12.05.1932
Neðri deild: 73. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 869 í C-deild Alþingistíðinda. (3797)

15. mál, fimmtardómur

Magnús Guðmundsson:

það er undarlegt, að hæstv. dómsmrh., sem flutt hefir þetta mál hér þing eftir þing, skuli nú ekki láta sjá sig, þegar málið er hér til umr. Ég veit ekki, hvað því veldur. Ég veit ekki, hvort hann heldur, að það sé letra fyrir málið, eða þá að það er af því, að hann hefir engan áhuga fyrir því lengur og sé því sama, hver endirinn verður.

Því er ekki hægt að neita, að frv. þetta hefir tekið stórum breyt. til hins betra, frá því að það var fyrst flutt inn í þingið. Þá var það alveg óaðgengilegt. Og enn eru þeir agnúar þó á því, sem gera það að verkum, að það verða margir, sem ekki geta fylgt því. Hv. 2. hv hv. 4. þm. Reykv. hafa nú gert grein fyrir heim agnúum. Hefi ég ekki miklu við það að bæta. Ég vil þó undirstrika betur en hv. 4. þm. Reykv. gerði, að það er vafalaust, að frv. heggur nærri 57. gr. stjskr. með ákvæði 2. gr. um, að leggja skuli Hæstarétt niður. Réttmæti þess veltur vitanlega á því, hvort ný skipun er gerð á dómstólnum. En svo sýnist ekki vera. Hér er aðalbreyt. sú, að dómstóllinn skiptir um nafn. Og í skjóli þess var það meiningin í byrjun að fá öll dómarasætin laus. Þetta er allt annað en það að gera nýja skipun á dómsvaldinu, svo sem ráðgert er í 57. gr. stjskr., þar sem talað er um nýja skipun dómsvaldsins. Ég verð að taka undir það með hv. 4. þm. Reykv., að ef 2. gr. er ekkert nema form, hvers vegna eru forgöngumenn frv. þá ófáanlegir til að fella þetta ákvæði burtu, sem mestum ágreiningi veldur ár eftir ár. Nei, ég get alveg tekið undir það, sem hv. 4. þm. Reykv. sagði, að hér er ekki um neitt formsatriði að ræða. Ákvæði er sett til þess að geta látið líta svo út, sem um nýja skipun dómsvaldsins í landinu sé að ræða. En það er enginn efi á, að tilgangurinn með frv. var og er sá og enginn annar, að losna við þá dómara, sem voru í hæstarétti, þegar frv. var fyrst borið fram og eru þar enn, að einum undanskildum. Og það styrkir mig í þeirri sannfæringu, hvernig hæstv. dómsmrh. hefir talað og ritað um hæstarétt, eins og og hann var skipaður þá og er enn. En nú er rétta nokkuð breytt. Þau 3 ár, sem liðin eru síðan frv. var fyrst borið fram, hafa dómararnir færzt svo mjög nær því aldursmarki, sem ákveðið er, að nú er orðið stutt þar til hægt er að losa sig við þá 2 dómara, sem eftir eru, án þess að til þess þurfi að brjóta stjskr. Það hefir nú þegar sýnt sig með hann dómarann, sem fyrstur varð 65 ára, að hann var látinn fara úr dómum. Í sumar nær annar þeirra, sem eftir eru, þessum aldri og sá þriðji að ég hygg á næsta ári. Nú er þess vegna ekki orðið langt að bíða. En fyrst þegar frv. var borið fram, var hæstv. dómsmrh. mjög óánægður við réttinn, vegna dóma, er hann hafði dæmt. Hann taldi sér því ekki fært að bíða, er hann bar þetta fyrst fram, en sá sér hinsvegar ekki heldur fært að setja þá frá, nema brjóta ákvæði stjskr. Þessi tilgangur veldur því, að ég vil ekki, að þetta frv. gangi fram. Það á engum ráðh. að haldast það uppi að afnema æðsta dómstól landsins, af því einu, að hann er óánægður með dóma hans. Sú þrískipting valdsins, sem stjskr. ráðgerir, er að engu höfð, ef þetta er gert. Þá getur hver stj. sem er farið eftir slíku fordæmi, svo framarlega, sem hún vill hafa sig til þess. En í þessu sambandi vil ég minnast á eitt atriði, sem enn hefir ekkert verið farið út í, og það er, að þó ráðh. skipi í æðsta dóminn menn, sem hann álítur, að verði sér lægir, þá er alls ekki víst, að svo verði. Því er nú svo varið, að dómarar yfirleitt hafa sterka skyldutilfinningu fyrir því að dæma eins og þeir telja réttast. Í því sambandi vil ég minna á einn dóm, sem lögmaðurinn hér dæmdi. Ég las umsögn um hann í stjórnarblaðinu og það var auðséð á greininni, að það var engin ánægja með þann dóm. Það var þó núv. hæstv. dómsmrh., sem skipaði lögmanninn, vitanlega af því að hann hafði traust á honum, sem var líka að mínu áliti óhætt. En í þessu tilfelli a. m. k. dæmdi hann þó eigi á þann hátt, að hæstv. dómsmrh. væri ánægður. Eins hygg ég, að þessu gæti orðið varið með Hæstarétt. Það er ekki víst, þó að hæstv. dómsmrh. skipaði menn í hann, að þeirra sannfæring kæmi ávallt heim við sannfæringu hæstv. ráðh. — En hæstv. ráðh. sér það aldrei, vegna þess hvað hann er æstur í skapi, að aðrir hafi rétt fyrir sér, ef hann er sjálfur á annari skoðun. Ég held, að það sé úr því sem komið er bezt fyrir hæstv. ráðh. að bíða, þar til hann getur komið þessum dómurum frá, sem honum sjálfum er svo lítið um gefið, þar til hann getur gert það átt þess að ganga of nærri stjskr.

Þá er annað atriði, er ég vil minnast á. Það er dómararaunin. Ég er satt að segja undrandi yfir því, að ákvæðið um dómararaunina er talið óhafandi. Af hverju er verið að lata málaflutningsmennina ganga undir prófraun áður en þeir fá leyfi til að flytja mál fyrir hæstarétti, ef ekki má láta sjálfa dómarana gera það? af hverju á ráðh., sem þó getur ekki verið eins fær um það, að dæma einn um það, hver umsækjandi sé hæfastur til að taka sæti í hæstarétti? Það er þó ekki eins og hæstaréttardómararnir skipi menn í réttinn. Það gerir ráðh. Þeir hafa aðeins synjunarvald.

Það virðist annars vera svo, að hæstv. dómsmrh. hafi ekki veitzt það neitt létt verk að finna dómara í þennan rétt, því nú er maður, sem aðeins er settur, búinn að starfa þar í heilt ár.

Andstæðan gegn dómararauninni sýnir, að það er tilgangurinn með frv., að dómararnir verði háðari framkvæmdarvaldinu en áður hefir verið. Og það kemur alveg í bága við þá skiptingu valdsins, sem ráðgerð er í stjskn.

Þá er það atriðið um aukadómarana. Þá á að tilkalla í öllum stærri og vandasamari málum, og eftir brtt. hv. meiri hl. allshn. á þskj. 686 er tilgangurinn sá, að dómurinn ákveði þóknun til þessara manna fyrir hvert mál, sem þeir dæma. Þegar athugað er, hvað mikið verk það er að kveða upp dóm í vandasömum málum, þá er ég viss um, að það verður talsverð þóknun, sem þessum mönnum verður greidd og mundi á ári slaga langt upp í föst laun aðaldómara. Með þessu er því um lítinn sparnað að ræða, og ég er viss um, að það mundi kosta lítið meira að fjölga dómurunum upp í 5.

Auk þess vil ég taka undir það, sem hv. 4. þm. Reykv. sagði, að það er oft alls ekki svo, að það sjáist fljótt, hvort mál er vandasamt eða ekki. Það sest fljótt, hvort málið er umfangsmikið, en hvort það er vandasamt, sest ekki, fyrr en málflutningur hefir byrjað. Ég held, að það komi ekki sjaldan fyrir, að dómurum finnist ekkert léttara að dæma í litlu máli, sem tekur yfir fáar arkir, en í máli, sem í eru langar dómsgerðir. Ég er því viss um, að dómarar hins nýja réttar muni, hvenær sem þeir eru í vafa um, hvort eitthvert mál sé vandasamt eða ekki, kalla aukadómarana til, og þetta styrkir m. a. þá, skoðun mína, að aukakostnaðurinn fyrir þóknun til þessara manna muni slaga töluvert hátt upp í laun reglulegs dómara.

Svo er ennfremur ákvæði, sem sýnir hugarfar þeirra manna, sem að þessu frv. standa; það er ákvæðið í 5. gr. frv., sem hljóðar svo: „Þó getur dómsmálaráðherra krafizt þess, að aukadómarar taki sæti í fimmtardómi í opinberum málum“. Þetta hlýtur að þýða, að þó að aðaldómarar kæri sig ekki um að tilkalla aukadómara, þá geti dómsmrh. krafizt þess, að þeir taki sæti í dómnum. Ef þetta er rétt skilið hjá mér, þá verð ég að segja, að það er með öllu óhæfilegt að gefa dómsmrh. vald til að útvega sérstaka dómara í máli, sem honum er kappsmál og hann er sjálfur ákærandi í. Það er óhæfileg blöndun á ákvæðum dómsvalds og framkvæmdarvalds, að sá maður, sem er ákærandi, tilnefni dómara, og er óhafandi með öllu, að hann megi gera það. Það er nógu illt og hættulegt, að pólitískur ráðh. hafi ákæruvaldið með höndum, enda þekkist þetta hvergi nema hér. En þó er ennþá hættulegra, að sami ráðh. sé látinn ráða því, hverjir dæmi í þessum málum, það hlýtur að leiða að sjálfu sér, að ekki getur dregizt lengi úr þessu, að skipaður verði opinber saksóknari, eins og annarsstaðar í öllum siðuðum löndum, sem ég þekki til. En ástæðan til, að þetta hefir ekki verið gert hér fyrir löngu, er sú, að fátt er um slík mál hjá okkur, og því er álitið, að starfið yrði of lítið fyrir einn mann. þess vegna var sú ákvörðun tekin í stjórnarráðinu fyrir löngu, að láta ákæruvaldið vera í höndum skrifstofustjórans í dómsmálaráðuneytinu, en sjálfur dómsmrh. kom þar hvergi nærri. En síðan núv. dómsmrh. kom til valda, hefir hann tekið ákæruvaldið af skrifstofustjóranum í mörgum málum, sem ég þekki til, og er slíkt óhæfilegt með öllu og ekki viðunandi til lengdar, ekki sízt, þar sem hann er ekki lögfræðingur, sem mun vera einsdæmi.

Ég vildi sérstaklega skora á hv. þm. Barð., sem hafði orð fyrir meiri hl. allshn. að svara því, hvernig á þessu ákvæði stendur og við hvað hafi að styðjast, að dómsmrh. skuli hafa hönd í bagga með, hverjir dæmi í opinberum málum. Eftir þeim reglum, sem nú gilda, eru það prófessorar lagadeildar háskólans, sem eru varadómarar í Hæstarétti. þ. e. a. s., þeir eiga að taka við að dæma, þegar reglulegir dómarar forfallast. Þegar svo er komið, að 2 af prófessorunum eiga í öllum vandasamari málum að vera reglulegir dómarar í fimmtardómi, þá er auðséð, að forfallist annaðhvort einn varadómari eða einn af aðaldómurunum, eru allir varadómararnir komnir í dómarasæti. M. ö. o., ef tveir forfallast eftir því, sem nú er, þar sem aðeins eru 2 fastir dómarar í réttinum, þá vantar alveg varadómara, og þá segir frv., að dómsmrh. eigi að skipa varadómara. En þetta er óheppilegt, því að oft getur komið fyrir, að tveir dómarar forfallist. Það hefði verið réttara til þess að forðast þetta, að taka upp þá reglu að ákveða, að varadómarar skuli vera svo margir, að engar líkur séu til, að þeir verði ekki alltaf nógu margir, og að ráðh. þyrfti aldrei að koma nærri því að útnefna þá vegna einstakra mála. Það hefði verið hægt að ákveða, með því að hafa svo og svo marga varadómara utan lagadeildar til þess að taka við, ef á þarf að halda vegna forfalla reglulegra dómara eða aukadómara. En eins og ákvæði þessu er komið fyrir, ber að sama brunni og áður með frv. þetta, að allt er gert til þess að auka vald ráðh., svo að hann geti haft áhrif á dómsvaldið.

Þá vildi ég minnast örfáum orðum á 1. brtt. þskj. 686 frá meiri hl. allshn. Við meðferð þessa frv. í hv. Ed. tók það þeim breyt. eftir brtt. frá hv. 3. landsk., að ákveðið var, að veitingu aðaldómaraembættis skuli taka til meðferðar á ráðherrafundi, en síðan geri forseti ráðuneytisins till. um hana til konungs. Með brtt. meiri hl. allshn. er meiningin að fella niður, að forseti ráðuneytisins geri till. um veitinguna til konungs, en flm. vilja aðeins hafa, að málið sé tekið til meðferðar á ráðherrafundi.

Í fljótu bragði virðist ekki mikið bera hér á milli, þar sem aðeins er fellt burt hver eigi að gera till. um veitinguna til konungs. En þegar athugað er orðalag brtt. á þskj. 686, þá sér maður, að þar stendur ekki annað en að taka eigi veitinguna til meðferðar á ráðherrafundi. En þar stendur ekkert orð um að greiða eigi atkv. um það á ráðherrafundi, hver eigi að fá veitingu fyrir aðaldómaraembætti eða hverjum eigi að veita lausn frá dómaraembætti. Og þar stendur heldur ekkert orð um, að dómsmrh. eigi að fara eftir því, sem gert er á ráðherrafundi, og engin trygging fyrir því, að verði neitt gert þar. Ég tel betur um þetta búið eins og hv. Ed. gekk frá því og fæ ekki séð, að brtt. á þskj. 686 sé til neinna bóta. Ég sé svo ekki ástæðu til að lengja umr. frekar, a. m. k. ekki að sinni, eða á meðan hv. þm. Barð. hefir ekki svarað spurningum mínum.