04.04.1932
Neðri deild: 42. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 617 í C-deild Alþingistíðinda. (3584)

8. mál, erfðaleigulönd

Sveinn Ólafsson:

ég verð að gera nokkra grein fyrir atkv. mínu, af því að ég sé mér ekki fært að fylgja frv. þessu óbreyttu út úr deildinni. Veit ég vel að vísu, að breyt. eru aðkallandi á 6. kafla jarðræktarlaganna, sem ætlazt er til, að falli úr gildi við samþykkt þessa frv. En ég hafði hugsað mér, að þær breyt. yrðu með nokkuð öðrum hætti en hér er ráðgert. Mér virðast miklir gallar enn á frv. þessu, þótt hv. landbn. hafi lagfært það í ýmsum greinum og fært margt til betri vegar. Það, sem mér sízt gezt að í frv., er það, að með því er víðtækt og hættulegt vald lagt í hendur nokkurra einstaklinga, vald til þess að fyrirskipa eignarnám. Þurfa þeir ekki eftir frv. að leita til Alþingis, eins og venja er til þegar eignarnám skal framkvæma. Eftir frv. eiga 10 menn, ef þeir telja sig í landræktarfélagi, að geta fengið eignarnámið framkvæmt, ef þeir telja sig þurfa að ná eignarráðum yfir landinu. Mér virðist með þessum ákvæðum beinlínis gengið á snið við stjskr. Nú nýlega var t.d. hér á ferð inni frv. um loftferðir, og þurfti að heimila eignarnám á landskákum vegna flugstöðvar, en þá þótti ekki fært að setja það inn í frv. nema eins og heimild fyrir atvmrh. Ég veit að vísu, að til er heimild í vatnalögunum og vegalögunum um eignarnám í smáum stíl án sérstaks leyfis Alþingis, en það eru líka nær einu undantekningarnar í þessu efni frá þinglegri afgreiðslu eignarnámsheimilda. Mér finnst þetta ákvæði frv. svo ógætilegt og með því farið svo mjög á snið við 63. gr. stjskr., að ég býst ekki við að geta fylgt frv. út úr d. nema gerbreyttu. Það er sjálfsagt að gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess, að landið verði tiltækt til ræktunar þar, sem þörfin kallar, en þær ráðstafanir mega ekki vera gálausleg skerðing á löghelguðum eignarrétti. Annars finnst mér, að með ákvæðum frv. þessa sé vikið frá grundvelli jarðræktarlaganna að því er kemur til tímalengdar erfðaleigu.

Samkv. frv. er erfðaleigu- eða umraðarétturinn óendanlegur, leigumálinn á að gilda um aldur og æfi. En í jarðræktarlögunum frá 1923 er erfðaleigan miðuð við 75 ár. Þá þykir mér líka vafasamt, að eftirlit það, sem Búnaðarfél. Ísl. er ætlað að hafa með þessum málum, verði hagfellt eða framkvæmanlegt með öllu. Nú er það vitanlegt, að erfðafestulönd eru alls ekki fá eða óvíða á opinberum eignum, og hafa þau verið afhent sumpart af umboðsmönnum og sumpart af hreppstjórum. Verði frv. samþ., virðist umráð leigulandanna eiga að hverfa úr höndum þessara manna til Búnaðarfél., en það virðist mér harla vafasamt, að félagið hafi jafngóð skilyrði til þess að hafa umsjón og eftirlit með leigulöndunum eins og staðkunnugir menn í nágrenni leigulandanna. Það var margt rétt fram tekið af hv. þm. V.-Húnv. um missmíði frv. Hann nefndi t. d. lóðarstærðina, 2 ha. og 3000 ? m. eftir 5. gr. sé um lítið land að ræða, þarf eðlilega að skipta svo, að sem flestir fái fullnægt brýnustu þörfum. Virðist mér lágmark lóðar, þar sem landskortur er, mætti miða við landskák, sem sæmilega ræktað gæfi af sér eitt kýrfóður.

Skal ég svo ekki fjölyrða frekar um þetta, enda fáir viðstaddir. En eins og ég þegar hefi tekið fram, get ég ekki fylgt frv. lengra eins og það er nú.