15.03.1932
Neðri deild: 29. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 804 í B-deild Alþingistíðinda. (336)

4. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Lárus Helgason:

Það er nú orðið langt síðan ég hafði kvatt mér hljóðs, því að þetta frv. er búið að vera á dagskrá svo oft síðan án þess að fá afgreiðslu. En það, sem ég ætla aðallega að tala um, er brtt. á þskj. 97.

Það hafa heyrzt margar raddir um það hér í d., að við, sem flytjum þessa till., séum svo nærsýnir, að við hugsum sérstaklega um okkar kjördæmi. Ég vil því sýna fram á það, að þegar svona skattur er lagður á, þá er það ekki furða, þó menn, sem búa í þeim héruðum, sem eru hafnlaus og hafa því ekki not sjávarsamgangna, séu ekki sem ánægðastir með þann kostnaðarauka, sem af því leiðir að fá þennan skatt á flutninga til sín. Hv. 2. þm. Rang. hefir bent á, að m. a. gerði þessi skattur það að verkum, að það væri ekki mögulegt annað en að hinir dýru flutningar hefðu áhrif á verð landbúnaðarafurða. Það er líka sýnilegt, að svona hár skattur á flutningana hlýtur að koma allmikið niður á ekki aðeins menn í þeim héruðum, sem við þá flutninga eiga að búa, heldur einnig á Reykvíkinga, t. d. þá, sem kaupa mjólkina austan yfir Hellisheiði. Það er því ekki rétt, að við flm. þessarar till. flytjum hana af hlutdrægni. Það virðist sanngjarnt að fara fram á þá ívilnun, að létt verði undir þá byrði, sem af þessu mun leiða fyrir þá, sem skatturinn lendir verst á, ef frv verður samþ.

Ég veit, að menn muni slá því fram, að það hagi víðar svo til, að um erfiðleika á flutningum sé að ræða. En þeir eru þó allra mestir þar, sem hafnleysur eru og vegalengdir miklar þetta hafnlausa svæði, sem hér er um að ræða, tekur yfir meiri vegalengdir og á því eru meiri vegleysur en annarsstaðar á sér stað í þessu landi. Ég veit, að þessi skattur er lagður á til að halda við vegum í landinu. En hvað er nú um þetta að segja í þessum héruðum? Hvað er mikil sanngirni í því að borga þennan skatt þar, sem bílar eru mest notaðir á vegum, sem gerðir eru af náttúrunni, eða réttara sagt á vegleysum, svo sem er á söndunum í Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu. Sá, sem ferðast héðan úr Reykjavík og alla leið austur á Síðu, sér, að það er ákaflega mikill hluti vegarins á þeirri leið, sem ekki er gerður af mannahöndum og sem alls ekkert hefir verið kostað til. Þeir, sem búa í þeim héruðum, sem ég nefndi, verða því ekki aðnjótandi neins af þessum skatti, enda þótt þessir sandar, sem verið er að braska við að fara í bílum yfir, séu meira en helmingi benzínfrekari en sæmilegir vegir. Þó það eigi að bæa vegina með benzínskattinum, þá verður ekkert af honum notað til að gera þessa sanda betri yfirferðar, enda mundi hann skammt endast til þess, jafnvel þó hann færi allur til þess. Það er því sýnilegt, að þau héruð, sem eiga við að búa hafnleysur, vegleysur og miklar vegalengdir, hljóta að verða langsamlega verst úti, ef frv þetta nær fram að ganga. Það er það, sem ég vil leggja áherzlu á, af því að okkur hefir verið borið það á brýn, að við flm. værum að skara eldi að okkar köku. En við erum hér að fara fram á fyllstu sanngirni. Væri skatturinn lagður á til að bæta vegina tiltölulega í héruðum, sem borga hann, þá væri ekki ástæða til að fara fram á þetta, því þá væri ekki um neina ósanngirni að ræða.

Ég skal svo ekki þreyta hv. d. meira á að tala um till., og um frv. sjálft er búið að tala svo mikið, að ég sé ekki ástæðu til að bæta við það. En ég held, að við nánari athugun á till. sjái menn, að þar er ekki um neina hlutdrægni eða ágengni að ræða, heldur sanngirni.