26.04.1932
Neðri deild: 60. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1257 í B-deild Alþingistíðinda. (868)

17. mál, bygging fyrir Háskóla Íslands

Dómsmrh. (Jónas Jónsson) [óyfirl.]:

Þar sem hv. 2. þm. Reykv., sem er frsm. n., er veikur og getur því ekki annazt framsöguna, vil ég tala nokkuð um málið og annars nota það tækifæri, sem ég hefi ekki áður haft, til að skýra það dálítið fyrir þessari hv. d. Málið hefir oftar en einu sinni verið rætt í hv. Ed. og fengið þar góðar undirtektir, og nú hefir hún samþ. Það í von um, að það kynni að verða samþ. hér í þessari hv. d.

Það liggja hér fyrir 2 brtt., frá hv. 1. þm. N.-M. og hv. 4. þm. Reykv. Ég vil segja það strax, að ég álít, að till. hv. 4. þm. Reykv. sé mjög eðlileg, og ég legg til, að hún verði samþ., þó að það kosti það, að frv. verði að fara aftur til hv. Ed.

Aftur á móti álít ég, að till. hv. l. þm. N-M. verði til mikils ógreiða fyrir málið, ef þær verða samþ., þó ég viti, að það hefir ekki vakað fyrir honum.

Ég vil fyrst minnast á það, sem tekið hefir verið fram í þeirri grg., sem fylgt l:efir frv. á fyrri þingum, að ástæðan fyrir því, að sett hefir verið þetta tímatakmark — ég held, að málinu hafi fyrst verið hreyft á þinginu 1930 — er sú, að það þarf að fá ýtarlegan undirbúning áður en byrjað er á framkvæmdum, en hinsvegar er ekki vansalaust fyrir landið að hafa enga háskólabyggingu árið 1940. ég skal ekki fara mikið út í það hér, hvers vegna þetta tímabil hefir verið tekið. En vonir, sem landsmenn tengja við það árabil, valda því, að þeir verða að undirbúa það, að landið geti þá staðið á eigin fótum í ýmsum efnum, sem, það ennþá ekki gerir, svo vansalaust sé. Við höfum nú síðan árið 1911 haft háskóla hér í landinu an þess að sjá honum fyrir sérstöku húsi, og það er ekki hægt að segja, að það húsnæði, sem hann hefir búið við, sé viðunanlegt, þó það geti eftir atvikum talizt afsakanlegt vegna fátæktar landsins og margra annara nauðsynjamala, sem þurft hefir að sinna. Hitt er aftur á móti ekki afsakanlegt að láta undirbúning dragast ótakmarkað. Þegar frv. þetta kom fyrst fram, var að vísu ekki sit kreppa á komin, sem nú er. Það var því að öllu leyti eðlilegt tímatakmark, sem sett var þá í frv., að það ætti að framkvæmast á 3–4 árum. Þetta hefir nú að vísu breytzt sem stendur vegna þeirrar kreppu, er nú stendur yfir, svo að ekki er hægt að telja líklegt, að Alþingi muni álíta rétt að byrja á næstu misserum á nýjum stórbyggingum. En það er engu að síður nauðsynlegt að undirbúa þetta mal, svo að ekki strandi á því og hægt verði að hefjast handa þegar við fyrsta tækifæri.

Það hefir nú dálítið verið gagnrýnt í hv. Ed og verður kannske einnig gert hér, að það þykir sumum sem litið sé fengið með þessu frv., þar sem ekki er gert ráð fyrir, að ákveðin fjárveiting verði tekin upp í ákveðin fjárlög, og það má segja, að lögin feli raunar ekki í sér nema eitt atriði, er máli skipti, en það er líka afarstórt atriði, sem sé það að gerðir verði samningar við Rvíkurbæ um lóð á hentugum stað og nægilega stóra fyrir þær háskólabyggingar, sem hér verður talin þörf á að reisa á næstu öldum.

Ég hygg eftir undirtektum bæjarstjórnar Rvíkur, að það séu miklar líkur til, að hagkvæmir samningar muni takast í þessu efni, ef líkur væru fyrir því, að landið gæti staðið við þær áætlanir, sem gerðar eru í frv. Munurinn á frv. og brtt. hv. 1. þm. N.-M. er sá, að það er að vísu hægt samkv. brtt. að leita samninga við bæjarstj. um land fyrir háskólabygginguna, en með brtt. er því slegið á frest að gera ýtarlegar áætlanir um skipulagsatriði byggingarinnar, svo að það er meira lagt í vald framtíðarinnar um fyrirkomulag og framkvæmd þessa máls heldur en eftir frv. er gert. En ég óttast það, að með þeim fresti sé málinu stefnt í meiri óvissu en ella. Þannig mundi þessu máli kannske ár eftir ár verða hent á milli þeirra aðilja, sem um það eiga að fjalla samkv. brtt.

Ég skal að sönnu játa það, að með 1. gr. frv. er því ekkert slegið föstu í sjálfu sér, hvenær verði byggt, en með henni er þó bæjarstj. gefin ástæða til þess að gefa ákveðin svör um málið, og stj. gæti þá í samráði við háskólaráðið unnið að samkomulagi um þetta mál. Það eru miklar líkur til, að það fáist land á heppilegum stað hér fyrir sunnan bæinn og hefir borgarstjóri sjálfur einmitt bent þar á mjög æskilegt svæði milli Hringbrautar að norðan og vestan og tveggja annara vega að norðvestan og vestan. þetta háskólahverfi yrði því afskammtað af vegum á þrjár hliðar, en við fjórðu hliðina mundi koma fyrirhugaður skemmtigarður bæjarins, neðan og sunnan við háskólalóðina. Skammt þar frá standa einnig tvær reisulegustu menningarstofnanir ríkisins í þessum bæ, landsspítalinn og sundhöllin.

Áður en hugmyndin um þetta framtíðarskipulag skólaþorpsins kom til umr. var hugmynd manna að ætla væntanlegri háskólabyggingu og stúdentagarði stað á lítilli lóð við Skólavörðuna. Þar hefði verið hægt að reisa skólabyggingu, sem sniðin væri við þarfir yfirstandandi tíma og ennfremur heimavist fyrir um 40 stúdenta, en ekki meira. Það hefðu engin ráð verið fyrir seinni tíma að bæta við þær byggingar, þó þörf krefði. Þær byggingar hefðu sennilega ekki fullnægt þörfum tímans í tíð núlifandi manna, hvað þá lengur, og hefði þá farið hér eins og viða í stórborgum Evrópu, að háskólinn hefði orðið inniluktur á þröngu svæði og brátt orðið að taka lóðir á öðrum stöðum undir byggingar fyrir einstakar deildir, til þess að fullnægja húsnæisþörf skólans, en það hefði orðið stofnuninni til hins mesta tjóns. Í þessari sögu málsins felast eiginlega sterk rök fyrir því, að réttara sé að bíta þegar fastara um hnútana heldur en brtt. hv. 1. þm. N.-M. gefa tækifæri til. Stúdentar og þeirra styrktarmenn hafa þegar safnað allmiklu fé til byggingar stúdentagarðs, og höfðu þeir með bæi 2. og 4. þm. Reykv. í broddi fylkingar hafizt handa með framkvæmdir á lóðinni hjá Skólavörðunni með sjálfboðavinnu við grjótsprengingu, er kostaði um 20 þús. kr. Þetta var gert áður en hugmyndin um hinn nýja stað kom fram. En þegar hún kom fram, varð sammæli um það milli þessara manna og stjórnarinnar að láta þessar framkvæmdir eiga sig á þessum stað, og var það möglunarlaust gefið eftir, þó það sé mála sannast, að stúdentar eiga erfitt með húsnæisleysið, en hitt mátti sín meir, að aðstaðan verður svo miklu betri á hinum nýja stað.

Með frv. er það tryggt, að tækifæri gefst til að byrja á byggingu stúdentagarðs, þegar til hans hefir safnazt svo mikið fé, að ástæður leyfi að byrjað sé, og nú hafa stúdentar og hjálparmenn þeirra þegar dregið saman svo mikið fé, að full ástæða er til að láta ekki standa á að leysa þetta

Ég vona, að hv. 1. þm. N.-M. viðurkenni, að með frv. er betur tryggð aðstaða stúdenta í þessu efni heldur en með brtt. hans, vegna þess, að með frv. er lagt ákveðið plan í þessu máli, en með brtt. er það plan ekki fengið fyrr en þingið hefir síðar meir ákveðið það.

Með frv. er auk þess tryggt, að þingið getur látið byrja á framkvæmdum háskólabyggingarinnar þegar er tækifæri gefst vegna fjárhags ríkissjóðs, sem vonandi er, að ekki dragist mjög lengi.

Ég hygg, að eftir núverandi verðlagi verði menn sammála um það, að ekki sé hægt að gera ráð fyrir, að fyrirhuguð háskólabygging muni kosta minna en 600 þús. kr. í samanburði við t. d, sundhöllina, sem gert er ráð fyrir, að muni kosta 1/2 millj. kr., og landsspítalann, sem kostaði 11/2 millj. kr., þó mikill hluti kostnaðarins þar liggi í dýrum innanhúsútbúnaði og munum.

Kostnaðarhliðin á háskólabyggingunni er ekki alveg órannsakað mál. Árið 1930 var gerð teikning og áætlun um bygginguna, sem byggð var á óskum frá öllum deildum háskólans um húsnæði í hinni nýju byggingu. Ég get hugsað, að þótt ekki verði hægt að reisa alla bygginguna í einu, mundi mönnum þykja ávinningur, þó ekki væri í fyrstu hægt að koma upp nema t. d. bókasafni fyrir skólann eða funda- og hátíðasal, því það gæti hugsazt, að þannig mætti fullgera til afnota nokkurn hluta byggingarinnar, þó sjálfar kennslustofurnar yrðu eitthvað að bíða, en þetta væri því aðeins hægt, ef frv. væri samþ. Eins og nú standa sakir í skólamálum okkar, mun engin stofnun vera eins illa sett og háskólinn. Ég held, að það sé óhætt að fullyrða, að það hefir mikla þýðingu fyrir þjóðina, að embættis- og fræðimannaefni hennar finni það þegar á ungum aldri, að þjóðfélagið, er sanngjarnt gagnvart kröfum þeirra um hollt uppeldi og geri þá ekki að hornrekum meðal æskulýðsins. Þetta hefir nú nýlega verið lagfært hvað snertir einn flokk embættismannaefna, sem sé læknanemana, með byggingu landsspítalans. Viðvíkjandi annari kennslu í háskólanum er aðstaðan sannast að segja litt viðunandi. Það er og mála sannast, að áður en landsspítalinn kom, var læknadeildin á hálfgerðum flækingi með sína kennslu, og átti undir högg að sækja við einkastofnun um þýðingarmikinn hluta kennslunnar, stofnun, sem veitti deildinni mjög takmarkaðan aðgang, sem ríkið hafði litla aðstöðu til að ráða bót á. ég vil svo enda með því að minnast á það, að ég vænti þess, þó sumum mönnum finnist, að með þessu frv. sé fullskammt á veg gengið, og að háskólinn hefði átt skilið, að fastar hefði verið tekið á málinu, en öðrum aftur á móti sýnist, að fulllangt sé farið og ógætilegt að gera slíkar áætlanir eins og ástatt er, að menn munu sjá, að með frv. er farið það langt, sem hóflegt má teljast og hægt er að búast við á þessum tímum.

Ég álít, að jafnvel þótt hv. 3. og hv. 4. þm. Reykv. hefðu gjarnan kosið, að strax hefði verið byrjað á háskólabyggingunni, muni þeir sætta sig við frv. eins og það er, af því að þeim er það ljóst, að ástæðurnar leyfa ekki meira en frv. gerir ráð fyrir. Aðalatriðið á þessu stigi málsins er að tryggja það, að skilyrði verði fyrir því, að í framtíðinni verði hægt að byggja hér skipulegt háskólaþorp, er fullnægi kröfum framtíðarinnar um margar aldir, og í öðru lagi, að hægt sé að hefjast handa um byggingu stúdentagarðsins jafnskjótt og fært þykir.

Ég skal að síðustu víkja fáeinum orðum að brtt. hv. 4. þm. Reykv. Ef hún hefði komið fram fyrir 2 árum, hefði ég ekki verið svo mjög ánægður með hana, þó ég geti fallizt á hana nú. Reynsla sú, er fengizt hefir með hitaveitu til landsspítalans, hefir orðið sú, að veitan reynist dýrari en hugsað var í fyrstu, og bendir það til þess, að nokkur vafi geti verið á því, hvort heppilegt sé að fastbinda það í frv. að gera ráð fyrir samskonar ráðstöfunum með tilliti til væntanlegrar háskólabyggingar vegna þess, að kostnaðurinn er svo mikill, að það getur verið á takmörkunum, að slík hitaveita borgi sig. Ég geri á hinn boginn ráð fyrir því, að fyrir hv. flm. brtt. hafi vakað það, að fulllangt væri gengið með því að skylda bæjarfél. til þess að leggja fram þessi hlunnindi. Get ég því, eins og áður er sagt, fallizt á það með hv. þm., að nægilegt sé að setja í frv. heimild til samninga, bæði af því, að ekki sé sanngjarnt að gera hitaveituna að skilyrðislausri kröfu, og eins hinu, að vafasamt sé, að slíkt sé eftirsóknarvert.