13.04.1932
Neðri deild: 50. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1206 í B-deild Alþingistíðinda. (795)

11. mál, skiptameðferð á búi Síldareinkasölu Íslands

Pétur Ottesen:

Ég býst við, að það sé einróma álit manna, að úr því sem komið var, hafi ekki um annað verið að ræða fyrir ríkisstj. en leggja Síldareinkasöluna niður og setja á stofn sérstaka nefnd manna til þess að ráðstafa þeim reitum, er eftir voru í fórum hennar, og standa skil á þeim miklu skuldum, er á henni hvíla, að svo miklu leyti, sem hægt er. Um þetta held ég að sé lítill ágreiningur bæði innan þings og utan. Að vísu hafa heyrzt dálítið hjáróma raddir frá jafnaðarmönnum, er kveða dálítið við annan tón, telja þetta ekki hafa verið heppilega ráðstöfun, að undanteknu þessu munu allir vera á eitt sáttir um það, að ekki hafi verið annað að gera, enda var svo komið, að fyrirsjáanlegt var, að þetta fyrirtæki var orðið gersamlega gjaldþrota. Það er því síður en svo að ég ætli í nokkurn máta að andmæla þessari ráðstöfun, hún var eðlileg og óhjákvæmileg afleiðing þess, hvernig komið var fyrir síldareinkasölunni.

Ég hefi hér í höndum reikning frá skilanefnd einkasölunnar til útgerðarmanns á Akranesi, er lagði síld af tveimur bátum inn í einkasöluna síðastl. sumar. Hann hefir fengið borgað sem svarar 2 kr. fyrir hverja síldartunnu. En þessi reikningur ber það með sér, að aðeins er tilfærð í honum sú upphæð, sem greidd hefir verið út á síldina, en hitt látið óskrifað, sem lagt hefir verið inn í einkasöluna, þannig að sá dálkur reikningsins er aðeins útfylltur, þar sem um er að ræða úttektir, en ekkert í hinum, sem ætlaður er fyrir innleggið. Vildi ég beina þeirri fyrirspurn til hæstv. stj., hvort það mætti draga þá ályktun af þessu, að meining skilanefndarinnar væri sti, að krefja endurgreiðslu á heim 2 kr. á tunnu, sem búið er að greiða út á síldina. Færsla reikningsins bendir óneitanlega til þess, þar sem hann aðeins er látinn sýna úttektina, en ekki jafnframt þau innlegg, sem á móti hafa komið. Vildi ég skjóta þessu fram til athugunar fyrir þá n., sem um þetta mál fjallar, jafnframt sem ég beini þessari fyrirspurn til hæstv. stj. Það er vitanlegt, eftir því sem sagt er um afkomu síldareinkasölunnar, að einkasalan hefir ekki staðið sig við að greiða þessar 2 kr. á tunnu, því að þrátt fyrir það, þó að menn hafi lagt síld sína inn í einkasöluna fyrir ekkert, hrekkur það ekki nærri til þess, að einkasalan geti staðið við skuldbindingar sínar að öðru leyti. Ég vænti þess, að ég geti fengið einhver svör við þessu hjá hæstv. stj., og þá síðar, ef þau skyldu ekki vera á takteinum nú, — hvort það sé meining skilanefndarinnar að krefja endurgreiðslu á því, sem búið er að borga sjómönnum og útgerðarmönnum fyrir þá síld, sem þeir hafa lagt inn í einkasöluna, því að eins og ég hefi áður sagt, þá bendir þessi reikningsfærsla í þá átt.

Þá vil ég hreyfa því í þessu sambandi, að bornar hafa verið miklar sakir á þá menn, sem haft hafa með höndum stjórn síldareinkasölunnar. Hefir verið látið svo um mælt, að ríkt hafi hin mesta óstjórn á einkasölunni á öllum sviðum. Síldareinkasölustj. hafi sýnt ófyrirgefanlegan trassaskap um vöruvöndun, látið nota lélegar tunnur og skemmt salt, og verið skeytingarlaus um verkun síldarinnar. þá hafi það og komið að miklum bága, og beinlínis valdið tjóni, hve oft það var, að vantaði bæði tunnur og salt yfir veiðitímann. Á öðrum tímum hafi hinsvegar verið hafðir óhæfilegir aðdrættir af hvorutveggja, svo að orðið hafi að geyma það til næstu vertíðar, og hafi þetta haft í för með sér mikla rýrnun og skemmdir á þessum hlutum. Þá er það og ennfremur borið á síldareinkasölustj., að hún hafi gert vitaverð innkaup, stofnað til óhóflegs kostnaðar, falsað reikninga fyrirtækisins, beitt hlutdrægni í öllum greiðslum, og hafi auk þess verið óskiljanlegt ólag á söltuninni.

Ég tel ekki þörf á því að færa hér fram nú þau rök, sem standa að baki þessum ákærum, því að bæði í blaðagreinum og eins hér á þingi hafa verið færð margvísleg rök að öllum þessum kæruatr., en e. t. v. mætti fara nánar inn á þetta síðar við umr., ef ástæða þætti til. — Það er hinsvegar vitanlegt, að ef þessi kæruatr. á hendur stj. Síldareinkasölunnar eru sönn, hefir stj. hennar átt sinn verulega þátt í því, að þetta fyrirtæki hefir brugðizt svo vonum þeirra manna, sem að því stóðu, að Síldareinkasalan var sett á stofn, því að mistökin eru svo mikil, að þau ein út af fyrir sig hefðu gert það ómögulegt að önnur niðurstaða gæti orðið af starfsemi Síldareinkasölunnar en nú hefir komið á daginn, og er sú, að þetta fyrirtæki, sem átti að verða öllum til gagns og blessunar, hefir orðið til hins mesta tjóns og ógagns öllum þeim, sem svo óheppnir hafa verið að þurfa að eiga afkomu sína undir því.

Ég vildi hreyfa þessu hér, og jafnframt skjóta því til hæstv. stj., hvort henni þykir ekki ástæða til þess, út frá þessum margvíslegu og alvarlegu kæruatr., sem borin hafa verið á stj. fyrirtækisins, að látin verði fara fram rannsókn á þessu, svo að úr því fáist skorið, hvort þessar kærur hafa við full rök að styðjast eða ekki. frá sjónarmiði beggja aðilja, jafnt þeirra, sem borið hafa ákærurnar fram, sem hinna, sem ákærurnar eru bornar á, er það fyrir beztu, að slík rannsókn verði látin fram fara. Þessar ákærur eru auk þess svo alvarlegs eðlis, að ekki má undir höfuð leggjast að láta rannsaka, hvernig þessir hlutir hafa gengið til. Þá má og benda á það, að í lögunum um gjaldþrotaskipti er svo fyrir mælt, að fram fari lögreglurannsókn undir svona kringumstæðum. Vil ég ennfremur í þessu sambandi benda á það, að stj. fann ástæðu til þess, út af umkvörtunum, sem fram höfðu komið um það, að síldarbræðslustöðin á Hesteyri notaði ekki rétt mál til að mæla þá síld, sem hún keypti, að bregða fljótt við um rannsókn á því máli, og var skipaður sérstakur rannsóknardómari, til þess að rannsóknin gæti gengið greiðlegar á þessum atriðum öllum. Í þessu tilfelli var náttúrlega um að ræða tiltölulega litið ásökunarefni, samanborið við þetta, því að það snerti aðeins tiltölulega fáa menn, en hinsvegar fjöldi manna, sem átti hag sinn og velferð undir Síldareinkasölunni. hér er því um svo viðtækt mál að ræða, að ég tel rétt og sjálfsagt, að látin verði fara fram ýtarleg rannsókn á þessum margvíslegu kæruatr. Hefi ég drepið á rannsóknina á Hesteyri til þess aðeins að benda á það, að ekki er síður ástæða til að ganga rösklega fram í því að láta rannsaka þessa hluti.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri. Voru það aðallega þessi tvo atr., sem ég vildi beina til stj. út af þessu máli, hvort stj. ætli ekki að láta fara fram rannsókn á rekstri Síldareinkasölunnar, vegna þeirra ákærna, sem fram hafa komið á stj. einkasölunnar í því efni, og hvort það sé meining skilanefndarinnar að krefja menn aftur um þessar 2 kr. á tunnu, sem þeir hafa fengið borgaðar út fyrir alla þá síld, sem þeir hafa lagt inn í einkasöluna.