10.03.1932
Efri deild: 25. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1291 í B-deild Alþingistíðinda. (891)

21. mál, geðveikrahæli

Frsm. (Jón Jónsson):

Ég fæ nú ekki séð,að nein eftirsjón sé að þessum lögum, svo ófullkomin eru þau. Þau mæla fyrir um stofnun Gamla-Klepps, sem fyrir löngu er komin til framkvæmdar. Þá mæla þau fyrir um tvo atriði viðvíkjandi rekstrinum. Annað er um daggjöld sjúklinga. Það er fyrir löngu úrelt orðið og hætt að fara eftir því. Hitt er um yfirstjórn spítalans. Eftir því ákvæði hefir aldrei verið lifað. Þessi lög hafa því algerlega verið dauður bókstafur í seinni tíð. Ég er þó sammála hv. 1. landsk. um það, að rétt væri að setja lög um geðveikrahælin; en ekki þó reyndar frekar um þau en önnur sjúkrahús. T. d. eru engin lög um landsspítalann. Ég hefi orðið var við það, að núv. landlæknir hefir í huga undirbúning um heildarlöggjöf fyrir sjúkrahúsin. Til þessa hafði n. engin tök né tíma. Hún hefði að vísu getað bent á, að þetta væri æskilegt, en þar sem hún vissi um þennan undirbúning landlæknis, þá gerði hún það ekki. En jafnvel þótt ekkert komi í stað þessara 1., þá tel ég enga eftirsjón að þeim. Svo úrelt eru þau orðin.