsið fyrir 1000 kr. — segjum og skrifum einar þúsund krónur —, og þessu boði var bóndinn neyddur til að taka.

Heldur nú hv. þm. Snæf., að það sé lítilfjörlegt að vernda bændur gegn öðru eins ranglæti og annari eins ósvífni, sem þessi flokksbróðir hans gat beitt við leiguliða sinn í skjóli ranglátrar og úreltrar ábúðarlöggjafar? Og heldur hann, ef einn bóndi getur tapað 10–12 þús. kr. vegna ófullkominnar ábúðarlöggjafar, að það þyki lengi vænlegt til kjörfylgis í bændakjördæmum að taka upp vörn fyrir það ófremdarástand, sem ábúðarlöggjöf okkar er í. Það vill nú líka svo til, að áskoranir hafa borizt úr flestum sveitum landsins um að taka föstum tökum á þessu máli. Þess vegna vona ég, að hv. þm. Snæf. skilji, að þótt honum vaxi í augum, hvað landbúnaðarn. hefir kostað, þá sé sá kostnaður smávaxinn móts við þær umbótatill. einar, sem hún hefir borið fram um réttlátari og sanngjarnari ábúðarlöggjöf.

Ég vil þá að lokum endurtaka það, sem ég sagði áðan um nefndir, er skipaðar voru áður en þessi stj. tók við völdum, svo að betur festist í minni hv. þm. Snæf., að langsamlega dýrasta n., sem starfað hefir, er n., sem hans flokkur stofnaði til, og nokkrir nánustu flokksmenn hv. þm. hirtu bróðurpartinn af því mikla fé. Og ennfremur, að óþarfasta n., sem starfað hefir að tilhlutun hins opinbera og ekkert gerði og ekkert liggur eftir, er Landsbankan., sem hans íhaldsstj. skipaði, en hver nm. hirti 6 þús. kr., sem allt rann í vasa íhaldsmanna. Þannig hefi ég orðið að hrekja stig af stigi allt, sem hv. þm. Snæf. sagði, og sýnt, að íhaldsmenn hafa beitt fjárgróðaaðstöðu sinni til þess að komast í hálaunaðar nefndir og taka þar fé, sumpart fyrir ekkert eða alóþarft starf, eða þá illa rækt í alla staði. En hver einasta nefnd, sem skipuð hefir verið síðasta kjörtímabil, hefir haft stór mál með höndum til athugunar og frá hverri þeirra liggja fyrir margar og merkilegar umbótatill., er sumpart hafa náð fram að ganga eða eru á uppsiglingu í þinginu.

Hvort till. hv. 1. þm. Reykv. nær fram að ganga eða ekki, er aukaatriði. Það er vitanlega gott, ef nm. vilja starfa ókeypis, en aðalatriðið er, hvernig þetta starf er unnið. Ég fyrir mitt leyti hefi reynt að starfa eftir þessu. Við, sem unnum í alþingishátíðarnefndinni, störfuðum ókeypis, og fyrir starf okkar í Þingvallanefnd tökum við heldur ekki neitt. Annars er það ekki vandi að fylgja till. hv. 1. þm. Reykv. Hann hefir hjálpað til að búa sér til embætti, og það starf er svo vel launað, að hann mundi standa sig vel við að vinna að þessum nefndarstörfum ókeypis.