18.03.1932
Neðri deild: 32. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1205 í C-deild Alþingistíðinda. (4316)

153. mál, háleiguskattur

Haraldur Guðmundsson:

Það er sama um þetta frv. að segja og það frv., sem síðast var hér til umr. (frv. um stóríbúðaskatt), að við jafnaðarmenn munum koma með brtt. við 1. gr. frv. um sérstaka ráðstöfun þeirra tekna, sem frv. gerir ráð fyrir, í þá átt, að þær verði notaðar til að bæta úr húsnæðisleysinu og atvinnuleysinu, sem nú er fyrirsjáanlegt, með því að verja þeim til byggingar verkamannabústaða. Afstaða okkar til frv. er komin undir því, hvort sú brtt. nær fram að ganga. Við litum svo á, að rétt sé að nota slíkan skatt sem þennan og skatt af stóríbúðum til að ráða bót á atvinnuleysinu og húsnæðisvandræðunum. Hér í bæ eru til mörg hús, sem gefa stórkostlegar tekjur, miðað við verð þeirra, og verður ekki annað sagt en að rétt sé að skattleggja slíkar óhæfilega háar tekjur. Í grg. eru dæmi tekin, sem sýna þetta að nokkru, en þó má áreiðanlega finna dæmi, sem stinga ennþá meira í augun.