17.05.1932
Sameinað þing: 10. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 400 í C-deild Alþingistíðinda. (3313)

243. mál, síldarmat

Guðbrandur Ísberg:

Hv. 1. þm. S.-M., form. sjútvn. Nd., hefir nú hlaupið í skarðið fyrir hv. frsm. n., sem er veikur, og svarað mestu af því, sem hv. 2. þm. S.-M. sagði og svara þurfti. Ég vil þó drepa á fáein atriði.

Ég vil þá fyrst benda á, að þegar fersksíldarmat var ákveðið með l. frá 1919, þá stóð allt öðruvísi á síldarmálunum en nú. Þá var mjög mikið gert að því að selja síld manna á milli hér innanlands. Hún hafði þá oft verið í margra manna höndum áður en hún kom erlendum kaupendum í hendur. Undir þessum kringumstæðum er það mjög skiljanlegt, að menn hafi viljað hafa fersksíldarmat, þegar sá maður, sem fyrst saltaði síldina, gat talið sig góðan, ef hann losnaði við hana svo fljótt, að skemmdir gætu ekki verið komnar í ljós, því hann var þá laus við alla ábyrgð.

Annað, sem mun hafa ýtt undir fersksíldarmatið, var það, að á stríðsárunum voru oft seldir heilir farmar af síld gegn vottorðum hérlendra manna, því þeir erlendu menn, sem keyptu síldina, áttu þá ekki hægt um vik að koma hingað sjálfir og skoða hana og gátu því ekki séð hana fyrr en þeir voru búnir að veita henni móttöku erlendis.

Nú er þetta mjög mikið breytt. Í byrjun starfstíma einkasölunnar var talið, að íslenzk síldarmatsvottorð væru alveg gagnslaus, vegna þess að erlendir kaupendur annaðhvort skoðuðu síldina sjálfir hér heima áður en hún var afhent eða sömdu svo um, að síldinni yrði ekki veitt móttaka fyrr en eftir skoðun erlendis. En venjulega skoðuðu þeir hana hér heima. Mat undir þessum kringumstæðum var því alveg þýðingarlaust og gagnslaust. Þá kostaði það 13 aur. á tunnu. Í tíð einkasölunnar fór matinu ekki fram, en frá því að kosta 13 aur. á tunnu áður en einkasalan hófst komst það upp í að kosta yfir 40 aur. á tunnu síðastl. ár. Að því leyti var um framför eða afturför í matinu að ræða, eftir því sem menn nú vilja orða það. En að flestra dómi, sem til þekktu, var síldarmatið miklu lakara í lok einkasölutímans en verið hafði í byrjun hans og næstu ár á undan.

Hv. 2. þm. S.-M. gerði samanburð á fiskmati og síldarmati. Ég tel ekki rétt að lina neitt á kröfunum um mat á fiski, því kaupendurnir taka fullt tillit til þess og verður það því að teljast nauðsynlegt. En kaupendur síldarinnar taka ekkert tillit til þeirra vottorða, sem henni fylgja, vegna þess meðfram, að síld er vara, sem geymist miklu ver en saltfiskur. Ef eitthvað er skemmt af henni, þegar hún er söltuð, getur það valdið stórkostlegum skemmdum í allri síldinni síðar.

Nú má enginn halda, þó ég geri mun á fiski og síld, miðað við það ástand, sem nú er, að ég áliti að við eigum að leggja árar í bát og hætta að vanda síldina sem voru og meta hana. Nei, þvert á móti leggur sjútvn. til, að síldin verði metin til útflutnings. En n. vill láta útflutningsmat nægja, því það er það, sem síldarkaupendurnir leggja alla áherzluna á.

Nú er svo komið, að það má telja víst; að það verði engir milliliðir milli framleiðendanna og hinna erlendu kaupenda. Það getur því ekki orðið um neitt brask með síld að ræða hér innanlands, og þess vegna bera framleiðendurnir sjálfir alla ábyrgð á því, að sú síld sé góð, sem þeir selja, og það er nægilegt aðhald fyrir þá til að hafa síldina góða.

Í þessu sambandi vil ég minna á, að Skotar, sem um mjög langt skeið hafa verkað síld til útflutnings, hafa ekkert skyldumat á síld. Mjög mörg þeirra eldri firmu, sem búin eru að fá gott orð á sig, selja sína síld alveg ómetna; þau hafa að vísu sína eigin matsmenn, og eins mun það verða hér. Þau láta sína eigin menn gæta þess, að varan sé góð og að það sé aðeins söltuð óskemmd síld, og kaupandinn lætur sér þetta nægja, þegar gömul og þekkt firmu eiga í hlut. En yngri firmu verða að snúa sér til matsmanna á meðan þau eru að vinna sér álit.

Ég held, að það væri ekki úr vegi að taka upp sama fyrirkomulag hér og knýja með því framleiðendurna sjálfa til að vanda sem bezt vöruna. Þess vegna hefir sjútvn. Nd. lagt áherzlu á útflutningsmatið, að hún telur, að með því fáist betri vöruvöndun. En samt sem áður álít ég það ekkert vandræðamál, þó frv. verði fellt og engin lög séu til um mat á síld næsta ár. Það er í raun og veru engin breyt. frá því, sem verið hefir, að öðru en því, að síldarsaltendur sjálfir velja sér þá matsmenn til að sjá um, að varan verði góð, því þeir eiga allt á hættu, ef illa tekst til. Og hinir erlendu kaupendur munu á þessu ári skoða síldina eins og undanfarið, hvort sem hún er metin af matsmönnum, skipuðum af ríkinu eða ómetin sem kallað mundi verða, en þó í raun og veru metin af trúnaðarmönnum síldareigendanna, sem allt ættu undir því, að varan reyndist góð.

Það er aðeins að einu leyti óheppilegt, ef ekki er hægt að ráða þessu máli til lykta nú. Í lögum, sem samþ. voru í fyrra um endurgreiðslu á tolli af síldarkryddi, er byggt á því, að til séu lögskipaðir matsmenn. En vitanlega má útnefna matsmenn, þó þeir séu ekki skipaðir, eins og í þessu frv. er gert ráð fyrir.