10.05.1932
Sameinað þing: 8. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1320 í B-deild Alþingistíðinda. (967)

22. mál, útvarp og birting veðurfregna

Frsm. sjútvn. Ed. (Ingvar Pálmason):

ég skal játa, að sjútvn. Ed. hefir ekki borið þetta frv. undir forstjóra veðurstofunnar, og ástæðan er sú, að þetta frv. er borið fram af stj. og þar af leiðandi taldi sjútvn. ekki þörf á að bera það undir veðurstofuna. Í annan máta var borin fram í hv. Nd. brtt. um að skeyta l. gr. framan við frv., og þess vegna gerði sjútvn. Ed. ráð fyrir, að ef forstjóri veðurstofunnar hefði haft nokkuð við það að athuga, þá hefði það hlotið að koma fram þar. Sjútvn. Ed. áleit einnig, að sú brtt. hefði verið borin undir þá aðila, er hlut eiga að máli.

Ég þykist skilja það á hv. 3. landsk., að veðurstofunni þyki athugavert, að starfstíminn er lengdur frá því, sem venja hefir verið samkv. ákvæðum 1. gr., þar sem ákveðið er, að veðurfregnum skuli útvarpað frá útvarpsstöðinni í Reykjavík a. m. k. 4 sinnum á sólarhring frá 1. sept. til 31. maí árlega. Ég vildi aðeins skýra frá því, að það er ekki að kenna vanrækslu sjútvn. Ed., þó að þessi ákvæði séu ekki sett í 1. gr. frv. í samráði við veðurstofuna. En vitanlega er það álitamál, hvort það hefir verið sérstök ástæða til að fara til þessara aðila og bera þessi ákvæði undir þá. Þeim hlaut að vera ljóst, hvað hér var á ferðinni, og hefðu þeir því átt að geta náð tali af sjútvn. Ed. En sjútvn. Nd. getur lýst afstöðu sinni í þessu efni. Ég sé enga ástæðu til að taka málið af dagskrá og tel rétt að afgr. Það á þessum fundi.