15.03.1932
Efri deild: 29. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1087 í B-deild Alþingistíðinda. (695)

10. mál, Brunabótafélag Íslands

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Ég sé ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um aths. þær, er hv. 1. landsk. hreyfði. Ég get látið það bíða að mestu til 3. umr., þegar brtt. hans verða komnar fram, og tel það eiga betur við en að fara að ræða það nú.

Út af því, sem hv. 2. þm. Árn. lagði til, að taka málið af dagskrá nú, til að afla upplýsinga um, hvað endurtryggingin hefði haft mikil útgjöld af brunatjóni hér á landi, þá verð ég að viðurkenna, að fyrir n. hafa ekki legið slíkar upplýsingar, en ég sé ekki betur en að málið megi afgreiða nú frá 2. umr. og leita þeirra upplýsinga milli umr.

Hvað snertir aths. hv. 3. landsk. út af því nýmæli frv. að lögleiða skyldutryggingu í sveitum, þá vil ég benda á, að það er misskilningur, ef hann heldur, að hægt sé í lánsstofnunum að fá lán út á óvátryggðar eignir. (JónJ: Það er hægt út á jarðir). Það kann að vera, út á jarðirnar húsalausar, en þá að sjálfsögðu ekki eins hátt eins og væru jarðarhúsin vátryggð. Ég vil benda á, að í flestum sveitum er mikill fjöldi íbúðarhúsa vátryggður, en þau viðskipti ná bara ekki öll til Brunabótafélags Íslands. Það er ástæða til að innleiða hér skyldutryggingu. Ef það er hagkvæmara að vátryggja hús í kaupstöðum, þá ætti það líka að vera hagkvæmara fyrir sveitamenn. Það er mesti misskilningur, að brunar í sveittun séu miklu ótíðari en í kaupstöðum. Ég gæti trúað, að það væri alveg gagnstætt. Fyrir þessu má að ég hygg færa sönnur, ef lagt er til grundvallar það fjármagn, sem stendur í byggingum í sveitum og bæjum, að þá eru brunar tíðari í sveitum en kaupstöðum. Það er að vísu ekki hægt að neita því, að iðgjöldin eru talsverður skattur á bændur, en á það ber þó að líta, að mjög margir þeirra greiða hann skatt nú, a. m. k. allir þeir, sem taka hafa orðið lán út á eignir sínar. Og hinum er líka áreiðanlega fyrir beztu að tryggja húseignir sínar.

Hv. 3. landsk. sagði, að fólki væri engin alvara með að notfæra sér lög um þetta. Sæst það bezt af því, að fá sveitarfélög hefðu komið á hjá sér brunabótasamþykkt. En þetta sannar einmitt, að menn hafa ekki enn fengið opin augu fyrir nauðsyn þessa máls og því lítið hafizt handa, nema þar, sem utanaðkomandi áhrif hafa neytt bændur til að tryggja. Er því kominn tími til að lögleiða skyldutryggingar, líka í sveitum.

Ég sé ekki, að ástæða sé til vegna meiri hl. n. að rökræða þetta meir að sinni. Vil ég mælast til, að þessari umr. verði lokið nú. Má taka til athugunar þær aths., sem fram hafa komið í umr., á milli 2. og 3. umr.