18.03.1932
Efri deild: 32. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1139 í B-deild Alþingistíðinda. (754)

11. mál, skiptameðferð á búi Síldareinkasölu Íslands

Dómsmrh. (Jónas Jónsson) [óyfirl.]:

Ég vil aðeins segja nokkur orð út af því, sem hv. 1. þm. Reykv. vildi halda fram, að sá flokkur, sem hann fylgir nú, hafi engin áhrif haft á framkvæmdir Síldareinkasölunnar. Mér þykir réttara að sýna íhaldsfl. meiri mildi en hann gerir og viðurkenna störf hans og þátttöku í Síldareinkasölunni. Ég er ekki í vafa um, að hv. 1. þm. Reykv. gerir allt of lítið úr sérfræðingum Íhaldsfl. í síldarmálunum og helztu skörungum þess flokks við Eyjafjörð, heim Ásgeiri Péturssyni og Birni Líndal, þegar hann segir, að þeir hafi engin áhrif haft á rekstur síldareinkasölunnar, því fremur sem það er öllum kunnugt, að oddamaður útflutningsnefndarinnar, Böðvar Bjarkan lögmaður, er samvinnuþýður maður og ekki líklegur til þess að taka illa upp till. annara málsaðilja í nefndinni. Hann var kjörinn oddamaður með sérstöku tilliti til þess, að hann hafði góða aðstöðu til að vinna með aðiljum hinna flokkanna í n. og þá ekki síður með fulltrúum útvegsmanna.

Ég vil minna hv. 1. þm. Reykv. á eitt atriði frá síðastl. sumri, sem bregður skýru ljósi yfir starfsemi útflutningsnefndarinnar þá. Böðvar Bjarkan var staddur erlendis, þegar n. tók ákvarðanir um að veita útgerðarmönnum viðbótarsöltunarleyfi, og ég hygg, að hv. þm. sé ekki ókunnugt um, að fulltrúar útgerðarmanna og verkamanna voru sammála um að veita hin víðtæku söltunarleyfi, og að fulltrúum hans eigin flokks var það ekki síður ljúft. Þessi veiðileyfi komu sér vel fyrir þá menn, sem taka á móti síld til söltunar og fengu þannig aukna atvinnu fyrir söltunarstöðvar sínar. En þessi ákvörðun eyðilagði síldarsöluna síðastl. sumar, eins og kunnugt er. Sá af framkvæmdarstjórum einkasölunnar, sem er gamall flokksbróðir hv. 1. þm. Reykv., gerði allt, sem hann gat til að sporna við því, að útflutningsnefndin veitti þessi leyfi og lét bóka ýtarleg mótmæli gegn því í gerðabók nefndarinnar. Hann sagði fyrir um þær ófarir, sem af þessu mundi leiða, en það var ekki haft að neinu. — ég veit að hv. 1. þm. Reykv. er svo sanngjarn maður, að honum dettur ekki í hug að neita því, sem öllum landsmönnum er kunnugt, að fulltrúar útgerðarmanna og jafnaðarmanna brugðust þarna því trausti og þeirri ábyrgð, sem lögin lögðu þeim á herðar, að líta fremur á hagsmuni almennings og þjóðarinnar heldur en eigin hagsmuni eða stéttarhagsmuni. Ég vona því, að hv. þm. geri ekki tilraun til að hreinsa flokksmenn sína af þessu. Annars ætla ég ekki að ræða þetta frekar, m. a. af þeirri ástæðu, að annar fulltrúi útgerðarmanna í útflutningsnefndinni, Björn Líndal, sem var andstæðingur minn hér á þingi, er nú dáinn.

Í fyrri ræðu minni talaði ég um þá ágalla, sem sneru að fulltrúum verkamanna í þessum málum. En ég mun aldrei framar taka þátt í samtökum um að skipuleggja þennan atvinnuveg, ef að útgerðarmannafél. og verkamannafél. á Norðurlandi eiga að ráða mestu um framkvæmdir á því sviði. Svo gersamlega hafa þau brotið af sér alla tiltrú í þeim málum.