07.04.1932
Efri deild: 45. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1096 í B-deild Alþingistíðinda. (711)

10. mál, Brunabótafélag Íslands

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Þegar fjhn. afgreiddi frv. Þetta til 3. umr., þá voru tvö atriði í því, sem n. hefði ekki tekið lokaákvörðun um. Það var þó aðallega við 22. gr. frv., síðari málsgr., þar sem ákveðið er, að brunabótasjóðir sveitabæja og annara húsa utan kauptúna samkv. l. gr. laga nr. 35, 27. júní 1921, skuli mynda tryggingarsjóði sveitabæja utan Kaupstaða og kauptúna. Hitt atriðið var um það, hvernig fé brunabótasjóðsins skyldi ávaxtað. Um þessi atriði hafði n. ekki tekið endanlega ákvörðun. Ennfremur er rétt að geta þess, að brtt. hv. 3. landsk. og hv. þm. A.-Húnv., sem þá var tekin aftur til 3. umr. að ósk n., var einnig tekin til athugunar í n. á milli umr. N. hefir nú tekið þessi atriði öll fyrir til endanlegrar ályktunar og hefir borið fram brtt: á þskj. 333. Skal ég vikja að þeim nánar. Er þá fyrst brtt. við 3. gr. Hv. 3. landsk. og hv. þm. A.-Húnv. höfðu í brtt. þeirri, er þeir frestuðu til 3. umr., lagt það til, að skyldutrygging utan kaupstaða og kauptúna gengi ekki í gildi fyrr en frá 1. jan. 1935. Fjhn. komst að þeirri niðurstöðu, að rétt væri að veita frest um framkvæmd þessa atriðis og fellst á, að svo yrði gert. En henni þótti réttara að binda þetta við gjalddaga félagsins, þann sem ákveðið er um í frv., og leggur því til, að skyldutryggingin að því er ofangreint atriði snertir gangi í gildi 15. okt. 1934. En um leið og þetta var gert þótti n. rétt að orða gr. um, en efnisbreyt. er þó ekki önnur en þessi.

2. brtt. n., við 6. gr., er aðeins lagfæring á gr. Það er lagt til, að fellt verði niður orð, sem telja má, að hafi verið nokkurskonar eftirlegukind í frv. frá 2. umr.

Þá kemur 3. brtt., við 20. gr. N. hafði rætt þetta nokkuð áður, en ekki gert till. um, hversu því skyldi ráðið. En það er atriðið um það, hversu sjóðir félagsins skuli geymdir og ávaxtaðir. Um þetta er nú ekki mikið að segja, þó nokkur meiningamunur kunni að vera um þetta. En rétt er þó að ákveða eitthvað um það í lögunum. Ég tel þau ákvæði um ávöxtun sjóðanna, sem nefndir eru í brtt. n., nægilega rúm, svo að þau muni ekki hefta starfsemi brunabótafélagsins. Hér kemur sérstaklega til athugunar síðasta málsgr. þessarar brtt., þar sem heimilað er, með samþ. atvmrh. í hvert sinn, að verja fé sjóðanna til sérstakra útlána gegn nægum tryggingum, ef þau eru á einhvern hátt til stuðnings starfsemi félagsins. N. hafði sérstaklega í huga lán til kaupstaða og kauptúna, sem væru veitt til þess að treysta brunavarnir þeirra. Þetta hefir verið nokkuð gert, og því verður ekki neitað, að slíkt er ekki lítils virði fyrir félagið, ef það má lána nokkuð út á annað borð. Það er gott að fá skaða bættan, en hitt er þó meira virði, bæði fyrir sjóðinn og líka fyrir tryggjendur, að fyrirbyggja bruna.

Þá kemur 4. brtt., við 22. gr. Um þetta atriði, hvort rétt væri með þessum l. að ákveða, að brunabótasjóðir, sem myndazt hafa samkv. l. frá 1921, skuli teknir og afhentir Brunabótafélagi Íslands sem tryggingarsjóður sveitabæja utan kaupstaða og kauptúna, bárust n. kvartanir utan af landi. Forráðamenn brunabótafélaga sveitanna líta svo á, að þeir sjóðir, sem þannig hafa myndazt, séu eign viðkomandi hreppsfélags, án þess að n. vilji leggja fullnaðardóm á, hversu réttmætt þetta er, þá telur hún þetta þó varhugavert og vill ekki leggja til, að þetta ákvæði frv. verði lögfest. Ég skal játa það, að frá mínu leikmanns sjónarmiði get ég ekki betur séð en að með ákvæði frv. sé verið að ráðstafa eign hreppsfélaga, sem óvíst er, að löggjafarvaldinu sé heimilt. Auk þess munu hreppsfélögin líta svo á, að þegar lögleidd verður skyldutrygging í öllum hreppsfélögum landsins, þá ætti, ef þetta ákvæði stendur, að gera þeim hreppsfélögum að skyldu, er þá byrja að tryggja í brunabótafélaginu, að leggja fram tilsvarandi stofnsjóðstillög. En ég hygg, að allir geti orðið sammála mér um það, að sú kvöð er alveg fráleit. Við getum gert okkur ofurlítið ljósari grein fyrir þessu, er við athugum það, að eftir núgildandi l. er hverjum hreppi það frjálst, hvort hann kemur á fót hjá sér brunabótasamþykkt eða ekki, og að menn mega ganga úr félaginu, ef þeir tryggja annarsstaðar. Það hefir komið fyrir, að þetta hefir verið gert, að menn hafa farið til annara félaga með tryggingar sínar, svo brunabótafélag sveitarinnar hefir lagzt niður. Í því tilfelli hafa sjóðir þeirra runnið til Sveitarsjóðsins. Ég held því, að ákvörðun n. viðvíkjandi niðurstöðu 22. gr. frv. sé rétt eins og sakir standa. Hitt er einnig rétt, að það væri hagur fyrir brunabótafélagið að eignast þessa sjóði. Þeir munu nú samanlagðir nema um 50 þús. kr. Það má því segja, að þessi ákvörðun n., ef samþ. verður, rýri tryggingu brunabótafélagsins fyrir þessum auknu og nýju tryggingum í sveitunum. Þetta er sátt, en þó er nú miklu álitlegra heldur en þegar brunabótafélagið var sett á stofn og hafði ekki að bakhjarli nema takmarkaða ábyrgð. Ríkissjóði hafa á þeim tíma, sem það er búið að starfa, safnazt allverulegir sjóðir. Ég hygg, að sá hluti sjóðsins, sem er fyrir kaupstaði og kauptún, nemi nú orðið um millj. kr. og hinn sameiginlegi sjóður sveitaiðgjalda fyrir áhættu brunabótafélagsins er nú á annað hundrað þús. kr. Ég álít því ekki, að hér sé um óforsvaranlega áhættu að ræða, og vona, að þó að brtt. þessar komi ekki fyrr en við 3. umr., þá líti hv. deild svo á, að þær séu réttmætar og að þær nái samþykki. Tel ég þó forsvaranlega frá frv. gengið.

Ég hefi farið um þetta nokkuð mörgum orðum. Ég vildi, að það kæmi eins skýrt fram eins og mér væri unnt, hvernig á þessum brtt. stendur og hvernig n. hefir litið á þetta atriði. Um síðustu brtt. þarf ég ekki að ræða. Hún er aðeins afleiðing af brtt við 3. gr. frv.

Þarf ég svo ekki að skýra þetta nánar. Ég geri ráð fyrir, að svo verði litið á af einhverjum hv. þdm., að fjhn. hafi verið nokkuð lengi með þetta mál. Ég skal ekki neita því, að svo sé, enda hefir n. lagt allmikinn tíma í að athuga frv. og gera það sem bezt úr garði. Ég hygg, að Brunabótafélag Íslands sé og eigi að verða ein af mestu nytjastofnunum þessa lands. Er því nauðsyn að ganga vel frá þeim l., er það á að starfa eftir. Það er heldur ekki ólíklegt, að ýmsir hv. dm. kannist við það, að fjhn. hafi lagt mikla vinnu í frv., enda komið með margar brtt. Samstarf n. um þetta mál hefir verið hið ákjósanlegasta. Allir hafa viljað tryggja sem bezt bæði hag viðskiptamannanna og félagsins í framtíðinni.

Þótt brtt. fjhn. kæmi nú á síðustu stundu og ef til vill einhverjum að óvörum, þá vona ég, þó að ég hafi máske ekki skýrt efni þeirra vel, að þær séu svo ljósar sjálfar, að hv. dm. átti sig skjótlega á efni þeirra og séu viðbúnir að greiða um þær atkv. Vona ég, að þær verði samþ. og frv. að því loknu samþ. til Nd. og að það geti orðið að l. á þessu þingi.

Ég vil geta þess, að fjhn. hefir átt tal við forstjóra brunabótafélagsins um þessar brtt. Taldi hann þar flestar eða allar viðunandi. Og þótt hann væri ekki sammála n. um 4. brtt., þá fellst hann samt á rök fjhn. Er það og von, að forstjórinn sé heldur á móti því, að rýrðar séu tekjuvonir og eignir félagsins, að því leyti sem forsvaranlegt væri að krefja þær. Ég læt svo við þetta sitja. Vonast ég til, að hv. deild fallist á brtt. og samþ. frv.