30.03.1932
Neðri deild: 38. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1001 í B-deild Alþingistíðinda. (536)

12. mál, vatnasvæði Þverár og Markarfljóts

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég vona fastlega, að þetta mál fái skjóta afgreiðslu bæði frá þessari hv. d. og Alþingi í heild.

Þetta er í þriðja skipti, sem málið er fram borið. Fyrst á vetrarþinginu síðasta, síðan á sumarþingi, og svo nú á þessu þingi. Málið hefir því fengið rækilegan undirbúning, ekki sízt, þar sem öll undirbúningsvinna er innt af hendi frá vegamálastjóra, samkv. ósk atvmrn. Vona ég, þar sem hv. samgmn. hefir öll orðið sammála um frv., að það fái greiðan gang gegnum þingið.

það kom fram í ræðu hv. frsm., að hann sem annar af þm. þess héraðs, sem hér á mest hlut að máli, álítur, að um eitt atriði mætti öðruvísi skilja en í frv. er gert ráð fyrir. Ég fyrir mitt leyti vil leggja áhérzlu á það, að hugsa fyrst og fremst um samgöngumálin í sambandi við afgreiðslu frv. Þær ákvarðanir, sem gera þyrfti í framtíðinni, yrðu þá að bíða síðari tíma. Aðalatriðið er að geta leyst samgöngumálin á heppilegan hátt, að hægt verði að opna þessa leið fyrir bifreiðum og óhindruðum samgöngum, ekki einungis fyrir Rangárvallasýslu, heldur einnig V.-Skaftafellssýslu.

Ég lít svo á, að það, að koma einhverri stjórn á rennsli hinna miklu vatnsfalla á þessum slóðum, sé svo flókið og erfitt mál, að margt sé enn óathugað í því sambandi. Því tel ég æskilegast að afgreiða þetta mál fyrst og fremst sem samgöngumál, en bíða með hitt unz tíminn leiðir í ljós, hvað þar mun heppilegast. Ég fyrir mitt leyti óttast mjög, að þess verði langt að bíða, að við Íslendingar höfum það fjárhagslega bolmagn, sem þarf til þess að stokkleggja þessi vötn. Ég hygg, að þau náttúruöfl, sem þar ríkja, verði ekki vort meðfæri í náinni framtíð.

Ég vil minna á, hversu gleðilegt það er, að síðan þetta frv. var borið fram, hefir austur í Rangárvallasýslu verið safnað um 100 þús. króna til þessa fyrirtækis, sem frv. ræðir um. Sýnir það bezt, hversu mikið héraðsbúar vilja á sig leggja fyrir framgang þessa máls. Út frá þessu þykir mér mjög vænt um, að hv. n. skuli ætla að bera fram brtt. þess efnis, að ríkisstj. sé heimilt að taka þetta fé, sem þegar hefir safnazt, að láni. Vil ég svo leyfa mér að þakka n. fyrir góða afgreiðslu á málinu.