11.04.1932
Efri deild: 48. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1340 í C-deild Alþingistíðinda. (4519)

225. mál, mjólk og mjókurafurðir

Jón Þorláksson [óyfirl.]:

Það er sérstök ástæða, að ég hygg, til þess að frv. þetta er fram komið. Og hún er sú, að síðan stofnuð voru mjólkurbú í Árnessýslu og vetrarsamgöngur að austan bættar til muna, berst á sumum tímum hingað til Rvíkur töluvert meiri mjólk en gengur hér út. Þeir mjólkurframleiðendur, sem búa hérna megin fjallsins, þykjast verða hart úti í þessum viðskiptum, því að þeir búa, vegna nálægðar við Rvík og hins háa kaupgjalds við sjávarsíðuna, við hærri framleiðslukostnað en bændurnir austanfjalls. Mun því svo á mörgum tímum árs, að framleiðendur í nágrenni Rvíkur, er við háan framleiðslukostnað búa, verða að láta gera skyr og aðrar vörur úr töluverðum hluta mjólkur sinnar, og að því leyti sem þær vörur ganga ekki út, að taka þær heim aftur.

Nú skal ég viðurkenna, að það er ástæða fyrir löggjafarvaldið að bæta eitthvað skipulagið, sem kallað er, á þessu. Og þetta frv. fer í raun og veru fram á að leggja í hendur ríkisstj. alræðisvald um, hvernig hún skipi þessum málum og setji reglugerð þar um eftir algerlega einhliða ráðum framleiðenda, án þess að kaupendur komi þar til greina að halda fram sínum hagsmunum. Það verður ekki af frv. séð, hvaða ákvæði eigi að standa um þetta í reglugerðinni, og þess vegna hefi ég spurzt fyrir um það hjá þeim mönnum, sem ætla má, að standi nálægt þessum málum. Og þeir hafa sagt mér, að hugsunin sé sú, að höfð verði sú tilhögun á mjólkursölunni, að þeir, sem næstir búa Rvík, leggja til sölumjólk í bæinn að því leyti sem hún hrekkur til, en bæta svo við úr fjarlægari sveitum því, sem vantar upp á, að nóg mjólk sé á öllum tímum í bænum. En svo á að skattleggja þá mjólkurframleiðendur, er næstir búa Rvík, til þess að greiða þeim mjólkurframleiðendum, sem fjarlægari eru, uppbót fyrir það, að þeir, sem í fjarlægum héruðum búa, verða að láta vinna aðrar afurðir úr mjólkinni en þeir þurftu að gera, þegar þeir kepptu við sölumarkaðinn hér.

Þetta er nú kannske allt gott og blessað fyrir seljandann, en hinsvegar fæ ég ekki seð, hvers hinn aðilinn á að gjalda, að kaupandinn skuli ekki vera jafnrétthár og að hvergi skuli vera tekið tillit til hans í frv. Ég bendi á þetta út af ákvæðum 2. gr., þar sem talið er upp í 5 liðum það, sem ákveða á í reglugerðinni. Annar liðurinn hljóðar svo: „Að öll mjólk og rjómi, sem seld eru í kaupstöðum, skuli hreinsuð og gerilsneydd, að þeirri mjólk undanskilinni, sem seld er sem „barnamjólk“, eftir nánari reglum, sem um það verða settar“. Og þriðji liður 2. gr. tekur fram sem reglugerðarákvæði: „Hvernig jafna skuli á milli framleiðenda verði mjólkurinnar á hverju framleiðslusvæði fyrir sig, eftir því hvort hún er seld beint til neyzlu í bæjum eða að unnar eru úr henni aðrar afurðir“.

Ég skal viðurkenna, eins og tekið hefir verið fram, að ýmislegt mælir með því, að þeir sitji að mjólkursölunni, sem framleiða hana í umhverfi bæjarins, bæði af því að frá þeim kemur mjólkin nýrri til neytenda og er þar af leiðandi betri vara, og svo hinu, að þeir búa við hærri framleiðslukostnað.

En ég vil segja sem mína skoðun, að frv. þetta þarf vel að athuga og taka mjög miklum lagfæringum áður en það verður að lögum. Eins og frv. er orðað, er næst að líta svo á, að mjólkurframleiðendur í Gullbringu- og Kjósarsýslu og Árnessýslu geti með því að kveðja til fundar neytt mjólkurframleiðendur í bænum í sölusamlag við sig. Þetta er að vísu óákveðið orðað í 1. gr., en þó finnst mér, að leggja megi þann skilning í orðalagið, að framleiðslusvæði grípi yfir þá kaupstaði, þar sem mjólk er seld. Með þessu finnst mér nokkuð langt gengið, ef mjólkurframleiðendur í bænum verða neyddir í sölusamlag af bændum í fjarlægari héruðum, þó þeir fái að vísu að selja alla sína mjólk, en verða svo að svara skatti fyrir að þurfa ekki að láta gera afurðir úr mjólkinni. Ég fæ ekki skilið þetta öðruvísi og er jafnvel ekki grunlaust um, að í frv. felist bann um mjólkurframleiðslu í bænum, og verð ég að telja það óeðlilegt. Því hvað sem skiptingu á milli framleiðenda á verði mjólkurinnar líður, verð ég að líta svo á, að framleiðendur í kaupstöðunum sjálfum eigi að hafa ótakmarkaðan rétt til að selja þar framleiðslu sína.

Ég ætla ekki að fara lengra út í þetta að sinni, en þótti rétt að geta um þetta, af því að með frv. þessu er verið að fara inn á nýjar brautir og því ástæða til við 1. umr. að gefa gaum að þeim ákvæðum, sem liggja á takmörkum þess, sem talin er venja, að leyfilegt sé að gera. Með frv. er farið inn á það, sem kallað er eignarréttur og snertir eignarrétt framleiðenda yfir afurðum sínum.

Ég hefi tekið eftir því m. a., að frv. gerir ráð fyrir, að ef ¾ fundarmanna eða fulltrúa samþ. að stofna mjólkursamlag, þá skuli minni hl., ¼, beygja sig undir það. Að formi til er þetta svipað ákvæðum vatnalaganna. En ég vil leiða athygli að því, að réttur vatnafélaga til að beygja minni hl. til samkomulags byggist á því, að vatnið er ekki séreign — ekki undir eignarráðum einstaklinganna, heldur er það eftir eðli sínu sameiginleg náttúrugæði, og til ráðstöfunar um þau náttúrugæði eru vatnalögin sett. Með frv. er farið inn á samskonar braut, þar sem hér er gert ráð fyrir að leiða menn í sölufyrirkomulag, sem þeim er e. t. v. bæði óhagstætt og óljúft. Ég álít, að þetta atriði þurfi athugunar við og spurning, hvort það sé fært samkv. stjskr. að neyða menn í samtök, sem þeir vilja ekki vera í.