24.02.1932
Neðri deild: 10. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1335 í B-deild Alþingistíðinda. (987)

41. mál, ríkisábyrgð á innstæðufé Útvegsbanka Íslands

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Það er upphaf þessa máls, að á mánudag síðastl. barst mér svo hljóðandi bréf. frá fulltrúaráði Útvegsbankans:

„Reykjavík, 22. febr. 1932. Á fundi fulltrúaráðs Útvegsbanka Íslands h/f 21. þ. m. var samþ. í einu hljóði að senda fjármálaraðherra svo hljóðandi erindi:

Ver leyfum oss hér með að tilkynna yður, herra fjármálaraðherra, að undanfarna daga hafa stórar fjárhæðir af sparifé því, er Útvegsbanki Íslands h/f hefir haft til ávöxtunar, verið tekið út úr aðalbankanum og útibúum hans, þannig, að bersýnilegt er, að hræðslu fólks um innstæður sínar í bankanum er um að kenna. Þar sem kringumstæður bankans voru erfiðar áður, er fyrirsjáanlegt, að bankinn verður að loka, ef ekki er þegar fyrirbyggt, að hann verði fyrir frekari fjármissi á þennan hátt.

Vér leyfum oss því hér með að leita stuðnings yðar til þess, að bankinn geti haldið áfram starfsemi sinni. sá stuðningur, sem ver teljum óhjákvæmilegan, er:

1) Að ríkissjóður ábyrgist allt það fé, sem Útvegsbankinn og útibúi hans hafa tekið á móti til ávöxtunar eða geymslu, þar með talið innheimtufé.

2) Að endurkaup fáist á fiskvíxlum viðskiptamanna bankans á svipuðum grundvelli og verið hefir.

Þetta tilkynnist yður hér með. Virðingarfyllst. Sv. Guðmundsson. Lárus Fjeldsted.

Til fjármálaráðherrans, Reykjavík“. Samstundis og ég fékk þetta bréf afhenti ég form. flokkanna afrit af því og gerði þeim aðvart um það, að vegna þessa máls mundi sennilega bráðlega þurfa að halda einkafund í Sþ. Þessi fundur var haldinn í gær. Flokkarnir létu þar í ljós álit sitt á málinu, og árangur þess er frv. það, sem nú er hér til umræðu.

Á fundinum gerði ég nokkra grein fyrir rökum þessa máls. Og þótt það sé endurtekning fyrir hv. þm., vil ég hér á opinberum fundi rifja upp sumt af því.

Þetta mál kom ekki að öllu leyti á óvart, því að á 2 undanförnum árum hafa festst hjá bankanum allmiklar fjárhæðir.

Landbankinn hefir á þessu tímabili aukið lán sín til Útvegsbankans um 2,5 millj. kr. Hambrosbanki hefir veitt 3,5 millj. kr. lán gegn ríkisábyrgð. Að vísu hefir ekki allt þetta fé festst síðan lánið var tekið, því að rúml. 1 millj. kr. gamalt lán er innifalið í nýja láninu. Nú hafa ca. 500000 kr. í ísl. ríkisskuldabréfum losnað úr veðböndum. Eftir þeim upplýsingum, er ég fékk fyrir áramótin, taldi ég alltaf, að það myndi verða töluverð fjárhæð af þessu nýja fé laus þegar að vertíð kæmi. En raunin hefir orðið önnur, sumpart vegna úttekta á sparisjóðsfé.

Ástæður til þess ástands, sem nú er skapað, eru margvíslegar, og mun ég ekki telja þær allar hér. Verð á afurðum hefir verið mjög lagt, og stendur bankinn því nú verr að vígi gagnvart útlöndum en áður. Það má telja, að Útvegsbankinn hafi verið illa undir atvinnukreppuna búinn og ekki dregið nægilega saman seglin í viðskiptum sínum og starfsháttum. frá því um mitt síðastl. ár hefir hann misst mestallar innistæður á hlaupareikningi og mikið af öðru innlansfé, eða um 2 millj. kr., og alls frá byrjun hefir hann misst um 3 millj. kr. á þennan hátt. Viðskiptamenn bankans hafa jafnvel ekki þorað að geyma þar viðskiptafé, er þeir hafa fengið að láni hjá bankanum, og er þó vitanlegt, að það er höfuðskilyrði fyrir allri bankastarfsemi, að viðskiptamenn hafi fullt traust á stofnuninni og láti fé sitt standa þar inni.

Ráðstafanir þær, sem farið er fram á að gerðar verði, eru nauðsynlegar vegna þess, að mjög hefir aukizt peningaúttekt manna úr bankanum nú seinustu viku, og þótt nokkuð væri kyrrara á laugardaginn, þá hófust úttektir á ný á mánudag, en lítið var um slíkt í gærdag.

Bankaráð og bankastjórn telur enga hættu stafa af þeim erlendu ábyrgðum, sem bankinn stendur nú í og þó nema 1,4 millj. kr. Aðalhættan er að þeirra áliti fólgin í þessum útektum á innstæðufé. Hinar erlendu ábyrgðir bankans námu upphaflega um 2,4 millj. kr., en eru nú ekki nema 1400000 kr., hafa m. o. o. lækkað um 1 millj. kr. Ábyrgðir þessar eru að sumu leyti nýjar, og að sögn bankastj, er öruggt um framlengingar á þeim og greiðslur.

Aðalkreditorar bankans hér á landi eru Landsbankinn og ríkissjóður, en erlendir viðskiptamenn hans eru Hambrosbanki, Privatbankinn og ríkissjóður Dana. Ég þori að fullyrða, eftir nýlegu viðtali við alla þessa aðila, að þeir eru bankanum velviljaðir og vilja, að hann starfi áfram. Bankinn gat þó um áramót hvorki greitt ríkissjóði Dana né heldur Privatbankanum afborganir. Privatbankinn hefir tilkynnt, að hann muni ekki beita inneign sinni Útvegsbankanum á nokkurn hátt til tjóns eða á þann hátt, að það verði bankanum að falli. Ef bankinn á að starfa áfram, ber brýnustu nauðsyn til þess að stöðva hið fyrsta úttekt innstæðu- og geymslufjár. Það má hugsa sér, að afleiðingar af ríkisábyrgð gætu orðið með ýmsu móti. Ef til vill heldu úttektir áfram, þrátt fyrir ábyrgð á innstæðufé. En að svo miklu leyti sem hræðslu viðskiptamanna væri um að kenna, þá ætti ábyrgðin að sjálfsögðu að koma í veg fyrir hana. En um það, sem stafar af fjandskap til stofnunarinnar, mun hún auðvitað engu breyta. En komi ríkisábyrgð á innstæðurnar, ætti það að vera auðveldara fyrir Landsbankann og Útvegsbankann að jafna þann sparifjárflutning, sem verða myndi á milli þeirra, enda er það ein af skyldum þjóðbanka að sjá um slíka „cirkulation“ og að sama fjármagnið sé ekki tvílánað. Ef ábyrgð getur komið í veg fyrir úttektir úr bankanum og komið því til leiðar, að menn leggi fé sitt í hann á ný, þá hygg ég komið í veg fyrir bráðustu hættuna. Tilgangurinn er sem sagt alls ekki sá, að skapa nýjan óeðlilegan fjárstraum til bankans, heldur aðeins að hindra úttektirnar. Þetta er bankanum vel kunnugt og þess mun verða krafizt af honum, að hann geri nauðsynlegar ráðstafanir ef aðstreymi skyldi verða óeðlilega mikið. En það mun tæplega að óttast.

Eftir úttektir þær, sem gerðar hafa verið, munu ekki vera orðnar nema um 1800000 kr. eftir hjá bankanum af innlánsfé. þessar innstæður hafa staðið af sér margar hviður og því nokkuð öruggt viðskiptafé fyrir bankann, þar sem nú í 10 ár hefir ekki linnt úttektum, hvorki í Íslandsbanka né Útvegsbankanum.

Ég tel, að forða eigi bankanum frá lokun. Vegna þess álits, sem verið hefir á fjárhag bankans, æskti ég þess fyrir nokkru, að bankastjórn, endurskoðendur og bankaeftirlitsmaðurinn athuguðu um eignir bankans og létu álit sitt í ljós um, hvort þeir teldu bankann „solvent“, og yfirleitt hvernig hagur hans stæði. Álit þessara manna, sem byggt er m. a. á mati frá fyrri árum, er einróma, að bankinn sé „solvent“. En eins og ástatt sé nú, þá telja þeir líklegt, að mest af hlutafénu sé tapað, en áhættufé danka ríkissjóðsins óskert. En það fé hefir á allan hátt hlutafjáreðli, nema hvað greiða verður af því vexti og afborganir eftir föstum samningi. Þó er féð þess eðlis, að það er lítt hugsanlegt, að það geti orðið hættulegt fyrir „liquiditet“ bankans. Á þessum tveim árum hefir Útvegsbankinn afskrifað um 12 millj. kr., og einhverntíma kemur í botn, þótt djúpt hafi reynzt. Á þessum tímum er, bæði hér á landi og annarsstaðar, talað um, hvernig eigi að forða privatmönnum, sem í raun og veru eru „solvent“, frá gjaldþroti, svo að þeir geti staðið við skuldbindingar sínar þegar betur árar. Og þegar um stofnun sem þessa er að ræða, þá á hún að sjálfsögðu að njóta ráðstafana, sem gera þarf, til þess að forða henni frá gjaldþroti, þar sem hún í raun og veru er „solvent“. Vera má, að fyrir þetta þing verði lagðar einhverjar svipaðar ráðstafanir til þess að bjarga privatmönnum. Vitanlega byggist sú ráðstöfun, að taka ríkisábyrgð á innstæðum manna í bankanum, á því, að hann sé „solvent“. Og það á ekki að þurfa að verða teljandi taphætta á þessu ári fyrir bankann. Það hefir gengið svo 2 undanfarin ár, að bæði bankar og einstakir atvinnurekendur hafa tapað stórfé. Og þegar svo er komið, þá ber ekki einungis að heimta, heldur er þess hin mesta nauðsyn, að útlánum sé þannig háttað, að ekki fylgi teljandi áhætta, og einmitt á slíkum árum, þegar allt er komið niður í öldudalinn, vaxa líkurnar fyrir því stórlega, að bönkum og atvinnurekendum takist að komast hjá töpum. Ef bankinn ætti að hætta störfum nú, þegar ekki er hægt að selja eignir hans, myndi margt fara í súginn. Sömuleiðis myndu verðmætin skerðast við flutning til annara stofnana. Það er enginn vafi á því, að sé bankinn stöðvaður nú, mun það yfirleitt vekja hina mestu óánægju innanlands og veikja traustið á fjárhag þjóðarinnar.

Sú þörf, sem getið er um í 2. gr. bréfsins frá Útvegsb. fyrir nýtt fé til atvinnurekstrar, er hin sama, hvort sem bankinn heldur áfram eða ekki. Og ef hann hættir, þá þarf eigi að síður að fullnægja þeirri þörf, annaðhvort af bönkunum eða þá að þingið verður að raðstafa því á einhvern hátt. Það atriði er því hið sama, hvort sem bankinn hættir eða heldur áfram. Vitanlega verður að sjá fyrir einhverju rekstrarfé fyrir atvinnuvegina. Vil ég í þessu sambandi nefna þá möguleika, sem nú eru fyrir nýju fé, en það er um £ 100000,00 lánsloforð frá Barkleysbanka, sem ég og Magnús Sigurðsson útveguðum í vetur. Einnig er vitað, að hægt er að fá „exportcredit“ frá Englandi til lengri tíma en áður hefir tíðkazt. Það er þörf hins vinnandi fólks og atvinnurekstrarins, sem líta verður á, og þing og stj. getur ekki haft annað sjónarmið; og ég tel því rétt að gefa bankanum tækifæri til þess að afla sér nýs rekstrarfjár.

En það er fleira í þessum efnum, sem þarf að veita athygli. T. d. hygg ég þurfa að veita bankanum linkind um seðlainndrátt frá því, sem nú er, eða sjá um, að hann njóti góðra kjara um þær 4 millj. kr., sem hann hefir nú í umferð. Hvernig sem því yrði fyrir komið, hvort heldur seðlarnir yrðu dregnir inn eða haldið áfram í umferð, þarf að gera nýjar ráðstafanir um skipulag og rekstur bankans. Tel ég, að með flutningi þessa frv. verði svo í haginn búið, að undirbúa megi slíkan lagabálk í samráði við bankastj. og fjhn. þingsins.

Ég mun svo ekki fjölyrða um þetta að sinni, en undirtektirnar á lokaða fundinum í nótt veittu mér vissu fyrir því, að málið mundi ná fram að ganga í þinginu í dag, svo að hægt verði að fá samþykki konungs nú þegar.