15.03.1932
Efri deild: 29. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1082 í B-deild Alþingistíðinda. (691)

10. mál, Brunabótafélag Íslands

Jón Þorláksson:

það er rétt, sem hv. frsm. sagði, að ég er samþykkur brtt. á þskj. 144, en hefi þó skrifað undir nál. með fyrirvara. Og í þeim fyrirvara fellst aðallega tvennt: Í fyrsta lagi álít ég frv. svo illa úr garði búið og óvandvirknislega samið, að ég tel fulla nauðsyn á, að það væri vandlega athugað og um það fjallað af tryggingarfróðum manni. Ég treysti okkur í n. ekki til þess að hafa gætur á öllu því, sem þarf að lagfæra, svo að frv. verði gallalaust. Flestar brtt. n. eru aðeins lagfæringar á auðsæjum missmíðum frv., og tel ég því, að geti verið um fleiri missmíði að ræða frá sjónarmiði fróðra manna um þessi mál. Þess vegna er ég ragur við að greiða atkv. með frv. út úr hv. d. áður en það er athugað af slíkum manni eða mönnum. Þetta er þá fyrra atriðið í fyrirvara mínum.

Hitt atriði fyrirvarans á við 7. gr. frv., eða ákvæðin um endurtryggingar og samtryggingar félagsins hjá öðrum brunabótafélögum. Í núgildandi lögum um Brunabótafélag Íslands er svo ákveðið, að félagið endurtryggi það, sem einstakar vátryggingar, er félagið tekur að sér, fer fram úr 10 þús. kr., með hluttöku sveitarfélagsins í ábyrgðinni, en án hluttöku sveitarfélagsins endurtryggir félagið það, sem fer fram úr 7 þús. kr.

Nú mun þetta hafa verið svo í framkvæmdinni, að félagið endurtryggir helming upphæðarinnar, allt að 20 þús. kr., en með ákvæðum 7. gr. er farið fram á, að félagið hafi eigin ábyrgð á öllum steinhúsum, sem tryggð eru fyrir 20 þús. krónur og timburhúsum, sem tryggð eru fyrir 15 þús. kr.

Þetta þýðir það, að í mörgum þorpum, þar sem sambyggð hús eru, geta þau öll verið í hættu og brunnið í einu, og lendir þá skaðinn að mestu leyti á eigin ábyrgð félagsins, því að gera má ráð fyrir, að í flestum þorpum séu það aðeins fá hús í slíkum sambyggingum, sem fara fram yfir þá tryggingarupphæð, sem ákveðið er með frv., að þurfi að vera til þess, að endurtryggingar sé leitað hjá öðrum félögum. Þetta þykir mér afarógætilega farið og felli mig ekki við það, á meðan ekki liggja fyrir nægilegar rannsóknir um áhættu félagsins í þessu efni. Hér ber þess vel að gæta, að þótt litið sé svo á undir venjulegum kringumstæðum, að hver húseign sé í brunahættu út af fyrir sig og tryggingu út af fyrir sig, þá eru þær þó í brunahættu hver frá annari, þar sem þéttbýli er og hættan því sameiginleg.

Mér er gefin sú skýring á þessari ráðabreytni, að það sé álit núv. ráðamanna félagsins, að það beri halla af of miklum endurtryggingum, félagið mundi græða meira, ef endurtryggingarnar væru meira takmarkaðar. Þetta er hinn sami hugsunarháttur og hjá heim einstaklingi, sem léti vera að vátryggja eignir sínar til þess að græða meira. Fyrir félagið er það hið sama að vera ekki endurtryggt sem fyrir einstaklinginn að vera óvátryggður og bera sjálfur hættuna.

Ég veit ekki, hvort félaginu hefir tekizt að fá endurtryggingu með sanngjörnum kjörum. Það gekk í fyrstu erfiðlega að fá endurtryggingu, því að tryggingarstarfsemi í nálægum löndum var þá, og er sjálfsagt enn, að mestu í höndum einkafyrirtækja, er litu þetta ríkisfyrirtæki ómildum augum. Samt fékkst hún og hefir haldizt hjá sama félaginu frá upphafi Ef nú Brunabótafélagið telur sig tapa á endurtryggingunni, þá geta legið til þess tvær ástæður. Önnur sú, að lánið hafi svo fylgt félaginu, að stór óhöpp hafi ekki viljað til. Hitt gæti líka verið, að félagið nyti ekki sanngjarnra kjara við endurtrygginguna.

Ég er ófús á að auka áhættuna stórum frá hví, sem hún hingað til hefir verið. Ef endurtryggingin er félaginu í óhag nú, þá vil ég vinna að því að fá hagkvæmari samninga. Nú, eftir 15–17 ára starf, ætti félaginu að vera auðveldara að ná góðum samningum við skiptavini sína en þegar það fyrst fór af stað. Sérstaklega ætti það að reynast unnt, ef endurtryggingin hefir hingað til verið rekin með mjög góðum hagnaði.

Ég tel vert að gefa þessu atriði sérstakan gaum. Það er mjög stórvægilegt, og þar sem ríkið ber ábyrgð á félaginu, ef illa fer, þá er það sérstök skylda ríkisins að gæta þess, að það endurtryggi gætilega, að áhætta félagsins takmarkist við ráð, sem því er sjálfu viðráðanlegt.

Fyrir utan þessi tvö atriði, sem fyrirvari minn einkum beinist að, vil ég minna a, að með frv. er fellt niður það ákvæði laganna frá 1915, sem býður að setja félaginu fulltrúaráð til þess að gæta hags sveitarfélaganna og vátryggjenda, þegar það er orðið svo stórt, að ársiðgjöldin nema meiru en 75000 kr. Tilætlunin hefir verið þá að hliðra sér hjá þessari nokkuð umsvifamiklu tilhögun, meðan vöxtur félagsins var enn lítill. En nú, þegar félagið er tekið að eflast, er farið fram á að fella ákvæðið burt, í stað þess að framkvæma það. Í frv. er ekki gert ráð fyrir, að félagsmenn hafi nein áhrif á stjórn fyrirtækisins. Ég dreg það í efa, að þessi stofnun verði réttnefnd félag, ef þetta frv. verður að lögum. Það er ekkert annað en sameiginleg ábyrgð, sem bindur félagana saman. Ég vildi aðeins vekja athygli á þessu.

Við 3. umr. mun ég koma fram með brtt. við 7. gr., sem miðar að því, að takmarka áhættu félagsins og ríkisins.