02.04.1932
Neðri deild: 41. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í D-deild Alþingistíðinda. (3850)

252. mál, niðurfærsla á útgjöldum ríkisins

Héðinn Valdimarsson:

Mér leiðist þetta karp um till. sjálfstæðismanna, sem nú eru flestir búnir að tala sig dauða. (PO: Nei, nei!). Þeir líta þó svo út sem þeir væru allir dauðir. Það er öllum ljóst, að viðhafa verður hinn mesta sparnað. Og hæstv. fjmrh. hefir fyrir sitt leyti tekið undir það.

Ég fæ ekki séð, að þingn., sem nú yrði skipuð, fengi gert nema lítið eitt af því, sem hugsanlegt er, að hægt sé að gera. Ef slík n. á að koma að gagni, þá verður hún að halda áfram sínu starfi eftir að þingi er slitið og rannsaka nákvæmlega allt skipulag ríkisstjórnarinnar. Um þetta er ég samdóma hæstv. fjmrh. Ég og flokksmenn mínir teljum það heppilegt, að slík n. er nú skipuð í Ed. með fulltrúum frá öllum flokkum þingsins. Munum við því greiða atkv. með dagskrártill. hv. 1. þm. S.-M.