05.04.1932
Neðri deild: 43. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 199 í B-deild Alþingistíðinda. (35)

1. mál, fjárlög 1933

Haraldur Guðmundsson:

Síðasta ræða hæstv. forsrh. mátti heita einn harmagrátur frá upphafi til enda. Hann var að kvarta yfir því, hvað stj. hefði lítinn ræðutíma. Það var samkomulag, að allir flokkar hefðu jafnan ræðutíma, svo að það er engin ástæða til að vera að kvarta. Hann kvartaði yfir því, að til stj. hefði verið beint óþægilegum spurningum. Hvers er annars að vænta á eldhúsdegi? Menn spyrja þá um margt, sem stj. kemur ónotalega. Og hann kvartaði yfir því, að við jafnaðarmenn vildum ekki samþ. fjárl., þar sem verklegar framkvæmdir eru skornar niður, og að við vildum ekki samþ. verðtoll og viðbótartoll ofan á hann. Loks fannst mér hæstv. ráðh. kvarta yfir letinni í mér, að nenna ekki að sækja landsreikninginn upp í prentsmiðju. Kl. var nú farin að ganga 1 um nóttina, þegar mér var boðið það, svo að það hefði ekki einungis verið eftirvinna, heldur næturvinna, og auk þess prentsmiðjan lokuð. Til viðbótar kvörtununum gat hæstv. ráðh. um það, sem stj. hefir afrekað, að lágtekjumenn, sem ekki eru verndaðir með lögum, hefðu fengið 15% launalækkun, að menn hafi verið sendir til Noregs, Danmerkur og Englands, og til Spánar, og hv. þm. Vestm. til Þýzkalands. En ég spyr hæstv. stj.: Hver er árangurinn af þessum sendiferðum. Mér er kunnugt um, að árangurinn af ferð hv. þm. Vestm. var nokkur, en það mun orka tvímælis, hve mikill hann var. En árangurinn af hinum sendiferðunum var enginn.

Þá kvartaði hæstv. forsrh. undan því, að ég skyldi dirfast að spyrja stj., hvað hún hefði hugsað til verklegra framkvæmda í landinu. „Ég sem neitaði um fé“, segir hæstv. ráðh., og svo skyldi ég leyfa mér að spyrja um þetta. Ég held, að ég ætti þá lítið erindi á þing, ef mér er ekki leyfilegt að spyrja hæstv. stj. En í sambandi við fullyrðingu ráðh. um, að við jafnaðarmenn neitum stj. um fé, vil ég segja hæstv. ráðh., að ég er reiðubúinn að taka upp samninga við stj. og hennar flokk, ef hún vill ganga að því, að kosningaréttur allra manna og kvenna hér á landi 21 árs gamalla, hvort sem þeir hafa þegið sveitarstyrk eða ekki, verði gerður jafn og þjóðmálaflokkum tryggð þingsæti í réttu hlutfalli við kjósendatölu þeirra, þá er mér ljúft að vinna með stj. og flokki hennar að því að koma þessu í framkvæmd.

Vilji stj. auka hátekju- og eignaskatta til þess að bæta úr afkomuvandræðum þeirra, sem engar eignir eiga, þá skal ég ljá því mitt lið. Og vilji stj. gera ráðstöfun til að lækka hinn óhæfilega háa milliliðakostnað verzlana, þá skal ég styðja stj. til þess. En vilji stj. ekkert af þessu gera, þá getur hún ekki vænzt eftir því, að ég styðji hana.

Hæstv. ráðh. sagði, að undirtektir okkar jafnaðarmanna undir þáltill. hefðu verið dauflegar. Við sátum hjá við atkvgr., af því að við höfum ekki trú á, að stj. mundi hafa till. að nokkru. Við vissum, að það var þýðingarlaust að samþ. hana, og sú spá hefir ræzt.

Að lokum vildi ég svo segja nokkur orð til þeirra, sem á mál okkar hlusta utan veggja þessa húss. Ég vil þakka þeim, sem hlýddu á mál okkar. Ég vil vænta þess, að þeir eigi hægra með, eftir að flokkarnir hafa lagt fyrir þá rök sín, að meta málstað hvers flokks um sig, þá er það þeirra að dæma, að velja eða hafna málstað og flokk. En við flokksmenn mína, hvar sem er, hvort sem þeir eiga heima við sjó eða uppi í afdölum, hvort sem þeir eru bændur eða sjómenn eða verkamenn, vil ég segja þetta: Reynsla allra þjóða hefir sýnt það og sannað, að þær stéttir, sem eignalausar eru og afskiptar um réttlæti, fá aldrei nokkurn tíma bættan sinn hag og aukinn sinn rétt sem náðargjöf frá ráðandi stéttum. Ef þeim er alvara að fá bættan sinn hag og aukinn sinn rétt, þá verða þær sjálfar að knýja það fram, sjálfar að knýja fram hags- og réttarbætur sér til handa. Til þess verða þær að skipa sér í fastan flokk, sinn eigin flokk, fylkja sér undir merki Alþýðuflokksins og láta bræðurna Kain og Abel eigast við, þangað til þeir báðir falla óvígir.