29.02.1932
Neðri deild: 16. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 997 í C-deild Alþingistíðinda. (4005)

46. mál, áfengislög

Flm. (Magnús Guðmundsson):

Í áfengislögunum er ríkisstj. heimilað að setja sérstaka löggæzlumenn, m. a. vegna bannlaganna. þessa heimild hefir stj. notað ósleitilega, svo sem grg. frv. ber með sér, þar sem kostnaður af þessum ráðstöfunum hefir numið um 80–90 þús. kr. síðastl. ár, og stofnuð hafa verið í þessu skyni mörg ný embætti eða sýslanir. Ég held, að stj. hafi í þessu efni farið miklu lengra heldur en þingið hafði ætlazt til, er þessi lagaheimild var sett. Eins og hag ríkissjóðs er nú komið, virðist einsætt, að skera verður við neglur allar þær fjárveitingar, sem ekki verða að teljast óhjákvæmilegar. Enda þótt þetta frv. næði fram að ganga, er ekki ætlunim, að lögreglan verði skert, miðað við það, sem áður var, heldur verði í því efni miðað við það löggæzlulið, sem var 1928. Ég verð að telja, að á slíkum tímum sem nú eru sé Alþingi skylt að leita allra ráða til þess að firra ríkissjóð útgjöldum, sem komast má hjá.

Ég flyt þetta frv. sem sparnaðarmál. Það getur því ekki orkað tvímælis, að það á heima í fjhn., og vil ég óska, að því verði vísað þangað að lokinni þessari umr.