04.06.1932
Efri deild: 94. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 832 í B-deild Alþingistíðinda. (369)

4. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson) [óyfirl.]:

Ég hefði fyrir mitt leyti heldur kosið, að hægt hefði verið að fá nú samkomulag um aðra skiptingu á fénu, en til þess hefir ekki orðið ráðrúm. Og ég gat þess af hendi Sjálfstæðisflokksins, að við hefðum lofað þessu máli framgangi að því tilskildu, að á því fengjust breytingar, sem við gætum unað við. (JónJ: Engin skilyrði). Nú er þetta sú minnsta efnisbreyting, sem hægt er að gera á frv., og úr því hæstv. stj. hefir getað fallizt á þetta, þá vona ég, að hv. dm. geri það þá málinu til fyrirgreiðslu að samþykkja brtt. fjhn., því að annars ábyrgist ég ekki um forlög frv. Og við erum engum loforðum bundnir, ef sú brtt., sem hæstv. fjmrh. hefir fallizt á, nær ekki samþykki.